Skírnir - 01.09.2003, Page 215
GREINAR UM BÆKUR
ÁLFRÚN GUNNLAUGSDÓTTIR
/
Ovænt sýn:
Holdið hemur andann1
Birna Bjarnadóttir
Holdið hemur andann: Um fagurfrœði í skáldskap Guðbergs Bergssonar
Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003
Rit Birnu Bjarnadóttur, Holdið hemur andann: Um fagurfræði í skáld-
skap Guðbergs Bergssonar, gerir kröfu til þess sem það les, ekki aðeins
hvað efni varðar, heldur á það einnig við um formið sem verður að teljast
nokkuð óvenjulegt. Maður hlýtur að lesa ritið hægt og leyfa brotunum
sem það er sett saman úr að raðast í huganum. Ekki svo að skilja að þau
myndi samstæða heild í lokin, en heild er það engu að síður og að vissu
leyti myndræn.
Orðið fagurfræði hefur verið notað og ofnotað á síðari tímum, svo að
erfitt er að festa á því hendur. Birna kýs í verki sínu að gefa orðinu rúma
merkingu og láta lesandann að mestu sjálfan um að uppgötva við lestur
þess hvaða merkingu hún gefur því og yfir hvað það er látið ná. Þar með
er ekki sagt að orðið ljúkist upp í eitt skipti fyrir öll. í huga annarra höf-
unda kynni það að hafa aðra eða margbrotnari merkingu. í lokin kemst
Birna að þeirri niðurstöðu að fagurfræðin í skáldskap Guðbergs Bergs-
sonar sé einstaklingsbundin (bls. 220 og 228), en í inngangi nefnir hún að
fagurfræðileg reynsla varði skilning okkar á sambandi hugar og heims,
það er að segja, varði samband vitundar og veruleika (bls. 17). Nú er fag-
urfræðileg reynsla ekki alveg það sama og fagurfræði og þess vegna spyr
ég: Hvernig getur fagurfræði verið einstaklingsbundin?
Spurningin er til komin vegna þess að í mínum huga er fagurfræði
annaðhvort aldrei einstaklingsbundin, eða hún er það alltaf. En sé hún
það alltaf, verður að skoða fagurfræði hvers listamanns og heimspekings
fyrir sig, og það er einmitt þá sem orðið hættir að hafa almenna skírskot-
un, eða öllu heldur, merking þess leysist upp. Einstaklingsbundin fagur-
fræði hljómar í mínum eyrum líkt og þverstæða.
1 Grein sú sem hér fer á eftir var upphaflega samin sem önnur andmælaræða er
flutt var við doktorsvörn Birnu Bjarnadóttur þann 6. júní 2003, og hefur henni
verið lítið breytt. Hún ber því merki ræðu og að hún sé samin við ákveðið tæki-
færi og takmarkist af því.
Skímir, 177. ár (haust 2003)