Skírnir - 01.09.2003, Page 167
SKÍRNIR
ERNEST RENAN OG ÞJÓÐERNIÐ
393
ingar“ - sem menn sleppa þó gjarnan úr tilvitnuninni — en hvað er
átt við með því óljósa orði, og hvernig geta þær út af fyrir sig
grundvallað þennan „sameiginlega vilja" ?
Við slíkum spurningum er fátt um svör af hálfu þeirra sem
skjóta sér aftur fyrir breitt bakið á Renan. Hjá því verður því ekki
komist að bregða sér í anda í Sorbonne 11. mars 1882 og hlýða á
orð meistarans sjálfs. En rétt er að fara varlega. Leiðin liggur ekki
inn í þá voldugu byggingu sem nú stendur, hún sá ekki dagsins ljós
fyrr en nokkrum árum síðar, heldur inn í hinar fornu hallir
Richelieus með sínum villugjörnu ranghölum og afkimum.
II
Meistarinn er ekki orðmargur. Hann horfir á viðfangsefnið úr
mikilli hæð, hvergi eru neinar beinar og skýrar tilvísanir í sam-
tímaatburði í máli hans, og tónninn er eins og verið sé að prédika
yfir sanntrúuðum. Því kemur strax í ljós að fyrirlesturinn er ekki
fræðileg umfjöllun um eitt eða neitt, heldur léttfleygt rabb þar sem
farið er hratt yfir sögu, horft er á heil tímabil mannkynssögunnar
í senn og hoppað úr einu í annað, fyrirbæri sem óravegur er á milli
í tíma og rúmi eru skoðuð í sömu andrá, mikið er notað af óljós-
um hugtökum en minna fer fyrir skilgreiningum, atriðum sem
öðrum kynnu að virðast óskyld er slengt saman og drepið í ör-
stuttu máli á kenningar sem þyrftu kannske mun nánari skýringar
við eða þá rökstuðnings. Stíllinn er gjarnan staccato. Þess vegna er
erfitt að festa hendur á hugmyndum meistarans, og það verður
enn erfiðara fyrir þá sök að því fer oft fjarri að merkingarsvið ís-
lenskra orða samsvari þeim orðum sem notuð eru á frönsku. I
endursögn verður þess vegna tæpast hjá því komist að flagga á
stundum tungutaki Signubakka.
Uppbygging fyrirlestrarins er einföld.7 A eftir örstuttri kynn-
ingu á efninu koma þrír kaflar, sögulegur inngangur, umfjöllun
7 Hér verður stuðst við handhæga kiljuútgáfu af þessum fræga fyrirlestri: Ernest
Renan, Qu'est-ce qu'une nation? et autres essaispolitiques, textes choisis et pré-
séntés par Joél Roman, París 1992, sem hefur að geyma fleiri ritsmíðar um skyld
efni eftir Renan, svo og texta Fustel de Coulanges og fleiri.