Morgunblaðið - 14.05.2019, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 14.05.2019, Blaðsíða 20
20 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. MAÍ 2019 þinna verði seint ef einhvern tíma fyllt. Ég sakna þess svo mikið að hafa þig á kantinum. Farðu í friði vinur minn kær faðirinn mun þig geyma. Um aldur og ævi þú verður mér nær aldrei ég skal þér gleyma. (Bubbi Morthens) Þín vinkona, Kristjana. Elsku Inga okkar. Mikið duttum við í lukkupott- inn þegar þú komst í bekkinn okk- ar og við fengum tækifæri til að kynnast þér og eiga þig að sem vinkonu. Vinskapurinn hefur var- að alla tíð og minningarnar orðnar ansi margar. Síðustu ár höfum við vinkvennahópurinn, Sveinsínur, brallað ýmislegt saman. Árlegir bústaðahittingar með tilheyrandi gleði standa upp úr ásamt öllum afmælisveislunum, grillfjöri, úti- legum og utanlandsferð. Á þessari stundu er dýrmætt að eiga minn- inguna um bústaðaferðina okkar í janúar síðastliðnum. Þar áttum við Sveinsínur saman góða helgi og yndislegt að fá að hafa þig með eftir erfið veikindi haustsins. Þá datt okkur ekki í hug að kveðju- stundin kæmi svona fljótt. Við vottum fjölskyldu þinni innilega samúð okkar. Hvíl þú í friði, elsku vinkona, við söknum þín sárt. Margrét Kristinsdóttir og Ósk Unnarsdóttir. Hún var stórstíg og stikaði áfram af mikilli röggsemi. Ég átti stundum fullt í fangi með að halda í við hana, enda enginn venjulegur kvenmaður þar á ferð sem rauð- hærða glímudrottningin fór. Hún var hnarreist og rösk eins og hún átti kyn til. Brúnastaðagenin komu vel fram í hreystimenninu Ingveldi vinkonu minni og sam- starfskonu. Það var vaðið í verkið vafningalaust, án alls vols eða væls. Þannig var Ingveldur í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur, hún þoldi ekkert óþarfa vesen. Og lét það í ljós. Hún talaði ævinlega mjög skýrt, engin velktist í vafa um hvað hún meinti. Ef henni fannst ástæða til þá gat hún slegið sporðdrekahalanum eldsnöggt og stungið fast. Sá sem fyrir varð hætti umsvifalaust að malda í móinn. Hégómi var henni víðs- fjarri, Ingveldur vissi vel hvað skipti máli í lífinu. Hún var sveita- stelpa, í hjarta sínu bóndi sem lét sig stundum dreyma um að reka kúabú. En hún var líka margar aðrar manneskjur, margslungin. Takk, Ingveldur, fyrir sprúðl- andi skemmtilegar spjallstundir um kynlíf, karlmenn, ástina, hesta, kýr, kindur, fóður, hófa, klaufir, júgur, ull, smalamennsku, pólitík, jöfnuð, réttlæti og lífs- þorsta. Takk fyrir hreinskiptnina og hlýjuna. Og hláturinn. Samúðarkveðjur sendi ég öllum þeim sem næst þér stóðu, Kidda, börnunum, foreldrum og systkin- um. Sem og öllum hinum sem sjá á eftir þér með söknuð í hjarta. Kristín Heiða Kristinsdóttir. Við gleymum aldrei fyrstu kynnum okkar af Ingveldi. Tignarleg og yfirveguð gekk hún inn í fyrstu kennslustundina þeg- ar áhugasamur hópur hóf nýtt meistaranám í blaða- og frétta- mennsku. Ingveldur hafði sterka og góða nærveru og okkur varð strax ljóst að þarna fór heilsteypt og jarðbundin kona. Já, Ingveldur fór ekki framhjá neinum. Námið var skemmtilegur tími þar sem við stigum okkar fyrstu skref í framandi starfsumhverfi, með ómetanlegan stuðning hver frá annarri. Þar gegndi Ingveldur stóru hlutverki. Bakgrunnur okk- ar var ólíkur og umræður oft skrautlegar og það er erfitt að ímynda sér þær án Ingveldar