Morgunblaðið - 08.03.2019, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 08.03.2019, Blaðsíða 27
MINNINGAR 27 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 8. MARS 2019 vel þjálfaður heimilislæknir sem stundaði starf sitt af miklum heil- indum og metnaði. Hann hafði sterka réttlætiskennd, hafði ákveðnar skoðanir á málefnum af ýmsum toga, skoðanir sem yfir- leitt voru vel ígrundaðar og ekki auðvelt að hrekja með minna ígrunduðum rökum. Hann var mikill gæfumaður sem hlotnaðist einstakur lífsförunautur, fjórir vænir synir og tengdadætur og barnabörn sem voru yndi afans. Skákin við krabbann tók mörg ár, skák sem speglaði mannkost- ina, hugrekki, baráttuþrek, ein- urð, æðruleysi, allt fram í enda- taflið. Ég syrgi frænda og náinn vin, en kveð með þakklæti Jón Steinar Jónsson. Gunni frændi hefur kvatt okkur allt of snemma. Með sitt rólega yf- irbragð og óendanlega hlýju og góðmennsku er hann einhver besta manneskja sem ég hef kynnst. Mér fannst veröldin og til- veran öll verða fátækari við fráfall hans. Ég vissi að ég væri að kveðja hann í síðasta sinn þegar ég kyssti hann á ennið tæpum tveimur sól- arhringum áður en hann lagði í sína hinstu för. Hann gerði sér grein fyrir í hvað stefndi og tók hlutskipti sínu af æðruleysi. Styrkur, samheldni og endalaus ást þeirra Helgu og Gunna var einstök. Gunni reyndist mér mikill ör- lagavaldur. Ég veiktist alvarlega þegar ég var sautján ára. Á ör- skotsstundu gat ég mig varla hreyft fyrir verkjum og reyndist vera með fimm brjósklos í lend- hryggnum. Ég gekk á verkjalyfj- um, gat ekki setið í ein þrjú ár og velktist um í heilbrigðiskerfinu milli sérfræðilækna. Niðurstaðan varð sú að það átti að spengja all- an hrygginn á mér. En Gunni hélt nú ekki! Þessi rólegi og yfirvegaði frændi minn var staðfastur í því að það væri ekki rétta lausnin. Þetta hratt af stað atburðarás sem færði mig síðar í stóra bakaðgerð í Lundúnum þar sem ég slapp við spengingu og náði síðar fullri heilsu. Líf mitt breyttist frá því að vera 75% öryrki í að vakna hvern morgun verkjalaus og ég ákvað að nýta mér þessa nýju tilveru sem við mér blasti. Ég fetaði í fótspor Gunna og fór í læknisfræði. Hann var fyrirmynd mín. Ég lauk læknanámi, sérnámi í lyf- og hjartalækningum og loks doktors- prófi í læknisfræði. Við hvern áfanga hugsaði ég til hans með þakklæti. Ég er þess fullviss að líf mitt væri ekki samt ef heimilis- læknirinn Gunnsteinn Stefánsson hefði ekki haldið hlífiskildi yfir mér. Eftir að við urðum kollegar breyttist innihald samræðna okk- ar oft yfir í fagleg mál og ég naut þess að sjá hve vel hann var að sér. Ég hætti að vera krakkinn og við urðum jafningjar. Hann hafði gaman af að segja frá og nú síðast sagði hann mér frá upplifun sinni af Capri, en við fjölskyldan höfð- um farið þangað sl. sumar. Hann tókst á flug í frásögninni og það var ekki að sjá að hann léti neinn bilbug á sér finna þrátt fyrir að vera að berjast við verki og lyst- arleysi. Andi hans var mun sterk- ari en krabbameinið sem varð banamein hans. Lífsgleði, ást, bar- áttuhugur og jákvæðni er það sem hann skilur eftir sig og líf okkar, sem bárum þá gæfu að vera sam- ferðamenn hans, eru ríkari fyrir vikið. Fjölskyldunni allri vil ég votta mína dýpstu og innilegustu samúð. Inga Jóna Ingimarsdóttir. Haustið 