Skírnir - 01.09.2003, Page 219
SKÍRNIR ÓVÆNT SÝN: HOLDIÐ HEMUR ANDANN
445
vill er á döfinni sjálf sem ekki getur orðið raunverulegt nema í frásögn.
Atriði þau sem hér hafa verið nefnd varðandi verkin tvö, þeirra
Ágústínusar og Guðbergs, eru hliðstæður. En einnig má finna andstæður.
Ágústínus upphefur „innri veruleikann“ sem hann raunar álítur heilagan
og stundar kappsfulla afneitun á lífi því sem lifað er hér á jörðinni. Sögu-
maðurinn í Músinni beinir hins vegar sjónum að jarðvistinni og efnis-
heiminum, að lífi án forsjónar guðs og án endurlausnar, og hann getur
ekki sniðgengið óhamingjuna, getur ekki losnað undan tilvist sinni, sbr.
líkingamál Blanchot hér að framan. Tilvistin rígheldur í hann. Eins og sjá
má er hér um mörk á sviði hugmynda að ræða, þótt ekki séu þau fyrir-
fram gefin eða augljós, mörk sem Birna að vissu leyti laðar fram. Við
mörkin verður til togstreita, jafnvel glíma, og skapar hún að vissu leyti
spennu í texta hennar.
Játningar Ágústínusar koma aftur við sögu en þá í tengslum við ann-
að verk eftir Guðberg, Hjartað býr enn í helli sínum, og svo ritin Níund-
ir eftir Plotínos. Umfjöllunarefnið er fegurð, og lögð er sérstök áhersla á
hina helgu fegurðarþrá Ágústínusar, sem auðvitað vísar til æðra sviðs og
innra lífs. Plotínos var fyrst og fremst á höttunum eftir hinu ósvikna, eft-
ir hugmynd af lífi sem laust væri úr viðjum efnisins og þjáningum þess.
Það heitir víst eftirsóknarvert líf og heyrir undir siðfræði fagurfræðinnar
sem að áliti Guðbergs Bergssonar er ekki sú sama í lífi og list. Hann lítur
svo á að siðfræðin í skáldskap sé ekki til eftirbreytni í raunveruleikanum,
enda eigi lesandi ekki að taka passíft við verki. Skáldskapur og listaverk
séu tæki sem lesandinn fái í hendur til að móta og skilgreina, eins og hann
segir í bókinni Guðbergur Bergsson, metsölubók.6 Lestur er því eins kon-
ar meðsköpun, og að þessu leyti sver afstaða Guðbergs sig í ætt við höf-
unda, jafnt innlenda sem erlenda, á ofanverðri 20. öld. í riti Birnu Hold-
ið hemur andann kemur fram ekki ólík krafa til lesandans, honum er ætl-
að að taka þátt í sköpun og draga sjálfur ályktanir.
Ráf fráskilda mannsins í skáldsögu Guðbergs Hjartað býr enn í helli
sínum, eða kannski ætti að segja leit hans, á sér stað á mörkum draums og
veruleika, þar sem farið er á milli hins innri veruleika og ytri. Að mati
Birnu fjallar enginn skáldsagnahöfundur um mannlega tilvist án þess að
þar komi beint eða óbeint við sögu samband manns og fegurðar, eða með
hennar orðum, sem hún hefur eftir Plotínosi, hvernig fegurðin verður til
með þátttöku manns (bls. 105 og 127). En hafi þeir Plotínos og Ágústín-
us leitað að lífi sem laust væri úr viðjum efnisins, er þessu alveg öfugt far-
ið nú á dögum og manni sýnist að hellisbúi Guðbergs komist ekki lengra
en að sjá skuggann af ástinni, samanber skuggamyndirnar í hellinum hjá
Platóni.
6 Guðbergur Bergsson, Guðbergur Bergsson metsölubók, Reykjavík: Forlagið,
1992, bls. 195.