og hennar innleggs. Hún var hrein og bein, hafði sterkar skoðanir sem hún byggði á rökum og reynslu og kom alltaf til dyranna eins og hún var klædd, þóttist aldrei vera nein önnur en hún var. Ingveldur talaði aldrei í kringum hlutina, heldur sagði þá eins og þeir voru og skipti ekki um skoðun til að þóknast öðr- um. Hún var góður hlustandi, en stóð á sínu. Í Ingveldi sáum við frábæra fyrirmynd og erum sannfærðar um að það yrði minna um mis- skilning í þessu lífi ef fólk gæti tekið hreinskiptni hennar til fyrir- myndar og bæði sagt hlutina hreint út og tekið hreinskilni ann- arra vel. Þrátt fyrir að hafa aflað okkur nýrrar færni í náminu er vináttan með því dýrmætasta sem við eign- uðumst. Þessi hópur býr yfir djúpri tengingu og okkur þykir einstaklega vænt um að hafa glaðst með Ingveldi í fertugs- afmæli hennar fyrir stuttu þegar hún lýsti þakklæti sínu fyrir að fá að fagna áfanganum í hópi góðra vina. Við vorum svo stoltar af henni og enginn gat séð fyrir að óveðursskýin myndu enn á ný hrannast upp. Í gegnum veikindin hélt Ingveldur reisn þótt fallega einkennismerkið hennar, rauða hárið, færi og kæmi. Hún hélt líka heiðarleikanum, staðfestunni og einstöku hugrekki. Hún kenndi okkur svo margt og á meðan hún tókst á við sitt stóra og ósann- gjarna verkefni þjappaði hópurinn sér enn frekar saman undir sterkri áminningu um mikilvægi vináttunnar og þess að njóta hvers dags. Því þannig var Ingveldur; æðrulaus og meðvituð um að kannski færu hlutirnir ekki eins og við öll hefðum kosið, en gleymdi þó aldrei að taka lífinu fagnandi. Stór og fallegur per- sónuleiki hennar naut sín og gerir það áfram í hjörtum okkar. Þakklæti fyrir að fá að vera samferða Ingveldi í 15 ár er djúpt. Við erum ríkari að hafa fengið að kynnast henni og munum ávallt minnast hennar þegar við komum saman; brosandi, því þannig hefði hún viljað hafa það. Fjölskyldu kærrar vinkonu sendum við dýpstu samúðar- kveðjur. Hrund, Guðrún, Ásrún, Guðbjörg, Lella, Vala, Margrét og Berglind. Þótt tími Ingveldar á frétta- stofu Stöðvar 2 hafi ekki verið langur, á árunum 2012-2013, er hann eftirminnilegur. Ingveldur var ekki bara fær og kraftmikill fréttamaður heldur einstaklega ljúf og notaleg samstarfskona sem öðlaðist strax virðingu okkar og vináttu. Ingveldur hikaði aldr- ei, heldur henti sér í verkefnin, hversu krefjandi sem þau voru, vopnuð skörpum huga og ein- beittum vilja til að gera vel. Hún var jarðbundinn orkubolti sem kallaði hlutina sínum réttum nöfnum og lét rödd sína heyrast en Ingveldur var líka hrein og bein, réttsýn, hláturmild og skemmtileg. Við þökkum Ingveldi fyrir samfylgdina og minnumst hennar með söknuði og hlýju. Aðstand- endum sendum við dýpstu sam- úðarkveðjur. Fyrir hönd starfsfólks frétta- stofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgj- unnar, Hrund Þórsdóttir. Það er ekki hægt að leyfa sér að vera mjög væminn í skrifum um Ingveldi því henni hefði mis- líkað það. Það má gleyma sér í reiði yfir óréttlátum örlögum ungrar konu. Það er þó líkast til betra til framtíðar, og meira í anda Ingveldar, að vera þakklát- ur fyrir vinskap góðrar konu. Konu sem mörgum þótti vænt um, þar á meðal okkur. Ingveldur var jarðbundin sveitastelpa, töffari sem lét fátt stoppa sig, traust fjölskyldukona og skarpskyggn blaðamaður. Hún var góð samstarfskona og