Skírnir - 01.09.2003, Page 170
396
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
einingar af margvíslegu tagi, þ.e.a.s. þær heildir sem eitthvert
stjórnvald, hverju nafni sem það nefndist, náði á einhvern hátt yfir.
Hins vegar er eins og sú spurning hvarfli ekki að honum, hvort til
kunni að hafa verið einhverjar einingar, óháðar stjórnvaldi, sem
unnt sé að skilgreina sem „þjóðir“. Um það ríkir þögn, og hún er
á köflum býsna hávær. Þegar sjóngeislar meistarans sópast yfir
fornöldina, sér hann eingöngu borgríki eins og Aþenu og Spörtu
og síðan heimsveldi eins og Persaveldi og Rómaveldi, og þarf ekki
að orðlengja það að ekkert af þessu var hægt að kalla „þjóðir". En
hvergi er nefnt að þótt Grikkir væru á fyrsta tímabili sinnar sögu
klofnir sundur í aragrúa borgríkja og síðan innlimaðir í Róma-
veldi, höfðu þeir ákaflega sterka tilfinningu um að Hellenar
mynduðu sérstaka heild, sem væri skýrt aðgreind frá „barbörum"
og byggðist á sameiginlegri tungu, trú á Ólymps-guði, Hómers-
kviðum, þátttöku í Ólympíuleikjum og mörgu öðru, en væri ger-
samlega óháð því hvaða myndir pólitískt vald kynni að taka á sig
á þessu eða hinu tímabilinu. Hvað á að kalla slíka heild? Sam-
kvæmt skilgreiningum meistarans sjálfs voru Hellenar hinir fornu
naumast annað en „þjóðfræðilegur og tungumálslegur hópur“ af
því tagi sem hann telur reginskyssu að kalla „þjóð“. En ef hann
hætti sér inn á þær brautir og vildi halda fast við skilgreiningar sín-
ar, lenti hann fljótt út á hálan ís. Því verður nefnilega ekki á móti
mælt að Hellenar hinir fornu, sem menn hafa yfirleitt skilgreint
sem „þjóð“, léku ólíkt stærra hlutverk í sögunni sem heild og voru
mun mikilvægari eining en eitthvert borgríki út af fyrir sig, eða
stundleg bandalög slíkra borgríkja.
Aðrar heildir í fornöld, þar sem svo virðist sem pólitískt vald
og menning, trúarbrögð og annað slíkt hafi farið saman, a.m.k. á
stundum, vill meistarinn heldur ekki skilgreina sem „þjóðir“, og
beitir þá nokkuð sérkennilegum rökum:
Egyptaland, Kína, Kaldea hin forna voru ekki að neinu leyti þjóðir
(nations). Þetta voru hjarðir, reknar áfram af einhverjum syni Sólarinnar
eða syni Himinsins. Það voru engir egypskir borgarar, ekki fremur en nú
eru til kínverskir borgarar.9
9 Ernest Renan, ívitnað rit, bls. 38.