Skírnir - 01.09.2003, Side 43
SKÍRNIR SIÐFRÆÐI OG RÖKGREINING 269
veruleika. I anda Hegels lögðu þeir áherslu á að siðgæðisþroski
einstaklingsins yrði ekki slitinn úr samhengi við samfélagið sem
skapaði honum möguleika og setti honum skorður. Þetta töldu
þeir að bæði skyldusiðfræði af ætt Kants og nytjastefnan hefðu
gert hvor með sínum hætti. Einkum beindu þeir spjótum sínum
gegn nytjastefnunni5 og Bradley virðist hafa hana í huga þegar
hann ritar í inngangi að fyrstu útgáfu siðfræði sinnar: „margar
grundvallarhugmyndir sem nú eru ríkjandi, einkum á Englandi,
eru villandi eða jafnvel rangar.“6 7
Þótt nytjastefna væri á margan hátt félagsleg umbótastefna var
hún einstaklingshyggja í grunninn. Þeir einstaklingar sem leituðu
hamingju á blaðsíðum Nytjastefnunnar voru ekki tengdir saman í
samfélagssýn af því tagi sem hughyggjan taldi forsendu fyrir frelsi
og þroska einstaklinga. Bresku hughyggjumennirnir færðu rök
fyrir því að sá félagslegi veruleiki sem einstaklingar deila myndi
sjálfskennd þeirra og gefi athöfnum þeirra merkingu. Þetta er ekki
ýkja umdeild hugsun nú á dögum, en þeir tóku hana skrefinu
lengra. Svo dæmi sé tekið ömuðust þeir við viðteknum hugmynd-
um um „neikvætt" frelsi þar sem megináherslan hvílir á því að ein-
staklingur sé laus undan óréttmætum afskiptum annarra. Þess í
stað lögðu þeir mikla áherslu á þegnskyldu og „jákvætt" frelsi sem
felur í sér að skynsamir menn ráði lífi sínu sjálfir/ Þegar þessi
hugsun tengist hugmyndum um raungervingu einstaklingsfrelsis-
ins í ríkinu er komin kenning sem stangast í veigamiklum atriðum
á við frjálslyndi nytjastefnunnar eins og það birtist til dæmis í
Frelsinu eftir John Stuart Mill. Staða siðferðisverunnar ræðst þá
ekki af hugmyndum, þrám og réttindum einstaklinga, heldur af
tengslum þeirra við félagslegan veruleika.
5 Sbr. Norman, The Moral Philosophers (Oxford: Clarendon Press, 1983), s. 146.
6 F.H. Bradley, Ethical Studies (Oxford: Clarendon Press, 1962), s. viii.
7 Sbr. Berlin, „Tvö hugtök um frelsi", þýð. Róbert Víðir Gunnarsson, Heimspeki
á tuttugustu öld, ritstj. Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson (Reykjavík:
Heimskringla, 1994), s. 157-168. Green er einn af þekktustu boðberum
„jákvæðs" frelsis í félagslegu tilliti, sbr. John Roberts, „T.H. Green“, Concep-
tions of Liherty in Political Philosophy, ritstj. Z. Pelczynski og J. Gray (New
York: St. Martin’s Press, 1984), s. 243-262.