Skírnir - 01.09.2003, Page 212
438 EINAR MÁR JÓNSSON SKÍRNIR
hafði gersamlega misst trúna, og hann yfirgaf prestaskólann. Það
var árið 1845.
Þannig hafði Renan glatað sinni barnatrú fyrir tilstilli þýskra
fræðimanna, en þeir gáfu honum þó nokkrar bölvabætur sem var
hin vammi firrða íþrótt samanburðarmálfræðinnar, og því hafði
hann á þeim takmarkalitla aðdáun. Inn á þessar brautir fór hann
nú, hann varð mesti sérfræðingur síns tíma í málum, trúarbrögðum
og fornri menningu Semíta, ferðaðist víða um Austurlönd nær,
kenndi og skrifaði bækur sem vöktu ótrúlega athygli. Á þeim tíma
þegar bók sem seldist í fjögur þúsund eintökum var talin met-
sölubók, seldist rit Renans Ævi Jesú (1863) í þrjátíu þúsund eintök-
um á þremur fyrstu mánuðunum, þrátt fyrir heiftúðuga andstöðu
kaþólskra manna. Þótt samskipti Renans við yfirvöld væru svipt-
ingasöm var hann opinber persóna og víðfrægur um alla álfuna.
En svo fór að syrta í álinn. Sameining Þýskalands var í aðsigi
með miklu brambolti, hún leiddi til styrjaldar við Frakka, og með-
al þeirra sem réttlættu og vörðu þessa stefnu voru fræðimennirnir
miklu, þjóðfræðingar og samanburðarmálfræðingar af því tagi
sem valdið höfðu umskiptum í lífi Renans sjálfs. Rökin voru enn
af sama tagi, komin úr sömu smiðjunni. Og þegar þessir menn létu
sér ekki nægja að taka af honum guð heldur hrifsuðu til sín Elsass-
Lótringen að auki var mælirinn fullur. Renan afneitaði engu af því
sem hann hafði skrifað, lífsskoðun hans sem var byggð á framfara-
trú breyttist ekki, og því gat hann gefið út 1890 rit sitt Framtíð vís-
indanna frá 1848 án breytinga, en nú stóð hann upp til varnar
frönskum sjónarmiðum í blaðagreinum, í bréfaskiptunum við
David Strauss og loks fyrirlestrinum í Sorbonne. E.t.v. var það
framfaratrúin sem gerði honum kleift að taka upp kenninguna um
„viljann“, en það sem var sennilega kjarni hugsunar hans á þessum
tíma sagði hann í formála ritgerðasafns 1878, þegar hann ávarpaði
föðurlandið á latínu: „Malo tecum errare quam cum ceteris recte
sapere." „Ég vil heldur að mér skjátlist í fylgd með þér en að ég
hafi rétta skoðun í fylgd með öðrum.“72 Þessi orð gætu verið ein-
kunnarorð fyrirlestrarins í Sorbonne.
72 Svavar Hrafn Svavarsson bendir mér á að Cicero hreyfi svipaðri hugmynd