1968 hóf stór hópur stúdenta nám við læknadeild Há- skóla Íslands. Utan úr heimi bár- ust fréttir af stúdentaóeirðum um alla Evrópu. Menn reistu götuvígi og slógust við lögreglu í París og Berlín. En læknanemar á fyrsta ári höfðu engan tíma til að hugsa um byltingu eða námsmanna- hreyfingar. Þeir sátu yfir bókum og lærðu vefjafræði og efnafræði utan að. Að vori var prófað og margir heltust úr lestinni en sam- hentur hópur komst yfir allar hindranir og útskrifaðist árið 1975. Námsárin þjöppuðu hópn- um saman á lesstofum, kúrsusum og vinnu á sjúkrahúsunum og vinabönd mynduðust sem aldrei hafa rofnað. Einn í þessum hópi var Gunn- steinn Stefánsson. Hann var stúd- ent að norðan og mér fannst eins og hann stigi alskapaður út úr Ís- lendingasögum. Minnti mig oft á lýsingu Gríms Thomsen á Hall- dóri Snorrasyni; „æðrulaus og jafnhugaður, stríðlundaður og fá- talaður“. Gunnsteinn var hægur og rólegur í allri framgöngu, ágætur námsmaður og húmorinn var aldrei langt undan. Þessi skaphöfn var styrkleiki Gunn- steins og einkenndi hann alla tíð sem lækni og manneskju. Í lang- vinnri baráttu við illvígan krabba komu styrkleikar hans vel í ljós. Útskriftarhópurinn fór til Ítalíu á liðnu hausti. Gunnsteinn og Helga kona hans komu með þrátt fyrir alvarleg veikindi hans. Allt var sem fyrr. Gunnsteinn bar sig vel og ræddi lífið og tilveruna með bros á vör. Engan gat grunað hversu skammt hann ætti eftir ólifað. Í ferðalok hélt hann ræðu og kvaddi hópinn af sama æðru- leysi og einkenndi allt hans líf. Hann þakkaði samfylgdina og sagðist ekki koma með okkur í næstu ferð. Við skynjuðum öll ná- lægð dauðans og fylltumst þakk- læti fyrir þessar samverustundir. Við Jóhanna vottum Helgu og öðr- um ástvinum hans samúð. Óttar Guðmundsson. Fallinn er æskuvinur og koll- ega Gunnsteinn Stefánsson. Við fylgdumst að; í landsprófi á Eið- um, herbergisfélagar í MA, í síma- vinnu, í læknadeild, í Svíþjóð og vorum samherjar á Egilsstöðum í sex ár. Helgurnar okkar urðu perluvinkonur. Gunnsteinn var hæglátur maður og hlédrægur, greindur vel, stálminnugur og fjölhæfur en erfið félagsfælni framan af ævi torveldaði honum að njóta hæfileika sinna til fulls. Út á við bar ekki á þessu og í góðra vina hópi gat Gunnsteinn verið hrókur alls fagnaðar, mikill sögumaður og húmoristi. Það gleymist engum í gönguhópnum Förusveinum þegar Gunnsteinn gerði upp í lokahófi hópsins í Norðurfirði frumraun sína í þeirri óvissu- og háskaför sem Stranda- ganga með allt á bakinu getur ver- ið. Allir grétu af hlátri og sögu- maður mátti vart mæla vegna þeirra kómísku mynda sem hann var í þann veginn að draga upp. Honum var ætíð létt að koma auga á hinar spaugilegu hliðar tilver- unnar í fari sjálfs sín og samferða- manna. Gunnsteinn naut þess alla ævi að aka bíl og varð slyngur í þeirri íþrótt að komast áfram í snjó og ófærð sem kom sér vel í dymbilviku 1971 þegar við brut- umst til Vopnafjarðar með Bronkó-jeppa til Skúla mágs hans. Gunnsteinn var farsæll, fjöl- fróður, glöggur og vel liðinn heim- ilislæknir. Traust hjálparhella sinna sjúklinga. Í lok níunda ára- tugar síðustu aldar, þegar heim- ilislæknar risu upp gegn ösku- buskuhlutskipti sínu innan heilbrigðiskerfisins og LÍ, steig Gunnsteinn fram. Réttlætiskennd hans var misboðið. Hann skrifaði