Skírnir - 01.09.2003, Page 62
288
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
um það sem ætti að móta langanir okkar og viðhorf og hefur mest
áhrif á alla okkar hegðun.45 Slíkir dómar fela þannig í sér mat á því
hvað sé góð hegðun og réttmæt afstaða og eru því til fyrirmyndar.
Samkvæmt Dewey snýst vandinn þá um að skapa aðstæður sem
eru áhrifaríkar í því skyni að móta viðhorf eða afstöðu sem verja
má með skynsamlegum rökum. Þar með leggur Dewey mikla
áherslu á að meta hvort við höfum góðar ástæður fyrir afstöðu
okkar, en þann skynsemisþátt vantar algjörlega í geðstefnuna.
5. Boð og gildi
Enski heimspekingurinn R.M. Hare setti sér það markmið að
sameina skynsemisþáttinn og sjálfdæmisþáttinn í siðfræðinni.
Hann segir siðferðisvanda einkennast af togstreitu þessara tveggja
þátta. Við finnum fyrir þessu í hvert sinn sem við stöndum frammi
fyrir erfiðri ákvörðun. Við vitum mætavel að enginn getur tekið af
okkur það ómak að velja, og við vitum líka að okkur ber að beita
skynsemi okkar til að komast að réttlætanlegri niðurstöðu. Þetta
er semsé togstreita frelsis og skynsemi.46 Þessir tveir þættir eiga
sér samsvörun í tveimur höfuðeinkennum siðadóma: Þeir eru eins
konar forskriftir, eða boð (prescriptions), og þá má greina frá öðr-
um boðum með því að þeir eru alhcefanlegir (universalizable).47
Hare segir fyrra einkennið nátengt frelsi manna til að mynda sér
siðferðileg viðhorf og síðara einkennið geri það að verkum að sið-
ferðileg hugsun lúti skynsamlegum rökum.48
Með boðhyggju (prescriptivism) sinni leitast Hare við að sigla á
milli skers náttúrustefnunnar, sem smætti siðadóma í lýsandi stað-
hæfingar, og báru geðstefnunnar, sem leysi siðadóma upp í áróð-
ur. Meginhlutverk siðadóma, að mati Hares, er að leiðheina fólki
sem þarf að taka siðferðilegar ákvarðanir; þeir fela í sér svar við
spurningunni „Hvað ber mér að gera?“. Svarið er vitaskuld hægt
að rökræða en jafnframt verður viðkomandi að bregðast við sið-
45 Dewey, The Questfor Certainty, s. 265.
46 Hare, Freedom and Reason (Oxford: Oxford University Press, 1963), s. 1-3.
47 Sama rit, s. 4.
48 Sama rit, s. 5.