Skírnir - 01.09.2003, Síða 78
304
SÓLVEIG ANNA BÓASDÓTTIR
SKÍRNIR
hliða karlasjónarmið innan siðfræðinnar, gagnrýnt hefðbundna
siðfræði fyrir kynjablindu, svo og sett fram margar nýjar spurn-
ingar innan siðfræðinnar.16 Ég vil í þessari grein beina kastljósinu
sérstaklega að kristinni hjónabandssiðfræði. Kristin hjónabands-
siðfræði á sér langa sögu og ekkert bendir til þess að þeirri sögu sé
við það að ljúka. Engin þörf er á að réttlæta tilvist þessarar sið-
fræði. Svo lengi sem guðfræðingar kjósa að skrifa um hjónaband-
ið út frá boðskap Krists verður til kristin siðfræði hjónabandsins.
Það sem er athyglisvert við þessa siðfræði, eins og alla þá siðfræði
sem kallar sig kristna, er hvað höfundar hennar álíta að kristin
siðfræði leggi af mörkum til mótunar siðfræðilegra kenninga.
Klassískar spurningar í þessu sambandi eru t.d. hverjar séu heim-
ildir kristinnar siðfræði, hvort opinberun í Kristi sé nauðsynleg
forsenda siðfræðilegrar þekkingar, hvernig beri að skilja sam-
bandið milli siðfræði og trúar og hvaða þættir kristinnar trúar séu
grundvöllur siðfræðinnar. Spurningarnar sem ég beini sjónum að í
þessari grein snerta þetta þó einungis að litlu leyti. Mínar spurn-
ingar beinast að því vandamáli sem ég nefndi í upphafi greinarinn-
ar, nefnilega ofbeldi karla gagnvart eiginkonum og hvaða áhrif það
hafi á kristna hjónabandssiðfræði samtímans. Fyrri spurning mín
er þessi: Hvernig má setja fram kristna hjónabandssiðfræði sem
felur í sér vörn fyrir konur sem beittar eru ofbeldi innan hjóna-
bandsins? Síðari spurningin er: Hvernig má rökstyðja slíka fram-
setningu kristinnar hjónabandssiðfræði? Þannig er viðfangsefni
mitt ekki hjónabandið sem slíkt, og hvort það sé æskilegt eða ekki,
heldur er viðfangsefnið gagnrýnin íhugun um hjónabandssiðfræði
séð frá guðfræðilegum sjónarhól. Vandamálið fjallar ekki um það
hversu æskilegt sambúðarform hjónabandið sé, heldur hvernig
æskilegt sé að fjalla um hjónabandið siðfræðilega og guðfræðilega
í ljósi framangreinds vandamáls.
16 Sjá t.d. L.S. Cahill, Sex, Gender & Christian Ethics (Cambridge: Cambridge
University Press, 1996); C. Robb, Equal Value. An Ethical Approach to
Economics and Sex (Boston: Beacon Press, 1995); C. Gudorf, Body, Sex and
Pleasure. Reconstructing Christian Sexual Ethics (Cleveland, Ohio: The Pil-
grim Press, 1994).