Morgunblaðið - 28.12.2019, Side 6

Morgunblaðið - 28.12.2019, Side 6
6 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 29.12. 2019 Þrjú þúsund ár eru liðin frá því að faraó Egyptalands dreymdi að sjö kýr hefðu stigið upp úr ánni Níl. Þær voru fallegar og vel aldar. Á eftir þeim komu sjö aðrar en ljótar og hor- aðar. Síðarnefndi hópurinn át fallegu kýrnar sjö og við það vaknaði einvaldurinn. Kallaði faraó útlendinginn Jósef til þess að ráða drauminn. Vildi hann meina að hinar vænu kýr væru tákn fyrir sjö velsældarár en að hinar illa höldnu væru fyrirboði um hungursneyð. Hefur þessi draumur gjarnan verið nefndur „hagfræði Gamla testamentisins“ og að í honum birtist forn sannindi um að hagkerfi þess tíma hafi gjarnan sveiflast með þessum hætti. Upp í sjö ár og niður í önnur sjö. Hagvöxtur stóð samfellt á Íslandi á árunum 2011 til 2018 eða í átta ár. Þó var orðið þungbúið yfir hagkerfinu í árslok 2017. Snemma árs 2018 skynjuðu margir að veðrabrigði væru í nánd. Horft lengra aftur bendir margt til þess að draumráðningin forna eigi enn við í dag. Smá- kreppan sem reið yfir bankakerfið 2006, netból- an 2001 eru dæmi sem vísa í þá átt. Að vísu ekki nákvæmlega sjö ár á milli stóratburða, en takt- urinn er svipaður og á kúnum í Níl. Allir vildu trúa öðru Þrátt fyrir reynslu kynslóðanna og augljós merki í umhverfinu héldu þó margir, einkum hagfræðingar, fast í þá trú að enn ætti hag- kerfið talsvert inni þegar kom inn á árið 2018. Talsverður titringur í ferðaþjónustunni, stærstu útflutningsgrein landsins, breytti þar engu um. Í nóvember 2018 spáði Alþýðu- samband Íslands því t.d. að hagvöxtur myndi haldast nokkuð örugglega fram til ársins 2020! 2,6% 2019 og 1,7% ári síðar. ASÍ var þó ekki eitt á vagni heldur sungu allir í kór. Hagstofan, Seðlabankinn, viðskiptabankarnir þrír auk Al- þjóðagjaldeyrissjóðsins sögðu öll um mitt ár 2018 að vöxturinn yrði á bilinu 2,4-3,1% árið 2019 og litlu minni árið 2020. Annað kom á daginn. Lendingin varð talsvert harkalegri en vonir höfðu staðið til. Þar réði vissulega miklu að síendurteknar en vonlausar lífgunartilraunir á WOW air runnu út í sandinn í lok mars síðastliðins. En fleira kom til. Til- raunir til þess að tengja afturkippinn í hagkerf- inu alfarið við fall félagsins er einföldun og í raun fjarstæðukennt þegar litið er á heildar- myndina. Líkt og nýr seðlabankastjóri benti á nýlega í viðtali í ViðskiptaMogganum var ferðaþjón- ustan komin í nokkuð augljóst aðlögunarferli áður en WOW air féll. Landið var orðið dýrt, m.a. vegna mikillar eftirspurnar. Það dró úr áhuga ákveðinna hópa á að sækja landið heim. Þá hafði innlendur kostnaður einnig aukist mik- ið og það kallaði á uppstokkun í greininni. Fyrirtæki sem stólað höfðu á gott gengi á grundvelli lágra verða eða höfðu verið byggð upp á mikilli skuldsetningu og væntingum um mikinn vöxt áttu sér í raun ekki viðreisnar von. Birtingarmyndir afturkippsins eru ýmsar en þær áþreifanlegustu eru versnandi atvinnustig þar sem atvinnuleysi mældist 4,3% í nóvember og uppsagnir sem víða heyrist af á síðustu vik- um gefa til kynna að enn muni syrta í álinn í þeim efnum. Ferðaþjónustan virðist einnig eiga í nokkrum vandræðum með að finna viðspyrnu og framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónust- unnar segir líkur standa til þess að tekjur af er- lendum ferðamönnum verði 5 milljörðum minni í jólamánuðinum en yfir sama tímabil í fyrra. Í litlu hagkerfi munar um minna, ekki síst þegar samdrátturinn hefur