Skírnir - 01.09.2003, Page 89
SKÍRNIR KRISTIN SIÐFRÆÐI HJÓNABANDSINS ... 315
réttlæti að fjalla bæði um skiptingu gæðanna eins og hún birtist, en
einnig verði hún að fjalla um hverjar séu hugmyndafræðilegar or-
sakir þessarar skiptingar. Veruleikinn, eins og hann birtist, sé því
ein nauðsynleg forsenda alls tals um réttlæti.42
Eins og fyrr segir er veruleiki ofbeldis karla í garð kvenna inn-
an hjónabandsins staðreynd í öllum nútímasamfélögum. Hvernig
getur skilningur Iris Marion Young á réttlætishugtakinu hjálpað
til við að tengja ofbeldi við réttlæti? Hvernig má nota kenningar
hennar til að gagnrýna kristna hjónabandssiðfræði og andvara-
leysi hennar gagnvart ofbeldi karla innan hjónabandsins? Svarið
við þessum spurningum er margþætt. Það er mín skoðun að með
því að tala um réttlæti og óréttlæti í tengslum við hjónabandið
opnist leið til þess að vísa til reynslu og veruleika sem kristin
hjónabandssiðfræði hefur litið framhjá. Þegar réttlæti er skilið á
þann hátt sem Young gerir, merkir andstæða þess, óréttlæti, fyrst
og fremst takmarkanir sem hindra manneskjuna og þroska hennar.
Þessar hindranir má kalla kúgun og stjórnun. Kúgun er miðlægt
hugtak meðal femínista. Kúgaður er sá einstaklingur eða hópur
sem er hindraður í því að nota og þroska hæfileika sína, tjá tilfinn-
ingar sínar, hugsanir og þarfir. Kúgunin á sér margar birtingar-
myndir, s.s. arðrán, jöðrun, áhrifaleysi, yfirráð í krafti menningar
og síðast en ekki síst ofbeldi.43 Það sem gerir ofbeldi að birtingar-
mynd óréttlætis er að það viðgengst og þrífst í menningu okkar og
samfélögum sem óhjákvæmileg staðreynd sem lítið er gert til að
hrófla við. Djúpstæðar hugmyndir um rétt hins sterka til að beita
valdi halda því við. Ofbeldi í garð hópa sem standa veikt að vígi er
kerfisbundið, segir Young. Ofbeldi karla gegn eiginkonum er
kerfisbundið í þessum skilningi. Það sé mikilvægur hluti kúgunar
kvenna í menningu okkar og samfélagi. Slíkur skilningur á hlut-
verki ofbeldisins gagnvart konum beinir kastljósinu aftur að hinni
kristnu hjónabandssiðfræði. Að mínum dómi er engin leið fyrir
hina kristnu hjónabandssiðfræði að líta framhjá staðreyndum of-
beldisrannsókna og helstu túlkunum á þeim. Sú siðfræði sem hef-
42 Sama rit, bls. 29-30.
43 Sama rit, bls. 39-65.