Morgunblaðið - 17.08.2019, Qupperneq 26
26 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. ÁGÚST 2019
Hjónin Hallveig Fróðadóttir og Ingólfur Arnarson komu hingað aðóbyggðu landi. A.m.k. er viðtekin skoðun að hér hafi ekki veriðneitt fólk fyrir, nema papar, írskir einsetumunkar sem hurfu ábrott því að þeim var ekki vært innan um norræna menn. Íslend-
ingar eru því í ákveðnum skilningi frumbyggjar – en telst íslenska þar með
frumbyggjamál?
Fróðlegt er að velta þessu fyrir sér í ljósi þess að Menningarmálastofnun
Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) hefur tileinkað árið 2019 frumbyggjamálum.
Það er bæði gert í þágu þeirra sem sem tala frumbyggjamál og til að vekja al-
menning til vitundar um gildi slíkra mála fyrir menningarlegra fjölbreytni í
heiminum. Við Háskóla Ís-
lands er stutt við þessa við-
leitni hjá Vigdísarstofnun, al-
þjóðlegri miðstöð tungumála
og menningar sem starfar
undir merkjum UNESCO.
Ekki er fyllilega ljóst
hvernig á að skilgreina frum-
byggja og þá ekki heldur
frumbyggjamál. Samkvæmt
mælikvörðum UNESCO er
áætlað að 370 milljónir
manna í níutíu löndum teljist
til frumbyggja. Flest tungu-
mál sem þetta fólk talar eru í
mjög viðkvæmri stöðu. Af sjö
þúsund tungumálum sem töl-
uð eru í heiminum eru um
2700 í útrýmingarhættu.
UNESCO skiptir tungu-
málum í fimm flokka eftir lík-
um á útrýmingu:
„Öruggt“; talað af börnum
heima fyrir og miðlun milli kynslóða er algjör.
„Viðkvæmt“; ekki talað af börnum heima fyrir og lítið notað á opinberum
vettvangi.
„Örugglega í útrýmingarhættu“; ekki talað af börnum.
„Í verulegri útrýmingarhættu“; aðeins talað af eldri kynslóðum.
„Í mikilli útrýmingarhættu“; einungis talað af nokkrum einstaklingum af
eldri kynslóðunum, oftast ekki reiprennandi.
Michael E. Krauss, frumkvöðull í rannsóknum á frumbyggjamálum, bjó til
annað flokkunarkerfi þar sem tungumál er talið „í útrýmingarhættu“ ef líkur
eru á að börn tali það ekki eftir 100 ár. (Þess má geta að Krauss, sem er nýlát-
inn, dvaldist á Íslandi á sjötta áratugnum og telst því Íslandsvinur.) Hvað um
það, helsti mælikvarðinn á stöðu tungumála er hvort og að hvaða marki börn
tala málið.
Rétt er að ítreka að stærð málsamfélagsins segir ekki alla söguna um það
hvort tungumál er í útrýmingarhættu eða ekki. Þannig tala t.d. býsna fjölmenn
samfélög á Indónesíu tungumál sem eru í útrýmingarhættu. Íslenska er hins
vegar ekki í útrýmingarhættu samkvæmt þessari mælistiku þrátt fyrir smæð
íslenska málsamfélagsins, enda er íslenska töluð af börnum heima fyrir og
miðlun milli kynslóða alger. Þó er vitaskuld nauðsynlegt að vera stöðugt á verði
gagnvart erlendum áhrifum á málið.
Tungumál deyja út fyrir augunum á okkur með ógnvænlegum hraða. Það
blasir við að dauði tungumáls felur í sér óafturkræfa glötun menning-
arverðmæta. Ákvörðun Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna að lýsa
2019 ár frumbyggjamála ber að skilja með hliðsjón af því.
Frumbyggjamál
í brennidepli
Tungutak
Þórhallur Eyþórsson
tolli@hi.is
Ingólfur og Hallveig,
frumbyggjar Íslands.
Gömlu evrópsku nýlenduveldin voru ekki aðásælast ríki í Afríku, Mið-Austurlöndum ogAsíu til þess að ná yfirráðum yfir fólki. Aðbaki lá eftirsókn eftir auðlindum. Og þau náðu
yfirráðum yfir auðlindum í öðrum heimshlutum í krafti
hervalds. Þetta var í raun þjófnaður. Þau voru að ræna
eignum annarra. Yfir slíku athæfi hefur aldrei þótt hvíla
neinn glæsibragur, þótt þessi gömlu nýlenduveldi hafi
leitazt við að sveipa þetta tímabil dýrðarljóma. En hér
og þar má sjá vísbendingar um endurmat á þeirri sögu
og tími til kominn.
Við Íslendingar upplifðum dauðateygjur nýlenduveld-
anna. Veiðar brezkra togara í fiskveiðilögsögu okkar
undir herskipavernd voru af sama toga. Þetta var þjófn-
aður í krafti hervalds.
