Morgunblaðið - 28.12.2019, Side 8
8 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 29.12. 2019
Bók og jól eru tvö nátengd orð í huga flestra Ís-
lendinga. Vonandi hefur bók verið í sem flest-
um jólapökkum þessi jólin. Að minnsta kosti í
jólapökkum til barna og ungmenna ef marka
má niðurstöður PISA-rannsóknarinnar 2018.
Lesskilningi íslenskra unglinga heldur
áfram að hraka og hefur aldrei verið lélegri í al-
þjóðlegum samanburði en nú. Fram hefur
komið að rúmlega þriðjungur nemenda þarf
stuðningsúrræði í samræmdum könnunar-
prófum eða fær undanþágu frá próftöku. Þrátt
fyrir það sýna gögn að almennt er árangur
nemenda bestur þar sem undanþágur eru fáar
og mætingarhlutfall í prófið er hátt öfugt við
það sem stundum hefur verið talið.
Alls konar skýringar hafa komið fram á
þessari stöðu og ljóst að ekkert eitt skýrir
þessa niðurstöðu. Mikilvægt er samt að gleyma
ekki þeim verðmætum sem þjóðin á í kennur-
um þessa lands sem leggja á sig ómælda vinnu
við að sinna öllum nemendum, sama hversu
erfiðir þeir eru. Hlín Bolladóttir, kennari við
Dalskóla, skrifaði fyrr í mánuðinum færslu á
Facebook sem vakti mikla athygli en þar segir
hún íslenska grunnskólakennara synda
björgunarsund á hverjum degi. Meinið sé sam-
félagslegt. Kennarar hafi lítinn tíma til að
kenna vegna þess að mestallur þeirra tími fer í
að ala börnin upp og freista þess að leysa úr
allskyns vandamálum sem börnin glíma við. Sá
vandi verði ekki til í skólunum og segir hún að
börnum sé of oft hlíft og að ekki megi gera
kröfur til þeirra. Þau eigi of upptekna foreldra
og þau eru sjálf svo upptekin eftir skóla.
Annað sem hefur verið bent á er að töluvert
skorti upp á að endurgjöf sé með skipulögðum
hætti. Í greinaflokknum Skóli fyrir alla? á
mbl.is í haust kom fram hjá mörgum viðmæl-
endum að aðalnámskrá grunnskóla sé afar
flókin og hæfniviðmiðin illskiljanleg. Ósam-
ræmi sé ekki bara á milli skóla heldur innan
sama skólans.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, frumkvöðull og
stofnandi Kara Connect, segir Íslendinga of
meðvirka þegar kemur að umræðu um
menntamál. „Á sama tíma viljum við að kerfið
standi sig betur og mennti börnin okkar á
heimsmælikvarða. Þegar niðurstöður eins og
PISA koma eigum við sem þjóð að taka þær
mjög alvarlega, alltaf. Þetta er gott próf og
mælir margt sem hjálpar. Við þurfum að mæla
meira, okkar gildi að auki – eins og til dæmis
sköpun og tónlist og líðan og sammælast um að
margir mælanlegir þættir geti skapað mat á ís-
lensku skólastarfi. Að sama skapi er mikið
rými til að setja meiri kröfur á börnin en líka
færri. Það fer talsverður tími á yngri stigum í
verkefni sem þau eru ekki tilbúin að læra og of
mikill tími á eldri stigum í verkefni sem eru of
létt. Rannsóknir á starfsumhverfi og starfsþró-
un íslenskra kennara þarf líka mun meiri at-
hygli – verkefnakennsla þvert á greinar er það
sem koma skal en íslenskir kennarar telja sig
ekki vera undirbúna fyrir þá framtíð,“ segir
Þorbjörg.
Eitt af því sem bent er á í skýrslu um
PISA-2018 er hve algeng enska er orðin bæði á
formlegum og óformlegum vettvangi. Það
tungumál sem íslensk börn heyra í umhverfi
sínu eða nota í samskiptum og leikjum er ekki
alltaf íslenska, heldur mjög oft enska. Minnk-
andi lestur og notkun íslensku í daglegu lífi
hefur mjög eðlilega þær afleiðingar að íslensk-
ur orðaforði barna vex hægar, málskilningur
verður minni. „Við getum með öðrum orðum
ekki gert ráð fyrir að því að nemendur læri ís-
lensku af sjálfu sér, bara af því að búa á Ís-
landi,“ segir í skýrslunni.
Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent við kenn-
aradeild Háskólans á Akureyri og rithöfundur,
segir að börn séu ekki hætt að lesa og þau ekki
upp til hópa ólæs. „Við þurfum að breyta því
hvernig við ræðum um lestrarmálin. „Þau lesa
vissulega að jafnaði minna en jafnaldrar þeirra
gerðu áður fyrr en við megum ekki úthrópa
krakka sem ólæsa og ekki viðbjargandi. Orða-
leppurinn að börn, og sérstaklega drengir, geti
ekki lesið sér til gagns er óheppilegur og gefur
til kynna að stór hluti barna sé tæknilega ólæs
þegar þau eiga miklu frekar í erfiðleikum með
að kafa undir yfirborðið. Lesskilningur er
nefnilega ekki einangrað fyrirbæri, óháð öðr-
um breytum. Lesskilningur snýst um að geta
notað eigin reynslu, þekkingu og dómgreind til
að túlka og draga ályktanir út frá því sem mað-
ur les. Lesskilningur veltur því á orðaforða og
fyrri lestrarreynslu sem aftur tengist lestr-
aruppeldi og lestraráhuga. Þetta er flókið sam-
band sem virkar í allar áttir. Það eina sem við
getum fullyrt að virki ekki er að smána börn til
að bæta sig. Við þurfum að breyta nálguninni
og byggja upp jákvætt lestrarsamfélag, gera
bækur aðgengilegar og sýnilegar úti um allt,
fylla skólasöfnin og laða fjölskyldur saman að
lestri,“ segir Brynhildur.