meitlaðar greinar í blöð og sat þrautseigastur allra við samninga- borðið, lét hvorki laust né fast fyrr en réttlætinu var náð, að allir læknar sætu kjaralega við sama borð. Það var honum því kærkom- in viðurkenning síðastliðið haust þegar Félag íslenskra heimilis- lækna gerði hann að heiðursfélaga fyrir þessa baráttu. Þegar þarna var komið var krabbamein það sem hann barðist við á annan ára- tug farið að þrengja verulega að. Það aftraði honum þó ekki að verða samferða árgangi sínum úr læknadeild í Ítalíuferð í haust þar sem hann kvaddi hópinn eftir- minnanlega. Þrautseigja er dyggð. Við sem urðum þess aðnjótandi að þekkja Gunnstein vel minn- umst hans sem góðs drengs og trausts vinar. Gæfa Gunnsteins var að kynnast sinni einstöku eig- inkonu, Helgu Snæbjörnsdóttur, sem við Helga Jóna vottum okkar dýpstu samúð sem og sonum þeirra og fjölskyldu allri. Stefán Þórarinsson. Gamall skólafélagi og starfs- bróðir er látinn úr óvægnum sjúk- dómi rétt rúmlega sjötugur, eng- inn aldur nú á dögum. Dauðinn er hins vegar stundvís þegar sá gáll- inn er á honum, en hér var við hon- um búist, því miður. Gunnsteini kynntumst við skólafélagar hans fyrir rúmum 50 árum við upphaf náms í lækna- deild. Hann var einhvers konar táknmynd tiltekinnar íslenskrar arfleifðar, hæglátur og hógvær, seintekinn, traustur, æðrulaus. Þó að hann væri fremur fámáll, og færi ekki með fleipur eins og sum- um er títt, var ekki óskynsamlegt að leggja við hlustir þegar hann lagði orð í belg. Hann hafði ríka réttlætiskennd og gat staðið fast- ur fyrir ef á móti blés, setti báða hæla í jörð. Hann var manna skemmtilegastur, hafði lúmskan húmor. Hann sagði sögur af skrítnu fólki. Þær risu stundum í hæstu hæðir þegar hann sagði þær á síðkvöldum í gönguferðum þess góða hóps Förusveina sem við höfum haft þann heiður að vera í. Sögurnar urðu stundum langar, lengri og viðburðaríkari en ætlað var, og tafirnar ekki síst út af hláturrokum sögumanns og áheyrenda. Svona var Gunn- steinn. Við sem lukum námi í lækna- deild árið 1975 höfum undanfarna áratugi farið saman til ýmissa landa Evrópu, nú síðustu árin á tveggja ára fresti. Síðastliðið haust fórum við til Ítalíu. Við tveir áttum ásamt konum okkar, Helgu Snæ og Siggu Snæ, eftirminnilega stund á spænsku tröppunum í Róm, og síðan á veitingastað í hlið- argötu skammt frá. Þá var Gunn- steinn orðinn veikur, og kvaddi okkur skólafélaga sína reyndar í þessari ferð á þann veg sem við munum seint gleyma. En þarna á spænsku tröppunum gátum við krufið málin, við töluðum náttúr- lega um lífið, talsvert um dauðann, og um það sem hæst bæri í lífi hvers manns. Þarna kom vel fram skynsemi Gunnsteins og æðru- leysi. Hann var kannski ekki tilbú- inn, hann vildi lengri jarðvist eins og við flest á þessum aldri, en und- irbúinn var hann. Við Sigga viljum votta Helgu, sonum þeirra Gunnsteins fjórum og fjölskyldum þeirra dýpstu sam- úð. Ég leyfi mér líka að votta þeim hluttekningu fyrir hönd okkar allra sem brautskráðust úr lækna- deild árið 1975. Við sjáum á eftir góðum dreng, missir okkar er mikill, en missir þeirra Helgu er meiri. Sigurður Guðmundsson. Klettur. Járnkarl. Stoð og stytta. Þessi orð koma upp í hug- ann þegar maður minnist Gunn- steins Stefánssonar. Hann starf- aði með okkur á heilsugæslunni í