Skírnir - 01.09.2003, Page 274
500
SIGURJÓN ÁRNI EYJÓLFSSON
SKÍRNIR
miklum áhrifum hellenismans og telja að hann hafi lifað svo að segja á
mörkum hins gyðinglega sjálfsskilnings. Almennt er þó hinn jarðneski
Jesús rannsakaður í ljósi gyðingdóms og þeirrar staðreyndar að hann vildi
endurnýja gyðingdóm út frá innsta kjarna hans.
Jesú-semínarið
Árið 1985 stofnaði hópur nýjatestamentisfrasðinga langvinna málstofu
um hinn sögulega Jesú, svokallað Jesú-semínar við Westar Institute í Kali-
forníu, að undirlagi Róberts W. Funks. Markmið samstarfsins var að
finna með vísindalegum aðferðum upprunaleg orð Jesú í þeim heimildum
sem til eru um hann, bæði innan ritningarinnar og utan, í huldum biblíu-
ritum, svokölluðum apokrýfu bókum, og gnostískum ritum. Rannsóknir
beindust mikið að Ræðuheimildinni (Q) og Tómasarguðspjalli. Þessir
fræðimenn hittust reglulega og fjölluðu um afmarkaða texta og að því
loknu voru greidd atkvæði um hvernig meta bæri uppruna þeirra.
Árið 1993 var gefið út ritið Guðspjöllin fimm (e. The Five Gospels) þar
sem upprunalegum orðum Jesú er raðað eftir niðurstöðum úr rannsókn-
um þessa hóps.44 Þau orð sem talin eru upprunalegust og frá Jesú sjálfum
komin eru rituð með rauðu, þau sem hann hefur líklega sagt með fjólu-
bláu og þau sem talin eru frá honum komin en í sterkum tengslum við
boðun kirkjunnar með gráu. Svarta letrið er það sem söfnuðurinn hefur
lagt honum í munn.45
í umfjölluninni hér á eftir verður stuðst við verk Burtons L. Macks og
Johns Dominics Crossans. Það sem þeir eiga sameiginlegt með þriðju leit-
inni er að tekinn er upp þráðurinn í rannsóknarsögunni um hinn jarð-
neska Jesú þar sem frá var horfið í frjálslyndu guðfræðinni gömlu. Kenn-
ingu Jóhannesar Weiss og Alberts Schweitzers um Jesú sem gyðinglegan
heimsslitaprédikara er hafnað af flestöllum fulltrúum Jesú-semínarsins
Innan fræðanna í Bandaríkjunum er um að ræða óbeint framhald á rann-
sóknum Rudolfs Bultmanns og lærisveina hans, en áherslan á boðun
frumsafnaðarins virðist vera sniðgengin. Þessi afstaða veldur nokkru um
það endurmat heimilda sem er aðalsmerki þriðju leitarinnar að hinum
sögulega Jesú. Áhersla Bultmanns og lærisveina hans var á rit Nýja testa-
mentisins þar sem aðferðir formsögunnar voru hafðar í fyrirrúmi, en
fylgismenn Jesú-semínarsins grípa til heimilda sem fengu ekki inni í ritn-
ingunni, svo og Ræðuheimildarinnar og annarra heimilda sem taldar eru
búa að baki guðspjöllunum. Áhersla á Tómasarguðspjall er áberandi, en
44 Robert W. Funk og Roy W. Hoover 1993.
45 Otto Betz gagnrýnir þessar aðferðir í ritdómi um bókina The Five Gospels, en
Crossan styður þær. Sjá Otto Betz 1994: 998; John Dominic Crossan 1995:
557-559.