Skírnir - 01.09.2003, Page 77
SKÍRNIR
KRISTIN SIÐFRÆÐI HJÓNABANDSINS ...
303
Jafnframt er það skoðun mín að til þess að geta kallað siðfræði
kristna þurfi hún að hafa viðmiðun sína í Jesú Kristi og boðskap
hans. Þennan boðskap má draga saman í tvöfalda kærleiksboðorð-
inu.14 Þannig er kærleikur kjarninn og jafnframt æðsta gildi krist-
innar siðfræði og litar alla túlkun hennar. Með þessu er ekki verið
að segja að forsenda siðfræðilegs skilnings á kærleikanum sé guð-
leg opinberun. Opinberunin í Kristi er fyrst og fremst boðskapur
um fyrirgefningu syndanna, ekki ný siðfræði. Kærleikur Guðs í
Kristi getur þó vissulega veitt fólki innblástur að elska hvert ann-
að á sama hátt og Kristur elskar mennina, og þannig dýpkað sið-
ferðilegan skilning þeirra. í stuttu máli lít ég þannig á að kristin
siðfræði tengist venjulegri mannlegri reynslu, innan sem utan
kristinnar hefðar. Samtímis boðar kristin siðfræði siðferði sem
byggist á viðmiðum og gildum sem falla að Biblíunni, kristinni
hefð og kristinni reynslu. Þetta þýðir samt ekki að kristin siðfræði
sé gjörólík siðfræðiframsetningum heimspekinga og siðfræðinga
úr öðrum hefðum. Inntak kristinnar siðfræði er í samræmi við
inntak annarrar siðfræði, en kærleiksboðskapur Krists getur þó
dýpkað skilning fólks á siðferðilegum álitamálum.
Fræðigreinin siðfræði hefur verið vettvangur karla lengst af. Á
síðustu árum og áratugum hafa konur þó orðið sýnilegri innan
greinarinnar. Þetta má ekki síst merkja innan guðfræðilegrar sið-
fræði.15 Margir kvensiðfræðingar hafa kosið að vinna með
femínískar kenningar og á þann hátt þróa ný sjónarhorn og guð-
fræðilíkön. Þannig hafa t.d. femínískir siðfræðingar afhjúpað ein-
14 Sbr. Matt. 22:36-40: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri
sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað
er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.
15 Með hugtakinu guðfræðileg siðfræði á ég við þá siðfræði sem er rannsökuð og
kennd við guðfræðideildir háskóla til aðgreiningar frá heimspekilegri siðfræði
sem kennd er og rannsökuð við hugvísindadeildir háskóla. Á Vesturlöndum
hefur guðfræðileg siðfræði sögulega tengst lífsskoðunum, trú og siðferðishug-
myndum kristinnar hefðar. Ég geri greinarmun á guðfræðilegri, akademískri
siðfræði sem er óbundin játningum kirkjunnar og kristinni siðfræði. Engin ein-
ing ríkir þó um hvernig skilgreina skuli hugtakið kristin siðfrœði. Ég vel að skil-
greina kristna siðfræði mjög vítt hér, nefnilega sem þá siðfræði sem á gagnrýn-
inn hátt hugleiðir og fjallar um það siðferði sem boðað er innan kristinnar hefð-
ar. Kristin siðfræði er oftast hvort tveggja í senn, lýsandi og boðandi.