Hafnarfirði í tvo áratugi og strax og hann tók til starfa bundumst við miklum og sterkum vinabönd- um. Gunnsteinn var afar farsæll læknir og geysilega vel að sér fag- lega. Það var ekki ónýtt að leita til hans þegar flókin sjúkdómsein- kenni voru úrlausnarefni. Hann reyndist skjólstæðingum sínum afar vel og aldrei bar skugga á samstarf okkar. Traustur og heill í öllu sem hann tók sér fyrir hend- ur. Gunnsteinn hafði einstaka frá- sagnargáfu og oft var setið lengi eftir vinnu og farið yfir sögur úr héraði. Leiftrandi lýsingar á oft óhemjuerfiðum viðfangsefnum læknis í héraði voru dregnar fram og var hrein unun á að hlýða. Hann hafði yfir óvenjufjölbreytt- um orðaforða að búa og skemmti- legar myndlíkingar, stundum blandaðar sænsku, lýstu upp þá atburði sem til umræðu voru. Gunnsteinn var mikill baráttu- maður fyrir réttindum heimilis- lækna og í raun aðalhugsuður þeirrar baráttu lengst af, enda kunni hann sögu kjarabaráttunn- ar öllum betur. Ekki var verra að eiga hann að ef til rökræðna kom því rökfastari og betri málsvara höfum við ekki átt. Þeim var vor- kunn sem lögðu út í það fen að ætla að rökræða eða snúa Gunn- steini. „Þá tala ég bara við þá með tveimur hrútshornum,“ sagði hann stundum þegar undirbún- ingur fyrir aðgerðir stóðu fyrir dyrum. Gunnsteinn var mikill gæfumaður í sínu einkalífi. Fjöl- skyldan var honum allt og hann var eðlilega afar stoltur af drengj- unum sínum sem allir fjórir eru hörkuduglegir og vel menntaðir verkfræðingar. Fyrir um 15 árum greindist Gunnsteinn með krabbamein. Allan tímann síðan hefur hann unnið hverja orr- ustuna á fætur annarri í barátt- unni við þessa meinsemd. Klett- urinn stóð allt af sér. Nú síðustu mánuðina versnuðu veikindin hins vegar verulega og ljóst var í hvað stefndi. Við áttum góða stund nýlega þegar við heimsótt- um hann á spítalann, mikið spjall- að og hlegið og gamlir atburðir rifjaðir upp. Síðustu vikurnar hafa verið ansi þungar og Helga hefur hjúkrað honum af einstakri natni og dugnaði. Við kveðjum í dag traustan og góðan vin og vottum Helgu, drengjunum og fjölskyldu allri okkar samúð. Emil Lárus Sigurðsson, Haukur Heiðar Ingólfsson, Stefanía M. Sigurðardóttir. Í dag kveðjum við Gunnstein, vin okkar og göngufélaga í Föru- sveinum. Gunnsteinn var Fellamaður og ólst upp á bænum Bót í Fellum en síðan á Egilsstöðum og taldi sig alla tíð vera dálítinn sveitamann innst í hjarta. Hann var gæfumað- ur í einkalífi, mikill fjölskyldu- maður enda eignaðist hann ein- staklega góða konu, hana Helgu, og stóran barnahóp. Gunnsteinn var traustur og góður maður og bjó yfir yfirgripsmikilli þekkingu á sínu fagi, sem hann sinnti af mikilli samviskusemi meðan heilsan leyfði. Heimabyggð hans á Héraði naut starfskrafta hans lengi eftir að hann kom heim frá sérnámi. Síðan fluttu þau Helga suður með fjölskylduna og settust að í Hafnarfirði, á heimaslóðum Helgu. Gunnsteinn og Helga hafa ferðast með gönguhópi okkar, Förusveinum, um fjöll og firnindi á hverju sumri í fjölmörg ár, oft- ast á Íslandi en stundum líka er- lendis. Á ferðum okkar höfum við heimsótt ýmsar helstu náttúru- perlur Íslands og notið saman náttúrufegurðar og útiveru. Glatt hefur alltaf verið yfir þessum ferðalögum og í þeim kynntumst við nýjum hliðum á Gunnsteini eins og öðrum. Í einni af