reynst viðvarandi, hvort sem litið er til sumarvertíðarinnar eða hausts- ins sem oft hefur reynst brokkgengara en há- önnin. Fleira leggst á árarnar Það eru fleiri en íslenskir sjómenn sem vita að sjaldan er ein báran stök, þótt það hafi verið reyndin á Klaustri. Þannig hefur fyrirséður aft- urkippur í ferðaþjónustunni átt sér birtingar- myndir víða. Hann hefur m.a. komið fram í bók- um viðskiptabankanna sem jafnt og þétt hafa skrúfað fyrir lánveitingar til fyrirtækja í grein- inni - en einnig á fleiri sviðum. Það á m.a. við um byggingariðnaðinn sem sannarlega er nátengd- ur ferðaþjónustunni. Hann hefur orðið fyrir miklum áhrifum af hennar völdum á síðustu ár- um, bæði vegna sprengingar í heimagistingu en einnig vegna gríðarlegrar uppbyggingar á hótelrými innan höfuðborgarsvæðisins og utan. Með þessum aðgerðum hafa bankarnir leitast við að lágmarka áhættu sína. Þeir hafa þó haft fleiri ástæður til þess að skrúfa fyrir kranann og þar með auka á kólnun hagkerfisins. Of háar eiginfjárkvaðir sem Fjármálaeftirlitið, ótengt veruleikanum eins og oftast áður, hefur lagt á bankana, gera þeim mjög erfitt um vik að ná viðunandi ávöxtun til handa hluthöfum. Af þeim sökum hefur Arion banki t.d. ákveðið að minnka lánabók sína um 80 þúsund milljónir á næstu 12 mánuðum. Slíkar kerfisbreytingar hafa sannar- lega áhrif og geta ef allt fer á versta veg, valdið talsverðum usla í hagkerfinu. Það sem enginn þorir að segja Í byrjun apríl féllust andstæðar fylkingar í faðma á skrifstofum ríkissáttasemjara. Kjara- samningar á almennum vinnumarkaði voru undirritaðir og hlutu þeir viðurnefnið „Lífs- kjarasamningurinn“. Sammælst var um að selja samningana á þeim forsendum að í þeim fælust hóflegar launahækkanir. Víst má vera að at- vinnurekendur - eða öllu heldur fulltrúar þeirra - bitu þar í tunguna á sér. Prísuðu sig sæla með samningana sem náðust af þeirri einni ástæðu að WOW air féll með brauki og bramli. Ef verkalýðshreyfingin hefði ekki farið á taugum við tíðindin fimmtudaginn 28. mars hefðu þau haldið aðgerðum sínum áfram með vaxandi þunga og miklu tjóni fyrir hagkerfið allt. Enginn þorir opinberlega að segja það sem liggur í augum uppi. Samningarnir reyndust þungir fyrir atvinnulífið, ekki síst þeim greinum sem farnar voru að ströggla misserum áður en þeir voru undirritaðir. Vegna þeirra hækkana sem þeir tryggðu launafólki hefur áhersla á hagræðingu orðið öllu öðru yfirsterkara á verk- efnalistum stjórnenda þetta árið. Afleiðingin er aukið atvinnuleysi. Þar með er þó ekki allt talið. Samningurinn gildir til 2022 og hækkanirnar 1. apríl síðastlið- inn voru minnsta inngripið. Samningurinn er „afturhlaðinn“ og almennar hækkanir og taxta- hækkanir verða hærri í apríl næstkomandi og ná hápunkti 1. janúar 2022. Þá gætu hækkan- irnar orðið mun meiri ef hagvöxtur verður á samningstímanum. Innbyggður „hagvaxtar- auki“ leggst ofan á launahækkanir sem kveðið er á um í samningnum. Gangi þjóðhagsspá Hagstofunnar eftir munu taxtar hækka um 29 þúsund í stað 24 þúsunda á næsta ári, um 34.500 krónur í stað 24.000 króna árið 2021 og um 35.500 í stað 25.000 króna árið 2022. Allir vita, en enginn talar um, til hvers þessar hækkanir leiða. Því skal haldið fram að launa- fólk, einkum það sem þiggur taxtalaun, er ekki ofsælt af sínum hlut. Samningarnir áttu að rétta hlut þess en þeir munu gera hið þver öfuga, að minnsta kosti í mörgum tilvikum. Í stað betri kjara mun fólk missa lífsviðurværi sitt. Enginn hyggst axla ábyrgð á því, en