Skírnir - 01.09.2003, Síða 161
SKÍRNIR EFTIRMÁLI VIÐ ORÐASKIPTI: TÍU PUNKTAR 387
tilgreinir hann ekki eitt einasta áþreifanlegt dæmi um að starfandi
sagnfræðingar séu þeirrar skoðunar sem hann eignar þeim. Ut-
leggingar hans byggjast að verulegu leyti á tilvitnunum og tilvís-
unum í bandaríska póstmódernista.36
Líklega ættu útleggingar af þessu tagi ekki að koma manni á
óvart. Sú tegund sagnfræði sem Sigurður Gylfi virðist vænta að
spretti upp af „hugmyndavinnunni sem er tengd hinu póst-
móderníska ástandi ..." (SGM II, bls. 156) gerir næsta lítið úr
skilsmun skáldskapar og sannfræði, enda svo að skilja að þessi
sagnfræði standi ekki öllu nær vísindum en listum (sjá SGM II,
bls. 154-155). Björgunarstarfsemin sem hann skorar á fagfélaga
sína að taka þátt í sýnist miða að því m.a. að gera sagnfræðina
hlutgenga í ríki skáldskaparins.
Þótt eðlilegt sé að viðhorf manna og skoðanir breytist í svipti-
vindum tímans, hef ég ekki séð ástæðu til að endurskilgreina fag-
lega ímynd mína eftir þessum nótum. Þótt ég hafi færst á milli
kynslóða hef ég ekki náð þeim þroska sem þarf til þess að vera
skáld.37 Það sem kannski verra er: ég hef enga löngun til þess að
vera annað en fræðimaður. Þess vegna finn ég enga hvöt hjá mér til
þess að taka þátt í varnarsókn Sigurðar Gylfa gegn þeirri tegund
fræðimennsku sem virðir eftir föngum skilin milli vitnisburða um
36 Gagnstætt því sem Sigurður Gylfi gefur í skyn, er ljóst að póstmódernisminn
hefur ekki, þegar á heildina er litið, haft róttæk áhrif á rannsóknaraðferðir í
sagnfræði og á sagnritun, sjá t.d. Richard J. Evans [ritdóm], „Georg G. Iggers,
Historiography in the Twentieth Century: From Scientific Objectivity to the
Postmodern Challenge." History and Theory, 41,1 (2002), bls. 79-87. - Perez
Zagorin, „History, the Referent, and Narrative: Reflections on Postmodernism
Now.“ History and Tbeory, 38,1 (1999), bls. 1-24.
37 Orðalagið tekur mið af Aristótelesi sem kveður muninn á sagnfræðingi og
skáldi felast í því „að annar segir frá því sem hefur gerzt, hinn frá því sem gæti
gerzt. Af þeim sökum er skáldskapurinn heimspekilegri og æðri en öll sagn-
fræði ..." (Aristóteles, Um skáldskaparlistina. íslensk þýðing eftir Kristján
Árnason (Reykjavík, 1976), bls. 59). Hvað sem líður gildismati Aristótelesar,
samsinni ég honum í því að halda beri greinunum skýrt aðskildum. Aðgrein-
ingin hindrar ekki að þýðing ímyndunaraflsins fyrir góða fræðimennsku sé
viðurkennd að verðleikum. Á tilgátu- og kenningarstiginu þurfa sagnfræðing-
ar sannarlega á hugmyndaflugi að halda. Sjá annars skilmerkilega grein Svavars
Hrafns Svavarssonar um aðgreiningu sagnfræði og sögulegs skáldskapar, „Skáld-
leg sagnfræði", Saga 34 (1996), bls. 255-271, þar sem gengið er út frá Aristótelesi.