vinur, skemmtileg og fyndin, klár og réttsýn baráttukona. Það gustaði af Ingveldi. Hún hávaxin og glæsileg með sitt rauða hár og var meðal sam- starfsmanna á menningardeild Morgunblaðsins oft líkt við aðra gyðju, Florence Welch úr Flor- ence and the Machine. Við vinkonurnar stofnuðum kokkteilklúbbinn Birting, eins og glöggir sjá að er byggt á nöfnum okkar. Nú vantar eina Ingu og fundir félagsins verða ekki samir. Það var dýrmæt stund sem við nokkrar vinkonur sem tengdar eru í gegnum Morgunblaðið fyrr og nú áttum á heimili einnar okk- ar í haust yfir mat, drykk og um- fram allt góðu og innihaldsríku spjalli. Þá leyfði maður sér að vona. Ingveldur var komin á fæt- ur og studdist við hækju. Staðin upp úr hjólastólnum og lét engan bilbug á sér finna. Samt fór það þannig að næsta skipti sem við hittumst var á krabbameinsdeild Landspítalans. Miskunnarleysið er algjört. Styrkur Ingveldar og Kidda í þessum andstyggilegu veikindum var aðdáunarverður. Þau voru greinilega heppin með hvort annað, jarðbundin, æðru- laus og hreinskiptin andspænis meininu sem enginn vill mæta. Missir alls fólksins hennar Ingveldar er mikill. Við færum Kidda, Ásgeiri Skarphéðni, Sigurjóni Þór, Krist- ínu Þórunni, Gerði Freyju, for- eldrum og systkinum Ingveldar okkar hjartanlegustu samúðar- kveðjur. „Svona er lífið og bara um að gera að njóta þess.“ Þetta skrifaði Ingveldur í sínum síðustu skila- boðum til okkar þegar hún til- kynnti okkur að meinið hefði aft- ur tekið sér bólfestu. Við reynum að gera okkar besta til að hafa þessi orð vinkonu okkar í huga á hverjum degi, því Ingveldi gleym- um við aldrei. Minning okkar um Ingveldi er sterk, hlý og góð. Al- veg eins og Ingveldur sjálf. Birta Björnsdóttir og Inga Rún Sigurðardóttir. Kveðja frá Blaðamannafélagi Íslands Það er þyngra en tárum taki þegar ungt fólk á besta aldri fell- ur frá eftir baráttu við erfið veik- indi, að ekki sé talað um þegar það skilur eftir sig ung börn. Lífið getur á stundum verið svo ótrú- lega erfitt og ósanngjarnt. Því kynnumst við blaðamenn sannar- lega oft í gegnum starf okkar, en það er þó með öðrum hætti en þegar vinur manns og félagi á í hlut. Ingveldi kynntist ég fyrst á Morgunblaðinu þegar hún hóf þar störf um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar. Þá strax bauð hún af sér mjög góðan þokka og mað- ur sá það fljótt að þar hafði blaða- mennskunni bæst góður liðsauki. Kynni okkar urðu þó ekki löng það sinnið, þar sem viðvera mín á Morgunblaðinu varð styttri en ég hafði ætlað mér. Ég kynntist henni þeim mun betur eftir að hún kom inn í stjórn Blaðamannafélags Íslands 2015, fyrst í varastjórn, síðan í aðal- stjórn og framkvæmdastjórn fé- lagsins er hún varð ritari stjórn- ar. Í öllum störfum sínum fyrir félagið sýndi hún skapfestu og hreinlyndi svo eftir var tekið. Það var þó í baráttunni við veikindi sín, sem hún sýndi best hvern mann hún hafði að geyma. Það er ekki sjálfgefið að berjast við erfið veikindi af svo miklu æðruleysi og jafnaðargeði sem hún gerði. Þar sýndi hún og sannaði úr hverju hún var gerð. Þungbær örlög sannarlega, en „orðstír deyr aldr- egi hveim er sér góðan getur“. Guð styrki eiginmann, börn og fjölskyldu Ingveldar á þessum erfiðu tímum. Hjálmar Jónsson. Við minnumst Ingveldar, ein- stakrar konu, með kærleika og þakklæti. Ingveldur hlaut