Skírnir - 01.09.2003, Page 93
SKÍRNIR
KRISTIN SIÐFRÆÐI HJÓNABANDSINS ...
319
skilningi til að berjast gegn kúgun og fyrir frelsi kvenna. Þessa
reynslu segir hún ekki vera algilda og óbreytanlega heldur verði
stöðugt að túlka hana.46 Ég tek undir með fjölda femínískra guð-
fræðinga og tel reynsluhugtakið hafa verið gagnlegt bæði pólitískt
og siðfræðilega. Með því að vísa til reynslu kvenna hefur verið
undirstrikað að konur eru gerendur í guðfræði og siðfræði, þær eru
siðferðilegir gerendur og hafa bæði rétt og færni til að gagnrýna og
ögra karllægri guðfræði og siðfræði. Reynsluhugtakið hefur opnað
dyr og skapað umræður milli ólíkra hópa kvenna og hvatt konur
víðsvegar til að skilgreina sjálfar reynslu sína. Margar þeldökkar
konur hafa sagt að einmitt það að þær uppgötvuðu að þær bjuggu
ekki yfir sömu reynslu og hvítar konur hafi hvatt þær til að skoða
sína eigin reynslu og bæta henni við „reynslu kvenna“.47 Þannig
má segja að þetta hugtak undirstriki að reynslan geri konur að
fjölbreytilegum hópi og vinni þar með gegn staðalímyndum og
annarri einsleitni.
Kristin hjónabandssiðfræði hefur ekki lagt mikla áherslu á
reynslu kvenna, eins og áður hefur verið vikið að. Það að vísa til
reynslu kvenna í merkingunni reynsla af ofbeldi karla þýðir auð-
vitað ekki að öll reynsla kvenna sé á sömu lund. Þvert á móti má
ganga út frá því að mikill fjöldi kvenna hafi góða reynslu af því að
lifa í hjónabandi, rétt eins og kristin hjónabandssiðfræði boðar. En
reynsluhugtakinu, eins og ég nota það, er ekki ætlað að vísa til
hvaða reynslu sem er, heldur er tilgangurinn fyrst og fremst að
nota hugtakið í gagnrýninni merkingu. Femínistar hafa fyrst og
fremst notað þetta hugtak til að undirstrika kynjasjónarmiðið sem
breytir allri umhugsun um viðkomandi efni. Hugtakið á því að
virka sem gagnrýnistæki sem geti bent á þætti sem látnir hafa ver-
ið lönd og leið og hafa þýðingu fyrir framsetningu siðfræðinnar
um hið góða hjónaband. Gagnrýna má kristna hjónabandssið-
fræði samtímans, sem lætur hjá líða að íhuga þessa tilteknu
46 E.S. Fiorenza, But She Said. Feminist Practices of Biblical Interpretations
(Boston: Beacon Press, 1992), bls. 149.
47 S. Welch, „Sporting Power“, Transfigurations: Theology and The French Fem-
inists. Ritstjórar: C.W. Kim, M.S. Ville og S.M. Simonaitis (Minneapolis: For-
tress Press, 1993), bls. 174.