fyrstu ferðum hans opnaði hann sýn okkar inn í hugarheim uppruna síns og sagði með glimt í auga að það væri nú nýtt fyrir sér og öðr- um sveitamönnum að ganga á fjöll án þess að eiga erindi! Hann lét sig samt hafa það og hafði af mikla ánægju. Síðustu fjallgöng- una fór hann með okkur í júlí í sumar á Helgafell við Kaldársel, sem hann var vanur að kalla bæjarfellið sitt. Við Förusveinar kveðjum með söknuði góðan vin og félaga og vottum Helgu og fjölskyldunni samúð okkar allra. Björn Már Ólafsson, Sigríður Ólafsdóttir. Ég kynntist Gunnsteini þegar við hófum nám í læknadeildinni árið 1968. Á þessum árum sátu menn löngum stundum á lesstof- um, oft fram á kvöld en tóku af og til hlé frá lestrinum, spjölluðu yfir kaffibolla og söfnuðu kröftum til að halda áfram og búa sig undir næstu prófraunir. Þá var líka oft sest að tafli. Við Gunnsteinn höfð- um gaman af því að tefla, oftast hraðskákir. Að mínu mati var Gunnsteinn fremstur okkar félag- anna í þeirri íþrótt. Svo liðu árin. Eftir að við höfðum farið til framhaldsnáms, hann í heimilis- lækningum og ég í hjartalækning- um áttum við mjög gott samstarf um þjónustu við sjúklinga. Mér var ljóst af þeirri samvinnu, sem ég vissi raunar fyrir, hversu vel hann var að sér í fræðunum og glöggur á að finna lausnir. Enda báru sjúklingarnir mikið traust til hans. Oft kom til tals að byrja aft- ur að tefla, þegar hægjast færi um. Því miður vannst ekki tími til þess. Hann tefldi þó mikið á net- inu og hafði gaman af því að segja mér frá því að mótherjar hans víðs vegar að héldu því fram að hann hlyti að hafa fleiri skákstig en upp voru gefin. Á síðari árum vorum við félagar ásamt eiginkonum í gönguhópn- um Förusveinum, sem stundaði gönguferðir víðs vegar um Ísland en einnig í fjarlægum löndum. Oft vorum við í þessum ferðum mjög samstíga og áttum löng samtöl um lækningar en líka um þjóðfélags- mál af ýmsu tagi og trúarbrögð, sem hann hafði kynnt sér í þaula á seinni árum. Mátti margt af hon- um læra í þeim efnum. Með árunum leyfði hann fé- lögum sínum að njóta kímnigáfu, sem hann hafði helst til lengi farið óþarflega vel með. Á ferðalögum þótti orðið ómissandi að Gunn- steinn tæki míkrafóninn, enda var það trygging fyrir því að fólk tæki að veltast um af hlátri. En allt hefur sinn tíma og eitt sinn skal hver deyja. Eftir langa og harða baráttu voru ekki fleiri leikir í stöðunni. Góðs vinar og kollega er sárt saknað. Helga og Gunnsteinn voru mjög samhent hjón og hún stóð eins og klettur með honum til hinstu stundar. Að leiðarlokum sendum við Sólveig henni, börnum þeirra og öðrum aðstandendum innilegar samúðar- kveðjur. Gestur Þorgeirsson. Himnarnir grétu daginn sem heiðursmaðurinn Gunnsteinn Stefánsson lést, hinn 1. mars síð- astliðinn. Það var við hæfi. Ein- stakur maður er fallinn frá. Missir okkar er mikill og engin orð fá lin- að missi Helgu og fjölskyldunnar. Ég var svo lánsöm að vinna með Gunnsteini til fjölda ára. Úr varð traust vinátta. Við sem urðum þess aðnjótandi að vinna með Gunnsteini þökkum fyrir sam- fylgdina, vinskapinn, öll samtölin og góðu og dyggu ráðin. Gunn- steinn var alltaf eins og klettur í ólgusjó lífsins, íhugull, staðfastur og háttvís, með skýra sýn á menn og málefni. Hann sinnti sjúklingum sínum af mikilli natni og umhyggju og faglegri