hvatn- ingarverðlaun Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna árið 2015 fyr- ir að afhjúpa líkama sinn eftir að hún undirgekkst brjóstnám vegna brjóstakrabbameins á for- síðu Sunnudagsblaðs Morgun- blaðsins, en hún var þá þunguð að dóttur þeirra hjóna sem nú er fjögurra ára. Hún sat í stjórn samtakanna í eitt ár og vann ötul- lega að málefnum kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein og þökkum við henni fyrir góða samveru og vel unnin störf. Um undra-geim, í himinveldi háu, nú hverfur sól og kveður jarðarglaum; á fegra landi gróa blómin bláu í bjartri dögg við lífsins helgan straum. (Benedikt Gröndal) Við sendum fjölskyldu og ást- vinum Ingveldar okkar innileg- ustu samúðarkveðjur. Fyrir hönd Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna, Brynja Björk Gunnarsdóttir. Morgunblaðið/Ómar Bókagagnrýnandinn Ingveldur var afkastamikill bókmenntagagnrýnandi. Hún skrifaði aðallega um bækur íslenskra höfunda, jafnt barna- og unglingabækur sem og bækur fyrir fullorðna. Ástkær bróðir okkar, mágur og frændi, SIGURBJÖRN REYNIR SIGURBJÖRNSSON, Tjarnabraut 8, Njarðvík, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, mánudaginn 29. apríl. Útförin fer fram frá Útskálakirkju, föstudaginn 17. maí klukkan 13. Eiríkur Stefán Sigurbjörnss. Jóhanna P. Sigurbjörnsd. Wayne Carter Wheeley Valdís Sigríður Sigurbjörnsd. Ægir Frímannsson Símon Grétar Sigurbjörnss. og frændsystkini Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og langalangamma, RAGNA KRISTÍN KARLSDÓTTIR frá Garði, lést á hjúkrunarheimilinu Hornbrekku, Ólafsfirði, sunnudaginn 12. maí. Útförin fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju laugardaginn 25. maí klukkan 14. Hulda Gerður Jónsdóttir Aðalsteinn Friðþjófsson Magnús Símon Jónsson Silvia Putta Hólmfríður Sólveig Jónsd. Gísli Heiðar Jóhannsson Helena Reykjalín Jónsdóttir Vilhjálmur Sigurðsson Rögnvaldur Karl Jónsson Björg Traustadóttir Harpa Hlin Jónsdóttir Magnús Rúnar Ágústsson Elskuleg eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, SELMA SIGURJÓNSDÓTTIR Lindargötu 33, lést á Droplaugarstöðum laugardaginn 4. maí. Útför hennar fer fram frá Fossvogskapellu fimmtudaginn 16. maí klukkan 13. Okkar innilegustu þakkir til starfsfólks Droplaugarstaða fyrir alúðleg störf og hlýhug. Friðþjófur Björnsson Ágústa Hrönn Axelsdóttir Haukur Friðþjófsson Rannveig Gylfadóttir Sigurjón Þór Friðþjófsson barnabörn og barnabarnabörn Hjartkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, SIGRÚN JÓHANNESDÓTTIR áður Byggðavegi 88, andaðist aðfararnótt fimmtudagsins 9. maí á Dvalarheimilinu Hlíð. Útförin verður gerð frá Akureyrarkirkju föstudaginn 17. maí klukkan 13.30. Blóm og kransar afþökkuð. Guðrún Bjarnadóttir Björn Sigmundsson Jóhannes Bjarnason Þórey Edda Steinþórsdóttir Unnur Bjarnadóttir barnabörn og barnabarnabörn Ástkær móðir mín, INGA SVAVA INGÓLFSDÓTTIR viðskiptafræðingur, lést laugardaginn 20. apríl. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Hildur Karítas Jónsdóttir Elskulegur unnusti minn, bróðir okkar og frændi, GÍSLI ÞÓR ÞÓRARINSSON, Lillebergveien 13, Mehamn, Noregi, lést laugardaginn 27. apríl. Útförin fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirju, föstudaginn 17. maí klukkan 13. Aðstandendur

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.