Hið sama má segja þegar kemur að þjóðnýtingu
Egypta á Súez-skurðinum sumarið 1956. Hvaðan kom
Bretum og Frökkum réttur til að búa til skipaskurð í
öðru landi og ætla að tryggja yfirráð sín yfir honum með
hervaldi? Og kalla þjóðnýtingu Egypta þjófnað að auki!
Þetta er ljót saga og fjarri því að hægt sé að kenna
hana við glæsileika.
Þessi eftirsókn gömlu nýlendu-
veldanna eftir auðlindum annarra
þjóða hefur tekið á sig nýja mynd
í samtíma okkar.
Þegar Alþingi samþykkti að
sækja um aðild fyrir Íslands hönd að Evrópusamband-
inu sumarið 2009 var alltaf ljóst að með aðild mundu
fiskimiðin við Ísland færast undir stjórn embættismanna
í Brussel í smáu og stóru vegna þess að þá hefði Ísland
fallið undir sameiginlega fiskveiðistefnu ESB.
Það tókst að koma í veg fyrir það.
Nú er að verða til það sem kallað er sameiginlegur
orkumarkaður ESB. Og nú er að því stefnt í krafti EES-
samningsins að fella Ísland undir regluverk þess sam-
eiginlega orkumarkaðar. Hvers vegna töldum við Ís-
lendingar hagstætt fyrir tæpum þremur áratugum að
gera þann samning? Það var vegna þess, að með honum
gátum við tryggt okkur aðgang að fiskmörkuðum í Evr-
ópu.
Nú eru að vísu að verða breytingar á. Bretland er á
leið út úr ESB og Bretland hefur alltaf verið einn af okk-
ar mikilvægustu fiskmörkuðum. En þar að auki hafa
opnast aðrir markaðir fyrir fiskafurðir okkar. Og heyra
má á fiskútflyjendum, að þeir telja ekki mikið mál að
auka fisksölu til annarra markaða. En það er önnur
saga.
Það var ekki markmið þeirra, sem gerðu EES-
samninginn, að hleypa gömlu nýlenduveldunum í Evr-
ópu til áhrifa í nýtingu á hinni mestu auðlind þjóð-
arinnar, þ.e. orku fallvatnanna. En samþykki Alþingi
orkupakka 3 er það ígildi þess að við hefðum fallizt á að
færa yfirráð yfir fiskimiðum okkar til Brussel. Þetta er
sagt vegna þess að með samþykkt orkupakkans verðum
við hluti af regluverki hins sameiginlega orkumarkaðar í
Evrópu. Og jafnvel þótt enginn sæstrengur yrði lagður
mundi áhrifa hans gæta hér.
Gömlu nýlenduveldin eru enn að. Þau eru enn að ásæl-
ast auðlindir annarra þjóða. En nú er öðrum aðferðum
beitt. Þar er hvorki herskipum né annars konar
hernaðartólum beitt heldur her skriffinna í Brussel, sem
búa til ótrúlegar lagaflækjur til þess að binda viðsemj-
endur sína í fjötra, sem þeir sjá ekki fyrir, þar sem þeir
sitja við samningaborðið.
Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma
datt engum í hug, að í krafti hans mundu ESB-ríkin
reyna að ná áhrifum í nýtingu auðlinda á Íslandi. Hafi
einhverjum dottið það í hug hafa þeir hinir sömu þagað
vandlega yfir því.
Um þetta snýst orkupakkamálið nú.
Endalausar lagaskýringar fram og til baka eru ekki
kjarni málsins.
Heldur sú staðreynd að með
því að samþykkja orkupakka 3 er-
um við að gefa frá okkur yfirráð
yfir annarri mestu auðlind okkar.
Frá því að EES-samningurinn
var gerður hefur að vísu orðið til ný auðlind, sem er nátt-
úra landsins, sem dregur hingað ferðamenn. Sú auðlind
kann hins vegar að vera fallvaltari en við höfum gert
okkur grein fyrir. Í Danmörku eru hafnar umræður um
að nauðsynlegt sé að skattleggja flugfargjöld í ríkara
mæli með þeim rökum, að þau endurspegli ekki kostnað
við flugið í formi áhrifa þess á loftslagsbreytingar.
Slíkar umræður gætu orðið til þess að ferðamennirnir
hverfi jafn snögglega og síldin hvarf í gamla daga. Og
jafnframt gjörbreyta öllum rekstrarforsendum flug-
félaga á Íslandi. Kannski er kominn tími á að Eimskip
byggi nýjan Gullfoss.
Það sem hér hefur verið sagt hefur ekki verið ríkjandi
þáttur í umræðum um orkupakkann undanfarna mánuði
en er þó kjarni málsins.
