Skírnir - 01.09.2003, Page 86
312
SÓLVEIG ANNA BÓASDÓTTIR
SKÍRNIR
gerlegt að fjalla um einstaka geira þess algerlega aðskilið frá heild-
inni. Því sé aldrei hægt að aðgreina algerlega svið einstaklings og
samfélags í rannsóknum. Gagnrýnin kenning gefur hvorugu þess-
ara sviða forgang við túlkun. Á þennan hátt aðgreinast bæði gagn-
rýnin samfélagskenning og um leið flestar femínískar kenningar
frá marxískum kenningum, með því að leggja ekki höfuðáherslu á
hinar efnahagslegu og skipulagslegu aðstæður sem „stjórni" ein-
staklingum og hópum, heldur gera báðum jafnhátt undir höfði.33
Hvað varðar mannskilninginn þá líta bæði gagnrýnin samfé-
lagskenning og kristin femínísk siðfræði á manneskjuna sem tví-
ræða, mótsagnakennda og opna fyrir áhrifum (góðum og slæm-
um). Gagnrýnin samfélagskenning álítur að stöðugt sé reynt að
stjórna manneskjunni og hlutgera hana, hún sé þannig iðulega
fórnarlamb tilrauna þeirra sem fara með völd. Samtímis hafi
manneskjan möguleika til sjálfræðis, að minnsta kosti að hluta til
og sé fær um að velta hlutunum fyrir sér og prófa sig áfram á gagn-
rýninn hátt. Manneskjan sé einnig vera sem geti gert sér grein fyr-
ir hvað henni sé fyrir bestu og valið það.34
I stuttu máli má halda því fram að þeir fræðimenn sem nýta sér
gagnrýna samfélagskenningu í rannsóknum sínum leitist við að
greina félagsleg vandamál, kúgun og ranglæti í víðum skilningi.
Þetta hefur femínísk siðfræði gert. Þegar kemur að femínískum
siðfræðingum innan hinnar gyðinglegu-kristnu hefðar síðastliðna
tvo til þrjá áratugi, má sjá skýr spor gagnrýninnar kenningar hjá
mörgum þeirra. Glögg dæmi um þessi spor má t.d. finna í skrifum
Karen Lebacqz og Christine Gudorf.35 Báðar leggja áherslu á að
kristin siðfræði beri kennsl á hinn félagslega veruleika, sérstaklega
frá sjónarhorni hinna kúguðu. Til þess að öðlast þessa þekkingu
þarf siðfræðin að leita til hinna hagnýtu greina, til dæmis félagsvís-
indanna, sálfræðinnar og mannfræðinnar. Þessi þekking sé sið-
fræðinni nauðsynleg ef hún eigi að geta talist trúverðug. Rætur
33 M. Alvesson og K. Skoldberg, Tolkning och reflektion. Vetenskapsfilosofi och
kvalitativ metod (Lundi: Studentlitteratur, 1994), bls. 196.
34 Alvesson og Sköldberg (1994), bls. 197.
35 K. Lebacqz, Justice in an Unjust World. Foundations for a Christian Approach
to Justice (Minneapolis: Augsburg Publishing House, 1987); Gudorf (1994).