Hún er hrædd um að árangur nemenda okk-
ar í PISA-prófunum sé fyrst og fremst mæling
á stöðu íslenskunnar. „Við höfum verið föst í
þeirri hugsun að lesturinn sjálfur sé vandinn en
ég held að það sé kominn tími til að við viður-
kennum að íslenskan stendur höllum fæti.
Börn hafa almennt takmarkaðri orðaforða en
áður og grípa fljótt til ensku til að bjarga sér.
Hluti af ástæðunni er að þau alast upp við
miklu minna íslenskuáreiti en áður, horfa
minna á íslenskt efni og lesa sjaldnar bækur á
íslensku,“ segir hún.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur
ákveðið að grípa til aðgerða, meðal annars með
því að fjölga kennslustundum í íslensku á
grunnskólastiginu, einkum á yngsta og mið-
stigi, og auka kennslu í náttúruvísindum á
unglingastigi. Því í ljós hefur komið að íslensk
ungmenni fá miklu minni kennslu í náttúruvís-
indum en jafnaldrar þeirra annars staðar á
Norðurlöndunum og víðar. Jafnframt þurfi að
tryggja starfsþróun kennara. Bæði skortir að
menntun kennara í stærðfræði og náttúruvís-
indum og eins þurfi að huga námsefninu, að
það auki orðaforða og lesskilning nemenda í
öllum greinum.
Hermundur Sigmundsson, prófessor við
Tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi, seg-
ir að það sé mikilvægt að nota vísindi sem út-
gangspunkt í þeim aðgerðum sem ráðist verður
í til þess að bæta stöðu íslenskra nemenda. Al-
gjört lykilatriði sé að skoða hvað sé verið að
gera inni í skólunum. Í hverjum skóla, í hverri
kennslustund og hvernig kennslu og eftirfylgni
er hvert barn að fá. Leggja áherslu á að skapa
djúpa þekkingu í gegnum þjálfun. Að áskoranir
séu miðaðar við færni hvers og eins. Skapa
áhuga með bókum sem passa fyrir áhugasvið
hvers og eins. Algjört lykilatriði er að mati
Hermundar að bæta bókakost skólabókasafna
en það er samdóma álit fólks í menntakerfinu
að skipti gríðarlega miklu máli, að börn hafi að-
gang að góðu lesefni á íslensku.
Ekki dugi að beita skyndilausnum við að
bæta stöðuna í skólakerfinu en við getum gert
ýmislegt til að vega upp á móti því. „Reyndur
unglingakennari sem ég hitti um daginn sagð-
ist lesa daglega fyrir 10. bekkingana sína því
upplestur væri besta agatækið. Ef besta aga-
tækið er svona einfalt, ódýrt og á allra færi ætt-
um við að nota það miklu meira. Sérstaklega
fyrst það byggir upp orðaforða og eflir þar með
hinn svokallaða lesskilning,“ segir Brynhildur.
Einkenni þjóða sem skara fram úr í alþjóð-
legum samanburði er að sameiginleg sýn hefur
náðst um að allir nemendur geti náð afburðaár-
angri og hvernig eigi að veita viðunandi stuðn-
ing. Í úttekt á framkvæmd stefnunnar um
skóla án aðgreiningar á Íslandi kemur fram
samstaða á meðal þeirra sem sinna mennta-
málum um það markmið að tryggja öllum nem-
endum jöfn tækifæri. Á hinn bóginn er ekki
sameiginlegur skilningur á hugtakinu menntun
án aðgreiningar og þar með ríkir óöryggi um
framkvæmd stefnunnar – er skólinn fyrir alla?
Þorbjörg segir að íslenskt samfélag eigi að
tileinka sér það að gefast aldrei upp á barni.
„Þau eiga það skilið að við séum þrautseig,
hugmyndarík og skýrum út fyrir þeim allt sem
þau sjá og heyra. Við þurfum að kveðja „þetta
reddast“ frasann okkar, menntun reddast
nefnilega ekki.“
Bækur þurfa að vera aðgengilegar og sýnilegar úti um allt, fylla þarf skólabókasöfnin og laða fjölskyldur saman að lestri.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Menntun reddast ekki
Hættum að tala í frösum og látum verkin tala. Rúmur þriðjungur barna þarf stuðningsúrræði í samræmdum prófum.
GUÐRÚN HÁLFDÁNARDÓTTIR
hefur verið blaðamaður og fréttastjóri á
Morgunblaðinu og mbl.is frá árinu 1996.
Við getum með öðrum orðum
ekki gert ráð fyrir að því að
nemendur læri íslensku af
sjálfu sér, bara af því að búa á Íslandi.
SKÓLI FYRIR ALLA?
’’