Sjálfstæðisflokkurinn á eftir að taka ákvörðun um ráð-
herra. Sú staðreynd hefur áhrif á afstöðu einhverra
þingmanna hans, sem gera sér vonir um slíkt embætti.
Það er erfiðara að skilja, hvers vegna Framsókn-
arflokkurinn tekur þátt í þessum leik, vegna þess að
hann er einfaldlega í lífshættu.
Samfylkingin og Viðreisn fagna vegna þess að þeir
tveir flokkar hafa það beinlínis á stefnuskrá sinni að
færa yfirráð yfir íslenzkum auðlindum í hendur Brussel.
Afstaða VG er óskiljanleg.
Forystumenn stjórnarflokkanna hafa uppi falleg orð
um að þeir vilji „hlusta“ á fólk og að skoðanaskipti um
ágreiningsmál séu mikilvæg.
Veruleikinn er allt annar – því miður.
Innan dyra kveður við annan tón.
Þingmenn hafa tvær vikur til að ná áttum.
Auðlindaásókn gamalla
nýlenduvelda …
… birtist nú í orkupakka 3
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Ein fjöður getur ekki aðeins orð-ið að fimm hænum, eins og
segir í orðtakinu. Hún getur orðið
að 97 hænum. Staglast er á því í
fjölmiðlum að 97 af hundraði vís-
indamanna telji hnattræna hlýnun
vera af manna völdum. Nú efast ég
ekki um það að hlýnað hafi síðustu
áratugi: ég man þá tíð fyrir hálfri
öld, er skólahald var stundum fellt
niður í Reykjavík vegna veðurs og
strætisvagnar ösluðu um á keðjum.
Ég hef aðeins bent á tvennt sem
liggur í augum uppi. Í fyrsta lagi er
afar ólíklegt að nú muni skyndilega
ekki lengur um náttúrulegar lofts-
lagsbreytingar eins og orðið hafa
frá aldaöðli. Í öðru lagi er alls óvíst
að loftslagið sem var í heiminum
um og eftir 1990, þegar hlýnunin
hófst, sé hið eina ákjósanlega. Hlýn-
un jafnt og kólnun hafa í senn já-
kvæðar og neikvæðar afleiðingar.
Uppruni staglsins um 97 vísinda-
menn af hundraði er í rannsókn eft-
ir eðlisfræðinginn John Cook og
fleiri sem greint var frá í veftímariti
árið 2013. Þar voru skoðaðir rösk-
lega 11 þúsund útdrættir úr rit-
rýndum ritgerðum um loftslagsmál
tímabilið 1991-2011. Cook og fé-
lagar héldu því fram að samkvæmt
rannsókninni teldu 97 af hundraði
vísindamanna hnattræna hlýnun
vera af manna völdum („97,1% en-
dorsed the consensus position that
humans are causing global warm-
ing“).
Þegar grein þeirra Cooks er
skoðuð nánar kemur þó annað í ljós,
eins og eðlisfræðingurinn og
hagfræðingurinn David Friedman
hefur bent á. Í tveimur þriðju hlut-
um ritgerðanna er engin afstaða
tekin til þess hvort hnattræn hlýn-
un sé af manna völdum. En hvað
um þann einn þriðja hluta þar sem
afstaða er tekin? Í rannsókn sinni
flokkuðu Cook og félagar ritgerðir,
þar sem hnattræn hlýnun var talin
af manna völdum, í þrennt. Í fyrsta
flokki voru ritgerðir þar sem sagt
var beint að hnattræn hlýnun væri
mestmegnis af manna völdum og
lögð fram töluleg gögn um það. Í
öðrum flokki voru ritgerðir þar sem
fullyrt var að hnattræn hlýnun væri
að miklu leyti af manna völdum, án
þess að sérstakar tölur væru nefnd-
ar. Í þriðja flokknum voru ritgerðir
þar sem sagt var óbeint að hnatt-
ræn hlýnun væri að einhverju leyti
af manna völdum.
Af þeim ritgerðum þar sem af-
staða var tekin voru 1,6% í fyrsta
flokki, 23% í öðrum flokki og 72% í
þriðja flokki. Þess vegna hefði verið
nákvæmara að segja að 1,6%
vísindamanna sem birt hefðu rit-
rýndar ritgerðir um loftslagsmál
héldu því fram, að hnattræn hlýnun
væri mestmegnis af manna völdum,
en að þorri vísindamanna teldi
menn hafa einhver áhrif á loftslags-
breytingar án þess að horfa
framhjá hlut náttúrunnar sjálfrar.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Hænurnar 97
Góð þjónusta í tæpa öld 10%afslátturfyrir 67 áraog eldri
Flugvallarþjónusta
BSR sér um að skutla þér út á flugvöll og aftur heim þegar þú ferð til útlanda.
5-8 manneskjur
19.500 kr.
1-4 manneskjur
15.500 kr.
Verð aðra leið: