Morgunblaðið - 28.12.2019, Síða 17

Morgunblaðið - 28.12.2019, Síða 17
MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 29. 12. 2019 17 Ég svara þessari stóru spurningu frá hjarta mínu og hef þess vegna ekki endilega á réttu að standa. Fyrir löngu las ég sögu um alkemista sem uppi var á miðöldum á Norður-Ítalíu, en þá voru í gangi miklar væringar milli borgríkjanna þar. Alkemistinn var í einni þessara borga sem var í herkví. Hann hafði lokað sig af í turni einum þar sem hann hafði loks fundið upp eilífðardrykkinn og akkúrat þegar óvinahermenn ryðjast inn á hann nær hann að taka slurk af drykknum sem varð til þess að í sögunni sat hann í Parísarborg og sagði ungri ástkonu sinni rúmum fimm hundruð árum seinna sögu sína. Hann hafði lifað alla og alltaf, konur sínar og börn, samferðafólk og vini og smám saman breyttist hjarta hans í eyðimörk og sálin myrkvaðist og tilgangurinn með lífinu tapaðist. Hann sagði henni að þegar hann tók sopann forðum hefðu hellst niður nokkrir dropar og lítil mús hefði skotist þar að og sleikt þá upp svo hans helsti ótti væri við að standa yfir aldauðum heimi og horfa inn í bládjúp alheimsins með músina sér við hlið. Helstu verðmæti lífsins eru árstíðirnar í öllu sem lifir, vor, sumar, haust og vetur og þar ligg- ur hamingja manns, að sættast við lífið og lögmál þess og fatta að þar er ekki spurt um magn heldur gæði. Eilífðin býr í augnablikinu og glugginn að því er kærleikur, því er þetta kannske meira spurning um hvort maður lifir sofandi eða vakandi frekar en hve lengi. Ást og friður. Tolli er listamaður 130 ára tjargaður Deutz vafinn í léreft Eilíf æska er ekki til. Hún er bara draumur. En reyndar ekki bara einhver draumur. Draumur sem er jafn gamall sjálfri siðmenning- unni er vissulega merkilegur draumur. Í árþúsund hafa mann- eskjur sannfært sig um að eilíft líf sé handan við hornið. Marg- víslegar tilraunir hafa verið gerðar til að varðveita líkamann. Manneskjur hafa verið smurðar í olíur, þurrkaðar, vafðar, loft- tæmdar, þrýstijafnaðar, frystar, sútaðar og tjargaðar. Fólk hefur staðið í ýmiss konar múmíubrigslum í gegnum tíðina og sá leikur heldur reyndar áfram enn þann dag í dag því snyrtivöruiðnaður- inn selur okkur krem, olíur og smyrsl sem eiga að varðveita æsk- una og veltir milljörðum dollara. Af þessu má draga tvær ályktanir. Sú fyrsta er að fólk er tilbúið að eyða miklum tíma og fyrirhöfn í að koma í veg fyrir öldrun og helst dauða. Eilíf æska er eitt af stærstu hugðarefnum mannkyns og því er ekki skrítið að fréttir af frumurannsóknum sem eiga að margfalda líf okkar veki athygli. Hin ályktunin, sem er kannski öllu napurri, er að ekkert af þessu virkar. Við getum smurt okkur eins og gamlan Deutz-traktor, en við verðum lítið yngri fyrir vikið. Við getum látið lýtalækna lyfta andlitum okkar but gravity always wins, svo vitnað sé í hljómsveitina Radiohead. En vissulega verða til læknisfræðileg stökk. Uppgötvun sýklalyfja og ýmsar aðrar fram- farir í læknavísindum hafa lengt líf okkar. Og hugsanlega eigum við inni einhver ár eða áratugi sem gamlir smurðir Deutz-traktorar. En gleymum samt aldrei að þetta eru múm- ískar stílæfingar, elsta saga mannkyns, og forvitnileg eftir því. Bergur Ebbi er rithöfundur Það þarf engum að segja það að við höfum ekkert gott af því að fá