Skírnir - 01.09.2003, Síða 134
360
ÁRNIBERGMANN
SKÍRNIR
eins og Shalamovs og Solzhenytsins sem höfðu rofið þögnina um
grimmd sovésks fangabúðalífs. Þetta var sundurleitur hópur og
einmitt það að hann átti sér ekki sameiginlega hugmyndafræði gaf
höfundunum orku til að leggja upp í langa ferð, hverjum með sín-
um hætti. Og um 1975 byrjar tími áður óþekktra efasemda, ekki
aðeins um „hinn nýja mann“ (þ.e.a.s. hinn sovéska mann) heldur
um manninn yfirleitt: „Hinar nýju rússnesku bókmenntir tóku að
efast um allt: um ást, börn, trú, kirkju, menningu, fegurð, göfug-
lyndi, móðurhlutverk, alþýðuvisku og síðar meir um Vesturlönd
einnig.“43 Þetta hafði það m.a. í för með sér að rithöfundar söfn-
uðu geipilegri þekkingu um hið illa, bókmenntir sem áður ilmuðu
af blómum og heyi fylltust nú fnyk rotnunar, morðum og nauðg-
unum fjölgar, „trú á skynsemina er afnumin, hlutverk tilviljunar
tútnar út“. Ekki svo að skilja, segir Jerofejev, að „satanismi" hafi
tekið völd í rússneskum bókmenntum, heldur hafi pendúllinn
sveiflast frá „blóðlausum og afstrakt húmanisma". Hér var, segir
hann, um að ræða „viðbrögð við villimennskunni í rússneskum
samtíma og um leið við alltof frekum siðaboðskap rússneskra
bókmennta."44
Með öðrum orðum: hér er framrás „hins illa“ túlkuð sem
nauðsynlegt svar við því að um langan aldur höfðu rússneskar
bókmenntir þá oftrú á fögrum hugsjónum að þær neituðu að horf-
ast í augu við grimmd veruleikans og fólsku mannsins. Fleiri hafa
boðað nauðsyn róttækrar efahyggju og endurmats og tekið undir
það að tsjernúkha eigi sér jákvæðar hliðar. I „svörtum" textum er
það tekið fyrir undanbragðalaust sem áður var ekki rætt, rýnt í
það sem rússneskir lesendur höfðu ekki áður kynnst á prenti: Við
þurftum þessar bókmenntir, segir menningarfræðingurinn Mark
Lipovetskij, „til þess að hleypa úr graftarkýlum."45 Hann bætir
því við að svörtu bókmenntirnar tákni ekki fullkomin hefðarslit,
þær fylgi að því leyti eftir samúð klassískra rússneskra bókmennta
með „litla manninum" að í þeim heyrist til þeirra sem áður þótti
43 Sama rit, bls. 28.
44 Sama rit, bls. 30.
45 Mark Lipovetskij, „Rastratnaja strategija ili metarmofozy „tsjernúkhi““,
Novyj mir 11, 2000, bls. 194; Brown, bls. 148.