Skírnir - 01.09.2003, Page 28
254
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
hinir verðugu séu metnir að verðleikum, fyrir heilbrigðu stolti,
góðu sjálfsmati en umfram allt sjálfsvirðingu, og fyrir mikilvægi
þess að leiða þessi gildi aftur til öndvegis í samtímanum.45 Þessi
krafa er að vísu almenns eðlis og hana má finna víða í fornri sið-
fræði og siðfræði nýaldar, eins og Kristján bendir sjálfur á. Endur-
reisn slíks stolts þarf því í sjálfu sér ekki að vera háð endurreisn
mikillætis í skilningi Aristótelesar. Kristján gæti því orðað hug-
sjón sína um verðleika og heilbrigt sjálfsmat án þess að flækja hin-
um mikilláta í málin.
í öðru lagi má leiða rök að því að þeir þættir í lýsingu Aristótel-
esar á hinum mikilláta sem Kristján telur aukaatriði, eða vill strika
út, séu einmitt hinir sömu og nútímamenn kunni lítt að meta og
þeim þyki engin eftirsjá í. Hvaða máli skiptir þótt Kristján hafi
ekki endurvakið leti og seinagang eða fyrirlitningu á fjöldanum?
Leitast hann ekki einmitt við að endurvekja einungis hið besta úr
stórmennskuhugsjóninni? Þessi spurning er erfiðari en ætla mætti
við fyrstu sýn. Hún beinir athyglinni að spurningunum sem varp-
að var fram í upphafi þessarar greinar: Hvað felst í endurreisn
mikillætis í anda Aristótelesar? Og er slík endurreisn möguleg á
okkar dögum? Hvernig leggjum við mat á það hvort tekist hafi að
endurvekja mikillæti í skilningi Aristótelesar í samtímanum? Til-
raun Kristjáns getur vart talist róttæk tilraun til að endurvekja
mikillæti í samtímanum því stórmenni hans er verulega frábrugð-
ið hinum mikilláta hjá Aristótelesi. I skrifum Kristjáns höfum við
því ekki fengið svar við þeirri spurningu okkar hvort endurreisn
mikillætis í anda Aristótelesar sé möguleg nú um stundir. Og efa-
semdir hafa vaknað um það hvort slík endurvakning sé æskileg,
þ.e.a.s. hvort ekki væri nær að „endurvekja" afstöðu á borð við
stórmenni Kristjáns sem fellur betur að hugarheimi nútímans?
45 Hér má vísa á fjölmörg verk Kristjáns á íslensku en þó sérstaklega á ensku. Sjá
t.d. bók hans,Justifying Emotions: Pride and Jealoiisy og greinarnar „Prideful-
ness“. The Joumal of Value Inquiry 35/2001, bls. 165-78; „Virtue Ethics and
Emotional Conflict". American Philosophical Quarterly 37/2000, bls. 193-207;
„The Didactics of Emotional Education“. Analytic Teaching 21/2000, bls. 7-14
og sérstaklega „Self-respect, Megalopsychia, and Moral Education”, bls. 5-17.
Titill síðastnefndu greinarinnar gefur vel til kynna áherslur Kristjáns sem og
undirtitill ofangreindrar bókar hans.