allt sem við viljum. Bara alls ekki. Hin eilífa hringrás er nátt- úruleg og góð. Til að njóta vorsins verðum við að hafa upplifað veturinn. Til þess að þekkja gleðina verðum við að hafa þekkt sorgina og til að þekkja lífið verðum við að hafa þekkt dauðann. Upphaf og endir. Endir, sem verður upphaf einhvers annars. Svo eru það þessir fáu útvöldu sem, í krafti auðs síns, telja sig ósigrandi og vilja endilega fá að lifa að eilífu. Græðgi þessara manna er trúlegast kóðuð inn í frumur þeirra, á sama hátt og öldrunin. Með því er náttúran ef til vill að sjá til þess að mann- kynið steypi sér í glötun, æði fram af klettum eins og læmingjar í lygasögu, til þess að hin eilífa hringrás megi halda áfram? Hver veit? En segjum að þetta heppnist þá, bara praktískt séð, hvar eiga allir að vera? Hvað í veröldinni ætlar þetta fólk að vera að gera 170 ára gamalt, stútfullt af varahlutum og búið að prófa alla heimsins golfvelli? Sjálfri finnst mér ekkert eftirsóknarvert við eilífa æsku. Ég nýt þess að einbeita mér að því sem mér hefur verið gefið og tímanum sem mér hefur verið úthlutaður. Það gefur mér tilgang og veitir mér hamingju. Ekki gæti ég hugsað mér að vera bandormur á tíunda rúntinum í gegnum lífið. Það held ég að myndi alveg ganga frá mér. Brynhildur Guðjónsdóttir er leikari og leikstjóri Draumurinn um eilífa æsku rætist seint eða aldrei. En draum- urinn um lengra og betra líf er að rætast. Afkastamesti lífgjaf- inn er auðvitað hagvöxturinn. Vandaðri hús og ríflegri matur hefur haft í för með sér að fleiri lifa en ella. Hér áður fyrr gátu menn sagt: Ég er heppinn, ég hef ekki verið étinn og ég hef haft nóg að éta, og það er meira en hægt er að segja um flest dýr jarðar. En lenging lífsins hefur víðtækar afleiðingar. Ein hin augljósasta er að lífeyrissjóðir um allan heim stefna í gjaldþrot, nema þeir séu söfnunarsjóðir, þar sem menn fá til baka það sem þeir hafa lagt inn, með eðlilegri ávöxtun. Við Ís- lendingar erum þar betur settir en flestir aðrir. Annað hefur ekki verið lagfært sem skyldi, og það er sveigj- anlegur eftirlaunaaldur. Margir gætu unnið miklu lengur en þeir gera núna, og þeir væru reiðubúnir til þess. Ýmis störf eru þess eðlis að menn verða því betri í þeim sem þeir eru í þeim lengur, því að þau krefj- ast yfirsýnar og þroska, sem menn öðlast með aldrinum. Um ýmis önnur störf gildir auðvitað hið öfuga, til dæmis störf sem krefjast mikillar líkamlegrar áreynslu, þótt þeim muni að vísu óðum fækka. Hið þriðja, sem hlýtur að spretta upp, er aukin þjónusta og miklu sveigjanlegri við aldrað fólk sem á miklar eignir og hefur einhverjar tekjur og getur þess vegna greitt fyr- ir þjónustuna. Þetta er markaður sem hefur verið vanræktur. Þar eru ferðalög og af- þreying mikilvægir þættir. Menn hafa áhyggjur af fólksfjölgun og hlýnun jarðar. Ég hefði sjálfur meiri áhyggjur af fólksfækkun og kólnun jarðar, sem er fyrirsjáanleg vegna minni virkni sólarinnar næstu áratugi. Víðast á Vesturlöndum er fólksfækkun að verða vandi, og á heimsvísu hefur dregið mjög úr fólksfjölgun, þótt hún sé enn nokkur. Áhyggjuefnin eru því allt önnur en fjölmiðlar boða. Ég er sjálfur sannfærður um, að því lengra sem lífið er og betra í þeim skilningi að menn búi við góða heilsu, því æskilegra. Það eru óteljandi hlutir sem við höfum vegna tímaskorts