Breiðfirðingur - 01.04.1955, Page 52
50
BREIÐFIRÐINGUR
Gests og þeirra, er með honum fórust, eru þó auðfundin.
Hugurinn reikar aftur í tímann til haustdagsins fyrir mörg-
um árum, þegar Gestur og þau hin fórust í sundinu fyrir
utan Hjallanes. Þá vissi ég fyrst að við fjöllin blá geta líka
skeð sorglegir atburðir, og mér varð þetta enn ljósara næsta
vor. Magnús á Staðarfelli kom þá hingað, sem oft áður og
síðar. Eg held að hann hafi verið trúnaðarmaður búnaðar-
sambandsins þá eða eitthvað þess háttar. Þá fyrst tók ég
eftir því, að augu gamla mannsins spegluðu eitthvað sem
minnti á þjáningu. Þó var hann beinn í baki og fasið hið
sama og fyrr, og um raunir sínar býst ég ekki við að hann
hafi talað,
I þá tíð vissi ég, að Gestur á Staðarfelli var dáinn, en
mér fannst hann hafa dáið eitthvað öðru vísi en aðrir —
eins og hann hefði unnið einhvern sigur með dauða sínum.
Síðar skildi ég þetta allt betur. Þá vissi ég, að með fráfalli
Gests var höggvið svo stórt skarð, að það yrði aldrei fyllt
foreldrum hans og seint fyrir hérað hans. Og enn eru þeir
til, ungu piltarnir, umhverfis landið allt, er grípa sundið,
þegar fleyinu hvolfir og synda knálega og bjarga sér og
öðrum, eða synda og reyna allt sem unnt er, en farast.
Virðulega heiðruðu þau hjónin minningu sonar síns og
fólks með gjöfinni á Staðarfelli. Þar var stórmannlega
minnzt harma sinna, og ekki svo hætt við að nafn Gests
gleymist um sinn. Og nú eru þau aftur flutt að Staðarfelli,
Magnús og Soffía, heim til Gests, heim í hvíldina og frið-
inn, heim í jörðina, sem þau unnu svo heitt.
Eftir hvíld og máltíð, var aftur farið að hugsa til ferða.
Tæmdir kaffibrúsar eru fylltir aftur af frúnni á Staðar-
felli. Ur þessu erum við fær um langa reisu. Svo er haldið
af stað norður með hlíðinni. Há flug og bergstallar gnæfa
við loft í austri, og ég verð eitthvað svo smár með sjálfum
mér, þegar ég hugsa um þetta hvelfda enni brúnarinnar.