Skírnir - 01.09.2003, Side 83
SKÍRNIR
KRISTIN SIÐFRÆÐI HJÓNABANDSINS ...
309
réttar eiginkvenna. Jafnrétti milli kynjanna er nýlegt fyrirbæri í
því samfélagi sem Thielicke hrærðist í, á meðan Háring og Nelson
leggja mikið upp úr gildi þess. En gaumgæfileg skoðun á þessum
þremur guðfræðingum sýnir einnig að þeir eiga margt sameigin-
legt. Dæmi um það eru siðfræðilegar kenningar allra þriggja.26
Annað dæmi er að þeir vísa ekki til reynslu fólks af hjónabandinu,
hvort heldur sem er jákvæðrar eða neikvæðrar. Þetta atriði fellur
undir það sem ég hef áður kallað „einangrun siðfræðinnar“, eða
það að hagnýta sér ekki fyrirliggjandi þekkingu sem tengist þeim
málefnum sem fjallað er um. Ein afleiðing þessarar einangrunar er
að allir þrír loka augunum fyrir veruleika ofbeldis, líkamlegs, and-
legs eða kynferðislegs, og hvernig þetta ofbeldi horfir við konum
innan hjónabands. Ofbeldi tengist valdastöðu og valdamisvægi.27
Til þess að ræða ofbeldi er því nauðsynlegt að fjalla um vald í
tengslum við hjónabandið. í stað þess að haldið sé uppi samtali við
heimildir af ýmsu tagi, svo sem á sviði heimspeki, félagsvísinda,
kvennarannsókna og annarra vísindagreina, þar sem fyrirbærin
vald og ofbeldi eru rædd, fer fram hljóðlegt og undirgefnislegt
samtal við guðfræðilega hefð og orð Biblíunnar. Einkenni þessa
samtals er skortur á gagnrýnu sjónarhorni bæði varðandi samfé-
lagið og eigin fræðigrein. Ef litið er til íslenskra og erlendra rann-
sókna á ofbeldi gegn konum28 má færa rök fyrir því að djúp gjá sé
á milli raunveruleika hjónabandsins og framsetningar kristinnar
siðfræði á kenningum um hjónabandið. Eitt er að halda fast við þá
hugsjón að ást og öryggi eigi að ríkja í hjónabandinu, annað að
ganga út frá því að það geri það í raun og veru. I samræmi við hinn
háleita skilning á hjónabandinu er mannskilningur allra þriggja
guðfræðinganna yfirleitt mjög jákvæður og bjartsýnn. Áhersla á
26 Sameiginlegt öllum þremur er að breytni er ekki talin helgast af tilganginum.
Afleiðingar verknaðar geti ekki skorið úr um réttmæti hans. Sjí nánar í Sólveig
Anna Bóasdóttir (1998), 5.-7. kafla.
27 M. Eliasson, Mans vdld mot kvinnor (Stokkhólmi: Natur och Kultur, 1997); G.
Nordborg (ritstj.), Makt & Kön. Tretton bidrag tillfeministisk kunskap (Stokk-
hólmi: Symposion, 1997); C. Holmberg, Det kallas kdrlek (Gautaborg:
Anamma, 1993); M.M. Fortune, Love Does No Harm. Sexual ethics for the Rest
of us (New York: Continuum, 1995).
28 Sbr. umfjöllun mína í byrjun greinarinnar.