Skírnir - 01.09.2003, Síða 174
400
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
landamæri" á hingað ekkert erindi. Ýmsum kenningum um „nátt-
úruleg landamæri" er slegið fram til að réttlæta herferðir og sigur-
vinninga eða þá hvetja til þeirra, þær eru lagðar á borðið í alþjóð-
legum samningaviðræðum milli ríkja eða þjóða, en þær koma við-
fangsefni Renans ekkert við. „Náttúruleg landamæri“, ef þau eru
til á annað borð, eru kannske hluti af lífi þjóðar, en þau eru engin
skilgreining á því hvað sé „þjóð“. Sama máli gegnir um „hags-
munasamtök". Þetta orð er reyndar jafnóljóst á frönsku og ís-
lensku, en meistarinn skýrir það með því að nefna „Zollverein".
Um leið er augljóst að þetta fyrirbæri kemur viðfangsefni Renans
heldur ekkert við, það er býsna erfitt að ímynda sér að „tolla-
bandalag" sé eða geti verið „þjóð“.
En því er ekki að neita að þýskusletta meistarans vekur vissar
grunsemdir. Þýskaland var fyrst landfræðilegt svæði, áður en það
varð eitthvað annað, og „tollabandalagið“ var einn áfanginn á leið-
inni til sameiningar landsins í keisararíki. Því má vera að með því
að flækja mál sitt með þessum tveimur atriðum, sem koma hér eins
og skrattinn úr sauðarleggnum, sé meistarinn að víkja að einhverj-
um gömlum áróðri Frakka gegn Þjóðverjum: sameinað Þýskaland
sé ekki annað en einhver gervismíð, landafræði og hagsmunasam-
band og lítið meir. Kannske finnst mönnum að ég lesi meira inn í
orð meistarans en í þeim felist. En í grein sem nefnist „Styrjöldin
milli Frakklands og Þýskalands", og birtist í tímariti 15. septem-
ber 1870, lætur hann nokkuð skýrt að því liggja að sameining
Þýskalands þurfi ekki að vera annað en stundlegt fyrirbæri. Hann
segir þar að „fram að þessum síðustu árum hafi Þýskaland ekki
verið þjóð (peuple)“,13 og álítur síðan að sameiningin eigi rætur
sínar að rekja til óttans við Frakka og sé í raun og veru óeðlileg:
„Þegar þeir eru lausir við óttann við Frakkland, munu hinir
hyggnu lýðir Saxlands og Svabens losa sig undan prússneskri
herkvaðningu.“ „Því minna sem Frakkland14 skiptir sér af Þýska-
13 Greinin er prentuð í Ernest Renan: Qu’est-ce qu’une nation?, bls. 80-106, sbr.
bls. 82.
14 Það er frönsk málvenja (og reyndar engilsaxnesk líka) að tala um „Frakkland"
og „Þýskaland", þegar menn myndu segja „Frakkar" og „Þjóðverjar“ á ís-
lensku, og færi best að snúa orðalaginu þannig þegar þýtt er yfir á mál Snorra.