Skírnir - 01.09.2003, Side 292
518
AUÐUR ÓLAFSDÓTTIR
SKÍRNIR
geirfuglsins. Norðurárdalurinn, sem ættarnafnið Nordal er myndað af, og
fyrirtækið Norðurál hafa sama stofn sem gerir táknmyndina enn áleitn-
ari. Enda þótt ekki verði horft framhjá því að efnahagslegur ávinningur sé
forsenda listsköpunar, má í stærra samhengi líta á fórn geirfuglsins sem
tákn fyrir önnur náttúruleg verðmæti sem tekist er á um á sviði efnahags-
mála samtímans. Svo haldið sé áfram með nafnlíkingu sýningarinnar, hef-
ur ættarnafnið Nordal tvíhliða ímynd í hugum margra. Annars vegar
stendur það föstum fótum í listsköpun þjóðarinnar, upphaflega í tengsl-
um við bókmenntir og tónlist og í seinni tíð í gegnum aðrar listgreinar,
svo' sem myndlist. Hinum þræðinum hefur nafnið komið við sögu við-
víkjandi nýjum áherslum í efnahagslífi þjóðarinnar á sjöunda og áttunda
áratug 20. aldar, m.a. í sambandi við virkjanagerð og orkufreka stóriðju.
I álgrárri eftirmynd Ólafar Nordal af Valþjófsstaðahurðinni sögu-
frægu eru skildir hurðarinnar hafðir þrír, en tilgátan um tilvist þriðja
skjaldarins þótti, svo sem kunnugt er, kollvarpa ýmsum hugmyndum um
lífsskilyrði á íslandi á miðöldum.4 Þeir tveir sem varðveist hafa eru sam-
kvæmt venju skreyttir flóknu miðaldamynstri og myndum. Þriðja hring-
inn hefur Ólöf hins vegar látið standa óskreyttan, eða auðan, sem tákn
fyrir óvissu hinnar sögulegu eyðu sem við getum ekki gert betur en að
geta í. Líkt og í mörgum verkum hennar er menningarlegur sjálfsskilning-
ur veigamikill þáttur í merkingu verksins en það er einmitt í slíku merk-
ingartómi sem goðsagan verður oft og tíðum til.
Forystuhrútur
Dýr af ýmsum toga hafa verið fyrirferðarmikil í verkum Ólafar Nordal í
áranna rás. Árið 1996 hélt hún sýningu á skjannahvítum gifsskúlptúrum í
4 Valþjófsstaðahurðin, sem er einhver þekktasti gripur Þjóðminjasafnsins, er talin
vera frá því á fyrri hluta 13. aldar, blómaskeiði íslenskrar miðaldamenningar.
Kristján Eldjárn segir að hún sé „frægust íslenskra forngripa, ef ekki eru talin
með handrit" (Hundrað ár í Þjóðminjasafni, Reykjavík 1963, án blaðsíðutals).
Fjölmargir fræðimenn, einkum erlendir, hafa rannsakað og ritað um hurðina sem
þykir eitt stílhreinasta verk rómanskrar listar á Norðurlöndum. Þar til árið 1852
var hún kirkjuhurð á Valþjófsstað í Fljótsdal. Menn hafa þó frá upphafi haldið
fram þeirri hugmynd - og stutt margs konar rökum - að hurðin hafi fyrst verið
fyrir skálanum á Valþjófsstað og þá mun stærri. Eða svo há að vel mátti ríða inn
um hana, líkt og segir í gömlum lýsingum á skálanum og Björn Th. Björnsson
vísar til í grein í riti sínu Brotasilfur (Reykjavík 1955, bls. 83). Þá bendir mynd-
efni hurðarinnar einnig til þess að upphaflega hafi hún ekki verið gerð fyrir
kirkju heldur „veraldlegt stórhýsi, höfðingssetur" á „velmegunaröldum þjóðar-
innar“ (sama rit, bls. 85).