Skírnir - 01.09.2003, Síða 7
HANNES PÉTURSSON
Þakkaróður eftir Klopstock
Friedrich Gottlieb Klopstock stundaði nám á heimaslóðum
sínum, í nafnfrægum latínuskóla í Schulpforta (nú Pforte) á Sax-
landi. Þar var klaustur fyrir siðbreytingu. I þessum skóla mennt-
aðist hann stórvel í fornklassískum málum, og þau rit Biblíunnar
sem skáldlegust þykja höfðu djúptæk áhrif á hann samhliða verk-
um Grikkja og Rómverja. Meðal skálda sem nær stóðu í tíma urðu
enskir meistarar, einkum Milton, honum helztu fyrirmyndir. Og
er þetta alkunnugt í evrópskri bókmenntasögu; einnig hitt, að í
burtfararræðu á latínu við stúdentspróf í Schulpforta 1745 setti
Klopstock, 21 árs að aldri, fram háleitt markmið: að ort yrði þýzk
hetjukviða sem að sínu leyti svaraði til hetjukviða sem til voru á
sumum öðrum tungum. Og hann sökkti sér þegar einbeittur nið-
ur í hugmyndina, jafnt að því er tók til viðfangsefnis sem fagur-
fræði braglistar, skyggndist eftir hetju innan sögu föðurlands síns
er hæfði markmiðinu, en hafði ekki komið auga á hana þegar hon-
um birtist í draumvitrun yrkisefnið, hetjan sem höfðaði til allrar
sálar hans og sinnis: Kristur, endurlausnarinn sjálfur. Að þessari
leit, innri glímu, víkur Klopstock í kvæði 1781 („An Freund und
Feind“). Messíasarkviða beið hans!
Klopstock innritaðist í guðfræðideild háskólans í Jena þetta
sama ár, en fór nokkrum mánuðum síðar til Leipzig, sem þá var
háborg andlegs lífs í Þýzkalandi, og hélt þar áfram námi sínu. I
þeim borgum hóf hann vinnu að Messíasarkviðu. Þrjá fyrstu
söngva hennar samdi hann upphaflega í lausri ræðu, gerði síðan
atrennu að því að kveða þá undir alexandrínskum hætti, sem var í
tízku, en valdi eftir það hinn fornklassíska bragarhátt hetjukviða,
hexameter, og lauk þremur fyrstu söngvunum í þeirri gerð
1746/47.
Skírnir, 177. ár (haust 2003)