Skírnir - 01.09.2003, Blaðsíða 47
SKÍRNIR SIÐFRÆÐI OG RÖKGREINING 273
Moore einungis einn annan kost og hann er að orðið „góður“ sé
merkingarlaust og siðfræði því marklaus.14 Um sína eigin afstöðu
segir hann: „Ef ég er spurður „hvað merkir ,gott‘?“ svara ég að
gott sé gott og læt það gott heita.“15
Nú getum við rætt gagnrýni Moores á þær tvær stefnur sem
voru ríkjandi í breskri siðfræðiumræðu við lok 19. aldar og ég
kynnti til sögunnar í upphafi þessarar greinar: breska hughyggju
og nytjastefnu. Þótt þær séu afar ólíkar, og krytur hafi verið með
fylgismönnum þeirra, eru þeir á sama báti andspænis röksemdum
Moore: sekir um náttúruvilluna. Að mati Moores höfðu hinir
fyrrnefndu, bresku hegelsinnarnir, skilgreint hið góða sem sjálfs-
þroska (self-realization), hinir síðarnefndu sem ánægju (pleasure).
Margir hafa varið Mill gegn ásökunum Moores16 og vafasamt er
að gagnrýni hans á hegelistana standist skoðun. Ég ætla hins veg-
ar ekki að taka upp þá umræðu hér, heldur nefna eitt dæmi um
villuráfandi sauð sem maklega lenti undir rökhnífi Moores, Her-
bert Spencer.
Spencer, sem var einn áhrifamesti heimspekingur þessa tíma á
Englandi og víðar,17 hélt fram þróunarkenningu í siðferðilegum
efnum þar sem gott er í raun lagt að jöfnu við það að vera langt
kominn á þróunarbautinni (more evolved). Moore reynir að sýna
fram á að viðhorf af þessu tagi sé þversagnakennt. Ef „betri“
merkir „þróaðri“ mun sá sem segir „þróaðri er ekki betri“ lenda í
mótsögn. En það felur jafnframt í sér að sá sem segði „því þróaðri,
þeim mun betri“ væri einfaldlega að tyggja innantóm röksannindi
á borð við „piparsveinn er ógiftur karlmaður". Vart vilja þróunar-
sinnar við það una; þeim er í mun að kenning þeirra um hið góða
14 Principia, s. 14-15.
15 Sama rit, s. 6. „If I am asked ‘What is good?’ my answer is that good is good,
and that is the end of the matter."
16 Sjá til dæmis Alasdair Maclntyre, A Short History of Ethics (New York:
Macmillan, 1966), s. 239-240 og W.D. Hudson, Modern Moral Philosophy
(New York: Macmillan, 1983), s. 74-79.
17 Spencer, sem er einn þekktasti frumkvöðull félagslegs Darwinisma og mann-
kynbótahugmynda, hafði t.d. umtalsverð áhrif hérlendis, sbr. ítarlega umfjöll-
un Ágústar H. Bjarnasonar um heimspeki hans í Nítjándu öldinni (Reykjavík:
Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar, 1906), s. 308-347.