Skírnir - 01.09.2003, Blaðsíða 273
SKÍRNIR
HINN SÖGULEGI JESÚS SEM FYRIRMYND
499
lengur einskorðaðar við rit kanónsins eða Nýja testamentisins, heldur eru
aðrar heimildir einnig rannsakaðar, meðal annars heimildir svokallaðra
vingltrúarmanna. Verður nú vikið að nokkrum helstu áhersluþáttum
þriðju leitarinnar að hinum sögulega Jesú, en þeir vega misþungt eftir
fræðimönnum.42
Félagsfrœðileg túlkun. Boðun og örlög Jesú endurspegla erfiðleika
gyðingdóms á fyrstu öld. í gyðinglegu samfélagi komu fram margar end-
urnýjunar- og heimsslitahreyfingar sem minna á svipaðar hreyfingar sem
sprottið hafa upp við merk tímamót í sögunni, eins og til dæmis á alda-
mótum eða á mótum nýs aldatugar. Þær eru að mörgu leyti líkar hreyf-
ingu Jesú. Óhætt er að flokka Jesú og frumsöfnuðinn með slíkum hreyf-
ingum.
Staða Jesú innan gyðingdóms. Jesús stofnar endurnýjunarhreyfingu
innan gyðingdóms, sem er í takt við aðrar róttækar lögmálstúlkunar- og
heimsslitahreyfingar samtíðar hans. Hreyfing hans stefnir að endurreisn
þjóðar Gyðinga. Á milli Jesú og boðunar frumsafnaðarins er einnig að
finna samsvörun, þar sem tign Jesú er túlkuð með gyðinglegum titlum.
Áhersla á rit utan kanónsins. í þriðju leitinni er sú viðleitni í brenni-
depli að ákvarða að nýju Ræðuheimildina (Q) og lagskiptingu hennar og
rannsaka tengsl hennar og Tómasarguðspjalls. Þennan áhuga má skýra
með því að bæði ritin eru í upprunagerð að miklu leyti talin vera eldri
samstofnaguðspjöllunum. Áherslan á þessi „óbiblíulegu" rit hefur varpað
ljósi á fjölbreytileika Jesúmynda frumsafnaðarins, sem er ekki eins áber-
andi ef menn einskorða sig við Nýja testamentið.
Bent hefur verið á að Ræðuheimildin sé ekki til í handriti heldur ein-
ungis sem kenning og að varhugavert sé að draga sögulegar ályktanir af
ályktunum. Sumir ganga býsna langt í þessu efni, eins og til dæmis John
Dominic Crossan, en hann telur að engin heimild Nýja testamentisins sé
upprunaleg. Á hinn bóginn telur hann að elstu textana sé að finna í
Tómasarguðspjalli, Guðspjalli Egertons, Hebreaguðspjalli, Ræðuheim-
ildinni (Q) og píslarsögu Pétursguðspjalls.43
Á síðustu árum hafa rannsakendur þriðju leitarinnar farið nokkuð hver
sína leið. Gamla áhersla frjálslyndu guðfræðinnar á að Jesús hafi ekki verið
heimsendaprédikari er þeim þó sameiginleg. En þeir taka undir þá skoðun
Bultmanns að meðal upprunalegasta efnis guðspjallanna séu spekiorð Jesú.
Að áliti þeirra var Jesús undir áhrifum „gyðinglegra kyníka“ sem boðuðu
„andborgaralega lifnaðarhætti". Þeir líta svo á að hann hafi verið undir
42 í bók J.R. Porters,Jesús Kristur, sem kom út í íslenskri þýðingu Ingunnar Ás-
dísardóttur árið 2000, er third quest-stefnan kölluð „leitin nýja“. Þar er að finna
ágæta umfjöllun um leitina að Jesú sögunnar, en annars hefur lítið verið fjallað
um hana á íslensku. Sjá J.R. Porter 2000: 192-195.
43 Þessi rit em öll aðgengileg í Wilhelm Schneemelchner 1999.