Skírnir - 01.09.2003, Page 26
252
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
IV
Nú hefur verið rætt stuttlega um fyrsta lið (ýmis gagnrýni á hinn
mikilláta) og þriðja lið (útstrikun á einni setningu) í upptalning-
unni hér að ofan. Annar liður fól hins vegar í sér að ekki væri allt
jafn djúptækrar merkingar í lýsingu Aristótelesar. Kristján vísaði
á rólegt göngulag og djúpan málróm hins mikilláta sem hugsanleg
dæmi um aukaatriði í lýsingu Aristótelesar. En hvers vegna ættum
við að freistast til að líta á þetta sem aukaatriði eða gamansama
skírskotun til tiltekinna einstaklinga? Hvað segir það okkur um
afstöðu viðkomandi til hins mikilláta hjá Aristótelesi? Skoðum
nánar málsgreinina þar sem Aristóteles víkur að rólegu göngulagi:
Enn fremur telst rólegt göngulag vera til merkis um mikillæti, dimmur og
styrkur rómur, því maður sem tekur fátt hátíðlega þarf ekki að flýta sér
og maður sem lítur ekki upp til neins þarf ekki að æsa sig, en hvellur róm-
ur og asi spretta af flýti og æsingi.42
Aristóteles álítur það enga tilviljun að rólegt göngulag og dimmur
og styrkur rómur séu til merkis um mikillæti. Þessi einkenni eigi
rætur sínar í því viðhorfi hins mikilláta - hann lítur ekki upp til
neins og fyrir honum er ekkert stórt - sem Aristóteles leggur svo
ríka áherslu á en Kristján ekki.43 Við komum því hér að nákvæm-
lega sama mun og í fyrri hluta ritgerðarinnar: Stórmenni Kristjáns
og hinn mikilláti í skilgreiningu Aristótelesar virðast æði ólíkir.
Þar sem Aristóteles sér fyrir sér mann sem er latur og seinn til
verka, tekur sér ekki margt fyrir hendur nema það sé merkilegt, er
42 Siðfrœði Níkomakkosar, fyrra bindi, bls. 353 [1125a].
43 Athyglisvert er að Kristján skýrir ekki hugmynd sína, eða annarra heimspek-
inga, um „skírskotun" og „gamansemi". Ljóst er að þetta getur ekki verið forn-
grísk gamansemi, því einmitt þessi rómur og þetta göngulag er aðdáunarvert að
mati Grikkja, ekki síst Aristótelesar. Það var alsiða í fornöld að tengja útlit og
hátterni siðgerðum. Reyndar var til sérstök fræðigrein, fýsíognómía, sem útlist-
ar tengsl siðgerðar og útlits. Um tengsl hátternis (s.s. talanda) og siðgerðar gild-
ir hið sama, eins og ráða má af riti lærisveins Aristótelesar, Þeófrastosar (Mann-
gerðir). Dimmur rómur gefur til kynna þroska og karlmennsku, sbr. umræðu
Aristótelesar í De. gen. 5.7.786b35-787a2. Einnig segir hann (Anal. pr. 2.27.70b7)
að leiða megi siðgerð af líkamlegum eiginleikum, ef viðurkennt sé að líkami og
sál hreyfist saman fyrir tilstilli náttúrulegra áverkana. Stóumenn þróuðu þessa
kenningu (t.d. Poseidoníos).