færni, sem og var raunin með allt sem Gunnsteinn tók sér fyrir hendur. Hann upplifði miklar sam- félagsbreytingar á lífstíð sinni, sveitastrákurinn að austan sem varð sérfræðingur í heimilislækn- ingum. Gunnsteinn var heimilis- læknir af guðs náð, heilsugæslan var honum hjartfólgin og hann var ótrauður baráttumaður fyrir efl- ingu og uppbyggingu heilsugæsl- unnar og tók virkan þátt í að móta stefnu heilsugæslu í landinu. Hann var gerður að heiðursfélaga í Félagi íslenskra heimilislækna síðastliðið ár. Starfssaga hans er merkileg en aðrir segja þá sögu betur. Gunnsteinn var mikil fjöl- skyldumaður, áhugasamur um sögu, útivist, skák og gamla bíla, svo fátt eitt sé nefnt. Þau Helga voru einstaklega samstíg hjón og þreyttist Gunnsteinn aldrei á að hæla Helgu sinni. Þeim hjónum auðnaðist að eignast fjóra syni og á seinustu árum bættust mörg barnabörn í fjölskylduna og þá fengu Gunnsteinn og hans yndis- lega Helga ný hlutverk, afa og ömmu, ríkidæmi sem færði þeim mikla gleði og þau sinntu af óskiptri umhyggju og ástúð. Með þakklæti og söknuði kveðj- um við Gunnstein, um leið og við vottum ástvinum hans og ættingj- um okkar dýpstu samúð, blessuð sé minning þessa einstaka manns. Fyrir hönd starfsfólks Heilsu- gæslunnar í Firði, Guðrún Gunnarsdóttir. Það er óbærileg tilhugsun að hún Sigurbjörg, hjart- ans vinkona mín og yndisleg mágkona, skuli ekki stika fögur, einbeitt og glæsileg leiðar sinnar lengur um götur Vesturbæjar. Hvort heldur á leið í skólann, sinn kæra vinnustað, eða bara út í búð. Það er óbærilegur missir að hjartans Sigurbjörgu minni. Sigurbjörgu okkar. Við sem eftir sitjum skiljum ekki hvernig tak- ast skuli á við þann missi. Hvílík gæfa það var okkur fjölskyldunni allri og ómæld gleði að fá að njóta samvista við þvílíka konu. Hún var úr Kjós- inni. Best klædda stórborgar- konan. Hún gaf okkur hlutdeild í sinni glæsilegu tilveru þar sem bókmenntir, leikhús, menntamál og pólitík voru henni svo hug- leikin – og hún deildi skoðunum sínum á þeim hugðarefnum óeigingjarnt. Á sinn einstaka máta. Sjaldan eða aldrei hef ég séð börnin mín sækjast jafnstíft eftir að sitja undir umræðu um slík mál og með jafnmikilli gleði og hrifningu og þegar Sigur- Sigurbjörg Einarsdóttir ✝ SigurbjörgEinarsdóttir fæddist 17. febrúar 1960. Hún lést 15. febrúar 2019. Útför Sigur- bjargar fór fram 26. febrúar 2019. björg tjáði skoðanir sínar á sinn bein- skeytta og hrífandi hátt. Henni var hverja stund umhugað um velferð fólksins í kringum sig. Barnanna okkar. Lá yfir misvel skrif- uðum ritgerðum, greiddi götu okkar í öllum skilningi, var til staðar, gætti barnanna okkar, var óþreytandi við að aðstoða okkur hin við tilveruna sem við náðum iðulega að flækja að óþörfu. Það fólst í því að vera sú manneskja sem hún var. Stór manneskja. Svo skemmtileg. Alltaf gefandi. Með tilveru sinni einni saman kenndi hún okkur hinum svo ótal margt. Þakklætið er alltumvefjandi. Hún var fyrir- mynd. Sannur vinur. Dásamleg móðir. Okkar stoð og stytta, og félagi í blíðu sem stríðu. Minn- ingin um þig varir svo blíð og góð. Þegar morgnar koma geislar Þú ert ekki draumur Þegar morgnar koma geislar (Stefán Hörður Grímsson) Margrét Kristín Blöndal (Magga Stína) og Elsa María Blöndal.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.