Skírnir - 01.09.2003, Side 76
302
SÓLVEIG ANNA BÓASDÓTTIR
SKÍRNIR
lagsins. Samfélagslegar spurningar varðandi atvinnumál, umhverf-
ismál, félagslegt réttlæti, frið og jafnrétti kynjanna vöktu tiltölu-
lega seint áhuga lúterskra siðfræðinga. Þess í stað hefur ríkt sterk
söguleg og kerfisbundin áhersla innan hinnar lútersku guðfræði-
hefðar. Hefðin felst í því að ganga út frá sögulegum textum, helst
eftir Lúther, og undirstrika hið einstaka inntak kristindómsins.
Samkvæmt þessari sýn eru ekki neinar samsvaranir milli kristinn-
ar siðfræði og þeirrar siðfræði sem boðuð er í öðrum lífsskoðun-
um og trúarbrögðum. Þær siðferðilegu kröfur sem Kristur gerir
eru taldar gjörólíkar þeim kröfum sem settar eru fram í öðrum
siðfræðikenningum.13
Sjálf aðhyllist ég ekki aðferðafræði hefðbundinnar lútersk-
kristinnar siðfræði. Hin sögulega einsýni hennar og skírskotun
fyrst og fremst til þeirra sem eru trúaðir, finnst mér of þröngt
sjónarsvið. Þá fellur mér ekki það gagnrýnisleysi sem oft fylgir
þeirri siðfræði er telur að hún verði einungis metin út frá eigin
hefð og forsendum. Fremur en að ganga út frá hinu sérstaka og
einstæða í kristinni siðfræði, og gildi opinberunarinnar fyrir sið-
ferðisskilninginn, eða miða við forsendur mismunandi sögulegra
guðfræðitexta tel ég mikilvægt að lútersk siðfræði opni sérher-
bergi sitt upp á gátt og sýni áhuga á veruleika líðandi stundar. Sú
kristna siðfræði sem ég aðhyllist er siðfræði þar sem hlustað er eft-
ir reynslu fólks og jafnframt skipst á skoðunum við aðrar vísinda-
greinar og menningarhefðir. Slík siðfræði leggur áherslu á rökræð-
ur og gagnkvæman skilning milli ólíkra siðfræðihefða um leið og
nauðsyn ber til að vera meðvitaður um eigin hefð og samfélag.
13 Þessa áherslu má finna mjög víða hjá þekktum guðfræðingum í Skandinavíu,
s.s. Anders Nygren, sem skrifaði bókina Eros och Agape. Den kristna karleks-
tanken genom tidema fyrir miðbik síðustu aldar. Sú bók hafði mikil áhrif á guð-
fræðinga beggja vegna Atlantshafsins. Að leggja áherslu á hið sérstaka og ein-
staka inntak kristindómsins er þó ekkert einsdæmi fyrir lúterska guðfræðihefð.
Einn áhrifamesti guðfræðingur Evrópu á 20. öld, Karl Barth, sem tilheyrði
reformertu kirkjunni, aðhylltist einnig þessa skoðun, sbr. ritverk hans Die
Kirchliche Dogmatik. Sjá nánar A. Nygren, Eros och Agape. Den kristna kdr-
lekstanken genom tidema (Stokkhólmi: Aldus/Bonniers, 1966) og K. Barth,
Die Kirchliche Dogmatik II/2 (Zúrich: Evangelischer Verlag AG Zollikon,
1946; Die Kirchliche Dogmatik III/4 (Zúrich: Evanglelischer Verlag AG Zoll-
ikon, 1951).