Skírnir - 01.09.2003, Síða 10
236
HANNES PÉTURSSON
SKÍRNIR
í þýðingu. Hann greip ekki til háttarins sem er á kviðunni sjálfri,
heldur bar fram þakklæti sitt undir frjálsri hrynjandi. Ljóðið lét
hann prenta aftast í lokabindi verksins, og er textamunur í yngri
gerð nær enginn utan sá að í annarri línu fyrsta og síðasta erindis
breytti skáldið orðalagi; í staðinn fyrir: „Versöhner Gottes, von
dir das heilige Lied!“ kvað hann: „Versöhner Gottes, des neuen
Bundes Gesang!“ - Séra Jón á Bægisá íslenzkaði þetta ljóð undir
fornyrðislagi (sbr. Messíasarkviðu, Kh. 1838).
Klopstock er hér staddur við mikið takmark. Torsótt leið er að
baki frá því er hann hóf að yrkja um endurlausnina meira en ald-
arfjórðungi fyrr. í öðru kvæði („Dem Erlöser", 1751) hafði hann
vonað til Krists að hann lifði þangað til hann hefði sungið til enda
ljóð sitt um hann („...wenn es gesungen ist / das Lied von dir...“).
Nú hafði sú bæn verið heyrð, og hann er gagntekinn þökk og
hamingju. Minningar líða honum fyrir innri sjónir. Margt hafði
hann reynt, gleði jafnt sem harma, þann langa tíma sem verkið var
í smíðum. Hann minnist hrifningarfullra lesenda, einnig þess er
starf að kviðunni lá niðri, iðjustundanna þegar hann gaf sig allan
að verkinu (og „helgaðar" voru í augum hans, „die Stunden der
Weihe“), fráfalls góðra förunauta og ástvina, ennfremur þungra
sjúkdómsrauna sem hann mátti þola (1754). Orðin „Einni gröf“
munu vísa til þess er kona skáldsins, Meta Moller, lézt eftir skamma
sambúð 1758, við fæðingu frumburðar þeirra, sonar sem ekki varð
lífs auðið, og voru þau lögð í eina gröf. (Klopstock hlaut hinztu
hvílu við hlið þeirra að eigin ósk.)
Ljóðið „An den Erlöser“, hinn hjartahlýi en jafnframt um sumt
stórláti þakkaróður Klopstocks, er gætt ýmsum einkennum sem
mörkuðu óðum hans sérstöðu í þýzkum skáldskap þegar er þeir
tóku að birtast fyrst, um 18. öld miðja. Höfundurinn syngur orð
sín af þróttugri tilfinningu, fer hratt yfir, hvort heldur er frá einni
hugsun til annarrar eða frá einum setningatengslum til annarra.
Og hefur mörgum í tímans rás þótt allsnúið að fylgja skáldinu
eftir í þessum kvæðum, þegar hann herðir hvað mest á hnútum
stílsins; að því slepptu að undirtónar hverrar þjóðtungu taka
breytingum frá kynslóð til kynslóðar.