Skírnir - 01.09.2003, Page 63
SKÍRNIR SIÐFRÆÐI OG RÖKGREINING 289
ferðisvanda sínum með ákvörðun og athöfn. Og það er eitt helsta
einkenni boðhyggjunnar að athöfn manns er hinn eiginlegi próf-
steinn á það hvaða siðadóm hann fellst á. Tökum dæmi: Stúlka
verður ófrísk og er að velta því fyrir sér hvort hún eigi að ganga
með og fæða barnið eða ekki. „Hvað ætti ég að gera?“, segir hún
við trúnaðarvinkonu sína eftir að hafa rætt málið ítarlega við hana.
Vinkonan segir: „Þú ættir að eiga barnið.“ Fallist stúlkan á þetta
ráð felur það röklega í sér að hún ákveði að ala barnið. Og geri
hún það ekki hefur hún hafnað þeim siðadómi sem fólst í ráðlegg-
ingu vinkonunnar.
Þessa kenningu um röksamband athafna og siðadóma hefur
Hare tekið saman í einni setningu: Áreiðanlegasta leiðin til að
finna út hvaða siðareglur manneskja aðhyllist er að fylgjast með
hegðun hennar.49 Á þetta almenna viðhorf geta flestir fallist.50 En
nú kemur alhæfingarkrafan til sögunnar. Hún felur það í sér að
vinkonan verður að vera reiðubúin að fella sama siðadóm við all-
ar sambærilegar aðstæður, hver svo sem á í hlut og þá ekki síst hún
sjálf. Þar með má segja að vinkonan skuldbindi sig til að breyta
samkvæmt sínum eigin ráðleggingum lendi hún í aðstæðum sem
eru ekki frábrugðnar aðstæðum stúlkunnar í neinu mikilvægu til-
liti. Þetta köllum við venjulega að vera sjálfum sér samkvæmur og
samkvtsmni orða og gerða er aðalsmerki siðferðis að mati Hares.
Samkvæmt þessu fremur hversdagslega viðhorfi ganga siðferðileg-
ar rökræður einkum út á að láta reyna á þessa samkvæmni og þá
gagnkvæmni sem henni fylgir. Við kennum börnum þetta: „Settu
49 Hare, The Language of Morals (Oxford: Oxford University Press, 1952), s. 1.
50 Sjá þó ritdeilu sem hófst með grein minni „Um gæði og siðgæði“ í Samfélags-
tíðindum 5 (1985), s. 23-37, en þar gagnrýndi ég mál Þorsteins Gylfasonar í
Valdsorðaskaki (Reykjavík: Félag áhugamanna um heimspeki, 1982) og rök
Kristjáns Kristjánssonar í „Er siðferðileg hluthyggja réttlætanleg?", sem prent-
uð er í Þroskakostum, s. 17-32. Kristján svaraði með greininni „Að vita og
vilja“ sem birtist í Samfélagstíðindum 10 (1990) og var endurprentuð í bók hans
Þroskakostum, s. 33-40. Ég svaraði Kristjáni aftur í sama hefti Samfélagstíðinda
með greininni „Að skila ull eða æla gorinu“, Samfélagstíðindum 10 (1990), s.
191—202. Loks skrifaði Þorsteinn Gylfason greinina „Gildi, boð og ástæður“ í
Huga. Tímarit um heimspeki 7 (1994-1995), s. 14-31 og var endurprentuð í
bók hans RéttLeti og rangLeti. Ég bregst stuttlega við þessari grein Þorsteins í
Broddflugum, „Eftirþanki", s. 119.