Morgunblaðið - 23.11.2018, Blaðsíða 92
92 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 23. NÓVEMBER 2018
ALMAR
BAKARI
BAKARÍ / KAFFIHÚS / SALATBAR
Sunnumörk 2, Hveragerði, sími 483 1919, Almar bakari
Opið mánudaga til laugardaga kl. 7-18, sunnudaga kl. 8-18
SÉRBAKAÐfyrir þig
SALATBAR
ferskur allan
daginn
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Nornasveimur er þriðja bókin í bóka-
röð Emils Hjörvars Petersens um
mæðgurnar Bergrúnu Búadóttur og
Brá Bjarkadóttur og glímu þeirra við
yfirnáttúrlegar ógnir og misindis-
menn í mannheimum. Bókin segir frá
því er norn er myrt í Trékyllisvík á
Ströndum á Jónsmessunótt og þær
mæðgur eru fengnar til að leysa mál-
ið með yfirnáttúrudeild rannsóknar-
lögreglunnar.
Skrúfað upp í hryllingnum
– Það gengur ýmislegt á í bókum
þínum, en þú hefur ákveðið að skrúfa
upp í hryllingnum í Nornasveim.
„Hvað hryllinginn varðar þá er það
aðallega vegna þess að mig langaði að
vinna meira með hrollvekjuþáttinn.
Bókin gerist yfir íslenska hásumarið,
á Jónsmessu, og mig langaði að reyna
að gera íslenska hásumarið hryllilegt
af því að það er bjart allan sólarhring-
inn.
Svo var það líka vegna þess að saga
mæðgnanna er að verða dekkri, sér-
staklega Brár, af því að hún er að
verða stærri og stærri karakter. Hún
hefur ákveðna sögu þar sem ég hef
ákveðið lokatakmark í huga. Í Norna-
sveimi þarf hún að takast á við það að
hún heldur að hún sé norn og nornir
eru flestar siðblindar.“
– Það er sprettur í bókinni þar sem
Brá er nánast eins og hún sé siðblind.
„Já, hún verður óáreiðanleg sem
sögumaður og lesandinn fær örugg-
lega smá sjokk að sjá hvað hún gerir.
Þetta er eitthvað sem hún þarf að
takast á við í komandi bókum. Sam-
band mæðgnanna er þannig að þær
togast til og frá hvor annarri – á með-
an önnur vill bæta samskiptin þá
bregst hin. Það er Brá sem bregst í
þessari bók.“
Hver bók er sjálfstætt verk
– Sérðu fyrir þér að næstu bækur
verði svona dökkar líka?
„Nei, ekki endilega, Ég vil að hver
bók hafi ákveðin þemu og hafi ákveð-
in einkenni. Ég lít á hverja bók sem
sjálfstætt verk og reyni að ganga að
hverri bók með nýja sýn og nýja nálg-
un. Samt þó að frásagnarstíllinn sé
svipaður. Það á að vera hægt að taka
upp eina bók og lesa hana án tillits til
þess hvort þú hafir lesið aðrar bækur
í röðinni.
Ein helsta áskorun fantasíuhöf-
unda er að koma upplýsingum til
skila í sögunni og ég hef lagt mig í
líma við að koma því á framfæri hvað
hulan er og segja baksögu mæðgn-
anna en gert það á mjög hnitmiðaðan
hátt í takt við söguna. Maður á að
geta lesið bækurnar í hvaða röð sem
er.“
Hliðstæður íslenskur veruleiki
– Þó maður viti á hvaða tíma Víg-
hólar og Sólhvörf gerast þá eru þær
mjög tímalausar, en Nornasveimur
er með meiri skírskotun til nú-
tímans, til að mynda atriði sem
tengjast fíkniefnum og samfélags-
miðlum.
„Bækurnar gerast í hliðstæðum
íslenskum veruleika, þetta eru
glæpafantasíur/borgarfantasíur fyr-
ir eldri lesendur sem gerast í ís-
lenskum veruleika. Brá er tuttugu
ára og er náttúrlega á samfélags-
miðlum og spilar tölvuleiki og það
kemur inn í söguna og í gegnum per-
sónu Brár.
Hvað fíkniefnin varðar þá er þetta
glæpasögubókaröð og það getur ekki
alltaf verið bara morð. Það voru morð
í Víghólum, en í Sólhvörfum var líka
barnarán. Í Nornasveimi er morð,
bókin byrjar með morðrannsókn –
norn er myrt í afskekktu þorpi í Tré-
kyllisvík og það liggja allir undir
grun, en svo kemur í ljós að það er
meira sem tengist fíkniefnum, en á
yfirnáttúrlegan hátt. Ég er að blanda
saman yfirnáttúru og fíkniefnaheim-
inum. Ég leik mér með stef og minni
úr norrænu glæpasögunni og saka-
málasögum yfirleitt.“
Emil býr erlendis, en var staddur
hér á landi til að kynna bókina, en
líka til að rannsaka sögusvið næstu
bókar. „Ég bý í Lundi í Svíþjóð og les
mér til eins og ég get og þetta var
auðveldara til dæmis í Víghólum, þar
var sögusviðið aðallega þjóðvegurinn.
Í fyrra varð ég að fara og skoða sögu-
sviðið, var á jeppa að vetri til og það
var snjór. Ég er lofthræddur að eðl-
isfari en komst yfir lofthræðsluna af
eldmóðnum yfir því að vera þarna
norður á Ströndum. Núna var ég á
Vesturlandi, á Fellsströnd, að rann-
saka fyrir næstu bók.“
Glímt við yfirnáttúrlegar ógnir
Í bókaröð Emils Hjörvars Petersens glíma mæðgur við óhugnanlega glæpi Þriðja bókin komin
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Yfirnáttúra Emil Hjörvar Petersen skrifar glæpafantasíur/borgarfantasíur fyrir eldri lesendur sem gerast í hliðstæðum íslenskum veruleika.