Skírnir - 01.09.2003, Qupperneq 249
SKÍRNIR
HINSEGIN RADDIR
475
Anne hefði ekki líkað það vegna þess að það var hin ýkta rómantíska og
demóníska mynd af Byron sem hún var heilluð af og varð hennar „blæti“.
Byrontýpan, svarthærð, þunglyndisleg, gjarna með ör í andliti, við-
kvæmnisleg og grimmdarleg, hefur lifað áfram í arftökum hans. Einn
þeirra var Elvis Presley, annar er söngkonan k.d. lang. Vinsældir þessa
demóníska elskhuga í lesbískri menningu hafa áreiðanlega eitthvað með
það að gera að í samfélögum, sem banna allar myndir og sögur af konum
sem þrá konur, munu samkynhneigðar konur trúlega velja næstbesta
kostinn, sem er að samsama sig körlum sem þrá konur og það er þá flag-
arinn sem verður fyrir valinu. Flagarinn gengur svo langt í græðgi sinni í
konur að hann lendir utan samfélagsins og í mynd hans finna lesbíur sína
gagnkynhneigðu tvíburasál, segir Terry Castle.65
Er það þá þannig að allar „butchtýpur" leiti í „femmetýpur" ? Fjarri
fer því, vegna þess að þetta er sviðsetning og stílfærsla á kyngervum, leik-
ur sem segir ekkert til um það hvert þráin beinist. Lesbíur geta gengið inn
í þennan leik út frá hvaða stöðu sem er. Hvernig er þá hægt að skilgreina
hina samkynhneigðu þrá og lýsa henni, því að aðeins þannig hlýtur að
vera hægt að dæma um hvort bókmenntaverk eða kvikmynd er í raun að
sýna veruleika samkynhneigðra?
Chris Holmlund ber saman allmargar kvikmyndir um femíníska vit-
undarvakningu og „það-að-koma-út-úr-skápnum-sem-lesbía-myndir“
sem urðu vinsælar í Bandaríkjunum á áttunda og níunda áratugnum. Hún
segir að það hafi verið einkennandi fyrir þær flestar hve varfærnir leik-
stjórar og framleiðendur hafi verið, þeir tefli fram „femmetýpum" í aðal-
hlutverk, og oft í aukahlutverk líka, láti þær skiptast á rómantísku augna-
ráði sem gæti verið hlýja milli vinkvenna og hafa lífsstíl sem gæti verið
samkynhneigður en þarf ekki að vera það. Með þessu móti þarf enginn að
styggja neinn. Lesbískum áhorfendum fannst þessar myndir mjög sætar
en gátu ekki séð að þær hefðu neitt með lesbíanisma að gera, enda áttu
söguhetjurnar yfirleitt jafnframt í gagnkynhneigðum ástarsamböndum.
Sannaðist þar hið fornkveðna: „Boðskapur sögunnar er þessi: lesbía,
einkum „femme“, er ekki lesbía ef karlmaður er einhvers staðar í grennd-
inni.“66 Ein þessara mynda sker sig þó úr af því að hún er ekki opin í báða
enda eins og þær sem hér var lýst, bæði efni og efnistök eða augnaráð
hennar er eindregið lesbískt.67 Og nú víkur sögunni austur á Seyðisfjörð
og suður á Arnarnes, niður í Þingholt og suður í Dyrnar þröngu.
Bæði Anna Dóra í Eldhúsmellum og konan í Feilnótunni eru giftar og
reyna að brjótast út úr ómögulegum hjónaböndum hvor á sinn hátt. Þær
65 Castle 1993, 103-104.
66 Chris Holmlund: Impossible bodies, femininity and masculinity at the movies,
Routledge, Lundúnum og New York 2002, 40.
67 Þetta er myndin Desert Hearts eftir Donnu Deitch frá 1986.