ekki getað nýtt okkur, eins og til dæmis að hlusta á klassíska tónlist, lesa vel skrifaðar bækur, ferðast á fjarlæga staði og svo framvegis. Tímaskorturinn og ann- ríkið hefur verið böl okkar sem búum í velsældarríkjum Vesturlanda, þar sem möguleik- arnir á því að nýta tímann eru miklir og fórnarkostnaður af ákvörðunum því verulegur. Þetta kann að breytast. Við kunnum að geta gefið okkur tíma til að sinna ýmsu sem við eigum of annríkt til að gera núna. Viðfangsefnin eru óþrjótandi, og því lengra sem við stígum fram á við, því víðari verður völlur möguleikanna sem við sjáum umhverfis okk- ur. En þessi tímavél fram á við er ekki hin eina. Önnur tímavél aftur á bak er auðvitað DNA okkar, sem gerir okkur kleift að rekja söguna aftur í aldir. Ég nefni eina tímavél í viðbót, sem er kvikmyndin. Ég spái því að þess verði ekki langt að bíða að gera megi tölvugerða kvikmynd af Alþingishátíðinni 1930 í fullum gæðum, þar sem kvikmyndirnar þrjár, sem þar voru teknar, verða notaðar, en líka allar ljósmyndirnar (kynstur af þeim) og tölva reikni út millimyndir og geri þær lifandi og síðan sé hægt að lita þessa kvik- mynd eðlilega. Þá mun skyndilega standa ljóslifandi fyrir okkur viðburður, þegar þjóðin hitti sjálfa sig í fyrsta skipti. Og þá koma í góðar þarfir allar upptökurnar á Maður er nefndur þáttunum, sem ég hafði forgöngu um að gera, en þar voru allir sem verið höfðu á Alþingishátíðinni 1930 spurðir um hana. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um, hvernig þessi tímavél getur starfað. Hannes H. Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði „Ég ætla mér að lifa að eilífu eða deyja ekki fyrr en í fulla hnef- ana,“ sagði bandaríski gamanleikarinn Groucho Marx. Það er í eðli allra sem draga andann að halda því áfram, þrauka og lifa af. Það er viss goðsaga að mannskepnan vilji deyja og verði södd lífdaga. Ef manneskja heldur heilsu og þreki vill hún oftast meira. Dauðinn er líka fjarlægari en nokkru sinni fyrr. Við höfum pakkað honum í umbúðir og gert hann framandi. Liðnar kynslóðir voru með hringrás lífsins í fanginu. Líf kviknaði, æviskeið leið og dauðinn var nálægur hjá mönnum og dýrum. Í því bjó æðruleysi og auðmýkt þess sem er í nánum samskiptum við líf og dauða. En veröldin breyttist og dauðinn yfirgaf daglega lífið. Hann varð fjarlægur helgisiður sem við göngum treglega og sjaldan í gegnum. Væntingar til lífsins breytast líka og við gerum áætlanir sem samræmast jafnvel frekar því að við ætlum að lifa í 300 ár. Og það fer að hljóma nokkuð sanngjarnt og raunhæft að fá tækifæri til að staldra lengur við. Auðvitað ríða auðkýfingarnir á vaðið. Þeir gera það alltaf þegar um er að ræða aukinn munað. Háöldruðum og forríkum gamlingjum mun þá fjölga hratt. Þeir gætu orðið afar erfiðir sjálfvitar með tímanum. Gallar okkar magnast með aldrinum. Við verðum sjálf- hverf, geðvond og kröfuhörð. Það er hræðileg hugmynd að þannig ellismellir verði endalaust hressir. Eilíft líf einnar manneskju er að finna í þeim þráðum sem hún skilur eftir sig á jörðinni. En á tímum vaxandi einstaklingshyggju er krafan þó að okkar eigið sjálf ráfi áfram um plánetuna sem hið eilífa líf. Það er samt frekar hrollvekjandi til- hugsun. Kristín Helga Gunnarsdóttir er rithöfundur

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.