Skírnir - 01.09.2003, Page 278
504
SIGURJÓN ÁRNI EYJÓLFSSON
SKÍRNIR
Mikilvægur þáttur í framsetningu Crossans er aðferðafræðin. Hún
byggist á þremur þáttum sem skarast. I fyrsta lagi greinir Crossan heild-
arsviðið (macrocosmos), en í því felst að hann sýnir fram á þá sameigin-
legu þætti sem móta þjóðfélagsgerð landanna við Miðjarðarhaf. Hann
styðst í þessu sambandi við aðferðir mannfræðinnar og samanburðar-
rannsóknir ólíkra menningarhefða. í annan stað er um að ræða miðsvið-
ið (mesocosmos) sem snýr að grísk-rómverskri sögu og sögu gyðinga.
Loks er það hin smækkaða mynd (microcosmos) sem er að finna í heim-
ildum. Crossan rannsakar sannleiksgildi þeirra heimilda sem geta um
Jesú, bæði innan og utan ritningarinnar. Hann tengir saman þessa þrjá
þætti, mannfræðina, söguna og heimildagagnrýnina, til þess að fá sem
heildstæðasta mynd.48
í fyrsta hluta bókarinnar dregur Crossan fram helstu þjóðfélagsleg og
menningarleg einkenni ríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann rekur
helstu niðurstöður innan fræðanna og vitnar ýtarlega til heimilda fornald-
ar frá þessu svæði. Megináherslan liggur á eðli og virkni hins rómverska
friðar (Pax romana) og hvernig Rómverjar tryggðu hann með hervaldi. í
sambandi við menningarstrauma innan rómverska ríkisins fjallar Crossan
ýtarlega um lífsmáta og boðun kynískra og stóískra farandprédikara
(119-139, 446-450). Hann líkir þeim við andófshreyfingu hippanna en
kyníkar mynduðu mótvægi við uppastefnu auðhyggjunnar í Róma-
veldi.49 Crossan er þörf á að fjalla ýtarlega um menningarheim Róma-
veldis til þess að renna stoðum undir þá kenningu sína að mörkin sem oft
eru dregin á milli grískrar og gyðinglegrar hefðar innan fræðanna séu í
rauninni ekki til. Samkvæmt skoðun hans er sama efnahagslega og þjóð-
félagslega þróun í öllum löndunum við Miðjarðarhafið. Tæknikunnátta er
svipuð, eins og menningararfleifðin. Þó að stjórnendur komi og fari eru
forsendur samfélagsins ætíð hinar sömu (41).
I öðrum hlutanum fjallar hann um forsendur og það umhverfi sem or-
sakaði stöðuga ólgu í samfélaginu og leiddi loks til uppreisnar gegn Róm-
verjum (66-70 e.Kr.). Tekur hann þessa oft „ruglingslegu sögu“50 til um-
fjöllunar og rekur sig áfram eftir framsetningu Jósefusar Flavíusar sagna-
ritara, en hann skrifaði viðamikið verk á fyrstu öld um sögu og samfélag
gyðinga og endalok þess.
Viðvíkjandi þriðja þættinum, sem snýr að mati á þeim sögulegu
heimildum sem til eru um Jesú, greinir Crossan á milli þriggja laga í til-
urð þeirra. Fyrst ber að nefna þau orð sem Jesús sagði, gjörðir hans og
þær þjáningar sem hann leið. Þetta svið er þróað áfram þar sem efnið er
48 John Dominic Crossan 1995:28-34 (framvegis vísað til blaðsíðutals innan sviga
í meginmáli); John Dominic Crossan 1996: 14-16.
49 John Dominic Crossan 1996: 250.
50 Burton L. Mack kallar hana svo, sjá Burton L. Mack 1995: 148.