ljóst er hverjir bera þar meiri ábyrgð en aðrir. Margt þarf að ganga upp Þrátt fyrir þá erfiðleika sem hagkerfið stendur nú frammi fyrir og að margt bendi til þess að mögru kýrnar hafi gengið á land, býr íslenskt samfélag við öfundsverð kjör á alla mælikvarða. Jöfnuður mælist meiri hér en víðast hvar ann- arsstaðar, erlendar eignir þjóðarinnar vaxa og vaxa og lífeyriskerfið státar nú af meiri eignum en nokkru sinni fyrr. Þær nema nú yfir 5.000 milljörðum króna. Þá er verðbólga lág, sem löngum hefur verið fjarlægt takmark. Því mið- ur er hætt við að hún verði enn minni og færist þá undir heilbrigð mörk. Desembermæling vísi- tölu neysluverðs vekur grunsemdir um að það gæti gerst. Gengi krónunnar hefur haldist til- tölulega stöðugt og þar hefur gríðarstór gjald- eyrisforði Seðlabankans, óskuldsettur, án nokk- urs vafa mikið að segja. Gengi krónu gagnvart evru hefur aðeins veikst um ríflega 1,5% síðasta árið en um tæp 5% gagnvart dollar. Hvort tveggja ætti að blása vindi í segl ferðaþjónust- unnar, og raunar annarra útflutningsgreina einnig. Á nýju ári þarf að vinda ofan af ýmsu sem gerst hefur á árinu 2019. Atvinnuvegafjárfest- ing þyrfti að aukast að nýju og stjórnvöld þurfa að grípa til annarra aðgerða en vaxtalækkana til þess að örva útlán í bankakerfinu. Þar myndu minni eiginfjárkvaðir skipta sköpum. Óhamingju Icelandair verður allt að vopni Þá þurfa Íslendingar að halda vökulu auga á því sem nú á sér stað í Renton-verksmiðjunni í Washington-fylki í Bandaríkjunum. Icelandair Group, sem er hryggjarstykkið í íslenskri ferðaþjónustu, og raunar fólksflutningum til og frá landinu, er í spennitreyju sem félaginu var komið í af siðlausum stjórnendum Boeing. Þeir styttu sér leið og lentu í keldunni, sem krók- urinn hefði forðað þeim frá, þegar þeir settu í loftið stórgallaða og lífshættulega flugvél sem ber einkennisstafina MAX. Óhamingja Iceland- air reyndist sú að undirrita samninga um kaup á 16 slíkum vélum árið 2013. Kyrrsetning drápstækjanna frá því í mars hefur valdið félag- inu og íslensku hagkerfi gríðarlegum búsifjum og ekki sér enn fyrir endann á því öllu. Jafnvel gæti komið til þess að þessar vélar fari aldrei aftur í loftið sökum hönnunargalla sem nær ómögulegt mun reynast að bæta úr. Icelandair þarf því að finna nýja lausn á flota- málum sínum til frambúðar. Þar liggur beinast við að ganga til samninga við Airbus, ekki að- eins vegna framkomu forsvarsmanna Boeing, heldur einnig vegna þess að A321LR og XLR vélar Airbus henta mun betur inn í leiðakerfi fé- lagsins en þær vélar sem Boeing hefur til reiðu. Hið sorglega er að Icelandair hefur tapað gríðarlega verðmætum tíma á þessu MAX- ævintýri og það gæti tekið mörg ár að vinda of- an af þeirri pattstöðu sem upp er komin. Hart í bak á skammri stund Margar stórar áskoranir einkenndu íslenskt viðskipta- og efnahagslíf á árinu 2019. Þær verða jafnvel enn stærri á komandi ári. Viðbrögð stjórnvalda og fyrirtækja á komandi misserum munu ráða miklu um hvernig tekst að vinna úr stöðunni. STEFÁN EINAR STEFÁNSSON er fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu. Í nóvember 2018 spáði Alþýðusamband Íslands því t.d. að hagvöxtur myndi hald- ast nokkuð örugglega fram til ársins 2020! 2,6% 2019 og 1,7% ári síðar. SKAMMT STÓRRA HÖGGA Í MILLI Á ÁRINU 2019 ’’ Allra augu beindust að WOW air í upphafi árs. Félagið varð gjaldþrota þann 28. mars síðastliðinn en það reyndist ekki eina áskorun ársins. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.