Breiðfirðingur - 01.04.1958, Síða 49
Minni Breiðafjarðareyja
í ilmandi laut undir hamrahlíð liggur lítill drengur.
Vormorguninn hefur opnað þessum dreng undur veraldar.
Framundan blikar fjörðurinn breiði, stráður sindrandi
gimi sólstafanna. Blá augu drengsins dýpka og stækka.
Þau eru að opnast fyrir hinu óviðjafnanlega, hreiðfirzka
víðsýni. Eitthvert brot af eilífðinni er að fæðast í sál hans
þar sem hann ber að vörum sér nýútsprungið vetrarblóm.
Og nú sér hann í fyrsta sinni lönd, sólskinslönd við sævar-
brún. Hann hafði raunar greint þarna áður dökk, dularfull
strik.
En nú í morgunljómanum urðu þetta brosfríð lönd.,
Ijómandi af litum, logandi af lífi, ómandi af söngvum.
Undarlegt, að þarna úr ómælisdjúpi hafsins gætu risið þessi
lönd vorsælu og lífs. Og nú átti drengurinn í hamrahlíðinni
draumalönd. Heim, sem hann sá í hillingum kvöldroðans
og friðsælu morgunins. Veröld, þar sem aðeins hið fegursta
og glæsilegasta bjó, umvafið sælu, heiðríkju og himinljóma.
Hve mikið af hugarheimi og áhrifum allrar ævinnar
þessi lönd hafa mótað í sál hans til víðsýnis og þroska
verður auðvitað alltaf leyndardómur himinsins. En eilt
er víst: Hve heitt hjarta drengs getur slegið af ást til blik-
andi fjarlægða föðurlands síns, vegna ástarinnar á þessum
fljótandi sólskinseyjum í bláum sæ.