Breiðfirðingur - 01.04.1958, Blaðsíða 50
48
BREIÐFIRÐINGUR
Og draumadýrðin sveif brott um stund, hversdagsleik-
inn bregður grárri þoku yfir allt.
En draumalöndin dóu ekki. Ef til vill eru það þau, sem
birtast í hverri ósk um betri heim, hverju starfi, sem vill
auðga hið gróandi þjóðlíf.
Nú situr fulltíða maður á fjarlægri strönd. Hann horfir
út á ómælishafið. Engin lönd, engar hillingar framar. Enda-
laust ómælið fyllir sál hans myrkum geig. Hvar eru eyj-
arnar, draumalönd breiðfirzka barnsins í hamrahlíðinni.
Og nú birtast þau aftur í brosandi dýrð minninganna. Veru-
leikablærinn hefur nú hafið þau upp í hærra veldi.
Ljúfar lokkandi myndir stíga hálffeimnar upp úr djúpi
vitundarinnar. — Þarna róa ungar stúlkur syngjandi yfir
sund. Fuglar kvaka. Sólin signir vesturfjöllin geislafingrum.
Það eru mjólkurfötur í bátnum. Báturinn hallast. Gömul
kona biður guð að forða mjólkinni frá að hellast niður.
Stúlkurnar ungu hlæja. Vorguðinn brosir yfir grænu grasi,
golukysstum hvönnum, tónandi lundum, kvakandi æðar-
fugli.---------
Norðurljósin flétta Snæfellsjökli kórónu úr geisladjásni
eilífðarinnar og gifta hann og Glámu með englahöndum
himindýrðarinnar. Ungt fólk stígur dans á bláu svelli. —
Flatey blessar heit hjörtu barna sinna. Hlýjar fjálgar raddir
og glaðir hlátrar berast ómandi út í kyrrðina:
„Meyjanna mesta yndi það er að eiga vin“.
Jafnvel svellið hitnar af hrifningu og eldi ungrar ástar,
sem er að fæðast. Skyldi nornin vera í nánd við slíkan hóp?
Já, hún bíður jafnvel þar. Ein stúlkan að minnsta kosti féll
í faðm hennar og dó. — En það var.... Nei, stjörnurnar og
æskan syngur enn.
Alskeggjaður öldungur gengur að nausti. Tign og göfgi
skín af svip hans. Ennið hefur sorgin vígt. Augun eru
skyggn alla leið inn í eilífðina. Bros fullhugans ljómar