Skírnir - 01.09.2003, Side 123
SKÍRNIR
BÓKMENNTIR í LÍFSHÁSKA
349
svo vegna versnandi pólitísks ástands innan múra Kremlar. Verk
þessara höfunda gengu á milli manna í afritum (Samizdat) eða
komu út á Vesturlöndum. Nokkrir þeirra voru flæmdir í útlegð,
þ.á m. Solzhenytsin sjálfur, eða fóru úr landi af sjálfsdáðum.17
Miðjan var stærst, sá hópur höfunda sem starfaði innan þess
ramma sem bókmenntalífi og útgáfu var settur, en leitaðist um leið
við að ganga sem lengst í að tryggja rétt bókmennta til að segja
annað en það sem þægilegt mátti heita sjálfsmynd ríkisins. Það er
við hæfi að kenna þá höfunda við „siðferðilegan realisma", vegna
þess að þeir fylgdu í senn hefð rússneskrar raunsæisskáldsögu og
gerðu það sér að leiðarljósi að siðgæði væri óháð þjóðfélagsbreyt-
ingum, hagsmunum og pólitískri hentisemi.18 Margir þeirra, ekki
síst svonefnd „sveitaskáld" (Vasilij Shúkshin, Valentin Raspútin,
Viktor Astafjev o.fl.) litu með sárri eftirsjá til fyrri tíma þegar
menn velktust ekki í vafa um hvað gott væri og hvað illt. Þeir stilltu
einatt upp sem andstæðum því fólki sem enn hafði ekki gleymt því
lífi sem áður var lifað í sveitaþorpum Rússlands og því yngra fólki
sem mótað var af sovéskum veruleika og fór ekki á milli mála hvar
þeirra höfundarsamúð var. Eldra fólk, ekki síst konur, koma í
þessum verkum fram sem varðveitendur þeirra dyggða sem síst
má án vera: góðvildar, ósérplægni, virðingar fyrir fortíð landsins,
minningum og siðum og trú, sem og þeirri náttúru sem iðnvæð-
ingarbráðlæti tortímir jafnt og þétt. Þetta alþýðufólk gefur lítið
fyrir tæknitrú, framkvæmdaofsa, siðlaust framapot og nytja-
hyggju hinna yngri. I þessum verkum er spurt hvað framfarir og
hagvöxtur kosti bæði í náttúruspjöllum og sálarlausri hörku í
mannlegum samskiptum og um leið er því eins og hvíslað að les-
endum að hin sovéska tilraun hafi ekki skapað betri menn og
gæfulegri en áður lifðu í landinu - eins og hún ætlaði sér. Oðru
nær: hin sovéska kynslóð er grunnhyggin, skeytingarlaus og fá-
17 Meðal þeirra annað Nóbelsskáld, Josif Brodskij, ennfremur Vladimir
Vojnovitsj, Vasilj Aksjonov, Sergej Dovlatov, bókmenntafræðingurinn Efim
Etkind og margir fleiri.
18 Árni Bergmann, „Hláka, frosthörkur, endurskoðun", Tímarit Máls og menn-
ingar 4, 1987, bls. A7Q-A72. Solzhenytsin kallar reyndar þessa höfunda
nravstvenniki eða „siðferðishöfunda“ í ávarpi sem birtist í Novyj mir 5, 2000.