Skírnir - 01.09.2003, Síða 119
SKÍRNIR
BÓKMENNTIR í LÍFSHÁSKA
345
... í takmarkalausri sjálfsfórn er einmitt að finna líftaug rússneskra
bókmennta."9
Um þetta leyti, nálægt aldamótunum 1900, fer að vísu fram
nokkur endurskoðun á sjálfsmati menntamanna og bókmennta.
Fylkingar riðlast með áberandi hætti. Þá heyrast einmitt raddir
vinsælla tískuskálda (Konstantin Balmont, Valerij Brjúsov, Igor
Severjanin) sem tefla einstaklingshyggju, gott ef ekki frekri sjálfs-
dýrkun, gegn þeirri hugsjónahyggju sem ríkt hafði. Balmont
kveðst hata mannkynið í frægu ljóði, enda eigi hann hvergi heima
nema á eyðimörk sálar sinnar. Brjúsov snýr út úr Minnisvarða
Púshkins á sinn hátt:
Ég minnisvarða hlóð úr hljómum, rími
hrópið og djöflist, hann mun ekki falla.
Mín styrku orð fær ekkert sundur slitið.
Ég er - og verða hlýt um eilífð alla. (Á.B. þýddi)
Slíkir tónar í skáldskap eru eins konar viðbrögð við kreddufestu,
trúboðsofsa og oftrú á einföldum heildarlausnum sem ýmsir end-
urskoðunarsinnar úr hópi menntamanna (Strúve, Berdjajev,
Búlgakov) deildu einnig á í frægu ritgerðasafni (Vekhi, 1909).10 En
þessi gagnrýni kom þó ekki í veg fyrir það að áfram yrði litið á
bókmenntir sem ritningar og kraftbirtingu andlegrar forystusveit-
ar. Efahyggjumaður eins og Anton Tsjekhov vísaði frá sér kröfum
um pólitíska afstöðu og siðaboðskap - en hann talaði líka með
trega um þann tíma þegar skáld höfðu sig meira í frammi um að
vísa öðrum til vegar. Og ekki ætlaði hann eigin verkum minna
hlutskipti en að þau ættu nokkurn þátt í að vinna gegn „lygum og
ofbeldi" í samskiptum manna, og er þar með kominn í kallfæri við
Tolstoj sem fyrr var til vitnað.* 11
Bókmenntir þjóna hinu góða, fagra og sanna, bókmenntir
kenna mönnum að lifa, skilja aðra menn, átta sig á samfélaginu,
9 S. A. Vengerov, Gerojitsjeskij kharakter rússkoj literatúry. Pétursborg 1911, bls.
205.
10 Svohodnoje slovo, bls. 167-173.
11 Bréf til Pleshjevs 4. okt. 1888. Um afstöðu Tsjekhovs til bókmennta sjá: Árni
Bergmann, „Tsjekhov um Tsjekhov", Bjartur 14, 1994, bls. 26-30.