Skírnir - 01.09.2003, Síða 218
444
ÁLFRÚN GUNNLAUGSDÓTTIR
SKÍRNIR
um flókið fyrirbæri í raunveruleikanum, sem er orð og hugmyndir skálds
er fela beint eða óbeint í sér fagurfræðilega afstöðu þess.
Það má því segja að Birna notist við tvenns konar „svið“ í verki sínu
sem til einföldunar mætti kalla í gamni og alvöru Stóra sviðið og Litla
sviðið. Stóra sviðið nær ekki aðeins til Vesturlanda, heldur teygir sig líka
til ólíkra tímabila. Birna kallar fram á Stóra sviðið jafnólíka höfunda og
heimspekinginn Plotínos, kirkjuföðurinn Ágústínus, Soren Kierkegaard,
Friedrich Nietzsche og Maurice Blanchot, í því skyni að láta þá varpa
ljósi á fagurfræðilegar hugmyndir Guðbergs Bergssonar. Ekki aðeins eru
landamerki numin brott, heldur líka máð út mörk tíma og menningar.
Einnig bókmenntategunda og bókmenntagreina. Aðeins hugmyndirnar
standa eftir. Og samsvarandi eða ósamsvarandi hugmyndir þessara höf-
unda liggja engan veginn í augum uppi. Því mætti spyrja hvers vegna
verið sé að stefna saman í doktorsritgerð svo ólíkum höfundum, þegar
vitað er að akademísk hugsun og hefð byggist fremur á samræmingu
hugmynda en tvístrun þeirra? Með öðrum orðum, á heildstæðri umfjöll-
un. Jafnframt hlýtur að vakna sú spurning hvort hefðin ein eigi að fá að
ráða för þegar akademísk ritgerð er annars vegar. Því er til að svara að
hefðin hlýtur ætíð að vega þungt, en mun ekki geta haldið velli nema
leyfð séu frávik frá henni og hleypt að sjónarmiðum sem feli í sér gagn-
rýni á hana.
Með ofansögðu er ég hreint ekki að halda fram að ekki sé samræmi á
ferð í riti Birnu. En því verður ekki neitað að Birna tvístrar en byggir svo
aftur upp. Hver þessara höfunda um sig sem hún kallar fram á sviðið
gegnir ákveðnu hlutverki, þótt hlutverkin kunni stundum að fléttast sam-
an, og skal nú vikið nánar að þeim atriðum. En til að geta það verður fyrst
að kalla til grunnhugtökin sem gengið er útfrá í riti Birnu, en það eru hin
klassísku hugtök í fagurfræði og listum, ást, trú og fegurð. Því má bæta
við að stór og merkingarþrungin hugtök sem þessi réttlæta að vissu leyti
þá ákvörðun Birnu að stefna saman jafnólíkum höfundum og frá jafnólík-
um tímaskeiðum og raun ber vitni. Þetta eru hugtök sem ekki fyrnast þótt
deilur kunni að rísa um inntak þeirra.
Músin sem lœðist eftir Guðberg Bergsson og Játningar Ágústínusar
eru ólík verk og virðist í fljótu bragði sem heilt úthaf skilji þau að, ekki
aðeins í tíma og rúmi, heldur eru bækurnar auk þess skrifaðar af ólíkum
ef ekki andstæðum hvötum. Samt sem áður kemur Birna auga á samsvör-
un þarna á milli, enda tekur hún mið af hugmyndasögu fagurfræðinnar og
siðfræði hennar.
Músin sem heðist er á sinn hátt „játning", þótt í þessu tilviki sé um að
ræða „játningar“ sögumanns í skáldsögu en ekki höfundarins. Verkið á
því að forminu til sitthvað sammerkt með Játningum Ágústínusar. í báð-
um tilvikum er lagt upp úr „innri veruleika“ sem til varð með kristninni,
upp úr mörkum lífs og verks, afneitunar á sjálfinu og leitar að því. Ef til