Morgunblaðið - 28.12.2019, Side 12

Morgunblaðið - 28.12.2019, Side 12
12 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 29.12. 2019 Stelpur skora svipað hátt og strákar á ADHD- kvarðanum en samt fá miklu færri stelpur greiningar og um leið lyf. Sonja Sím- onardóttir, 24 ára laganemi við Háskólann í Reykjavík, var greind með ADHD á síðasta ári í menntaskóla. Eftir að hafa fengið lyf breyttist allt hennar líf en fram að þeim tíma lýsir hún lífi sínu eins og það hafi allt verið í einhvers konar móðu. Sonja segir að eftir að hafa fengið greiningu og lyf hafi hún loks náð að einbeita sér og dregið hafi úr hvatvísinni. Mamma hennar, Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við sál- fræðideild Háskólans í Reykjavík og lýð- heilsudeild Columbia-háskóla í New York, hefur unnið að rannsóknum á högum og líðan ungs fólks í rúmlega 20 ár og meðal þess sem er skimað fyrir í spurningalistum sem lagðir eru fyrir grunnskólanema er ADHD. Beitt er viðurkenndum skimunarkvarða sem notaður er í fjölmörgum rannsóknum. Hann inniheldur 18 spurningar þar sem helm- ingur mælir athyglisbrest og hinn helming- urinn ofvirkni. Eins eru ungmennin, sem eru 15 ára gömul, spurð hvort þau hafi verið greind með ADHD og hvort þau taki lyf við ADHD. Inga Dóra segir niðurstöðurnar afar áhuga- verðar enda sýni þær að enginn kynjamunur sé á meðalskorum á ADHD-kvarðanum né á undirkvörðunum tveimur. Aftur á móti sé tals- verður munur á hegðun kynjanna. Stelpurnar tali mikið, séu gleymnar og utan við sig á með- an strákarnir sitja ekki kyrrir, fari úr sæt- unum, fylgi ekki leiðbeiningum og klári ekki verkefni. „Strákarnir eru líklegri til að fá greiningu en stelpurnar og þær þurfa að skora hærra á þessum kvörðum sem við mælum fyrir ADHD þar sem einkennin koma ólíkt fram. Stelp- urnar beina einkennunum meira inn á við þannig að þær eru oft þægar úti í horni og al- gjörlega til friðs í skólastofunni en því miður eru þær líklegri til að skaða sig en strákar. Á meðan eru strákarnir óstýrilátari og fá athygli og um leið greiningu þar sem þeir trufla aðra,“ segir Inga Dóra. Hún segir að það eigi ekki að skipta máli hvernig þetta birtist hjá börnum og ungmenn- um. „Þetta eru krakkar sem við þurfum að gæta að og það er nauðsynlegt að minnka for- dóma í garð ADHD með því að opna um- ræðuna. Það er bara allt í lagi að við séum ekki öll eins og þetta snýst ekki um óþekkt heldur að allir fái þann stuðning sem þeir þurfa á að halda,“ segir Inga Dóra. Athyglisbrestur og ofvirkni, oft kallað ADHD í daglegu tali, er taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt snemma fram eða fyrir 7 ára aldur og getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Nýjar rann- sóknir sýna að 5-10 af hundraði barna og ung- linga glíma við ofvirkni sem þýðir að 2-3 börn með ADHD gætu verið í hverjum bekk að meðaltali í öllum aldurshópum. Þetta er í sam- ræmi við rannsóknir sem Inga Dóra og félag- ar hennar hjá rannsóknamiðstöðinni Rann- sóknir og greining hafa unnið undanfarin tuttugu ár. Inga Dóra og Símon Sigvaldason héraðs- dómari eiga þrjár dætur. Tvíburana Erlu og Sonju sem eru 24 ára og Alöntu sem er tíu ára gömul. Tvíburarnir, sem eru tvíeggja, fengu sama uppeldi en eru að sögn Ingu Dóru eins og svart og hvítt að mörgu leyti. „Sonju gekk mjög vel í grunnskóla líkt og Erlu á meðan hún þurfti ekki að leggja á sig vinnu við að standa sig í náminu. En þegar hún byrjaði í menntaskóla fór hún að falla,“ segir Inga Dóra en Sonja byrjaði í Menntaskólanum við Hamrahlíð líkt og Erla en skipti síðar yfir í Menntaskólann við Sund. Sonja segir að bekkjarkerfið í MS hafi átt miklu betur við hana en áfangakerfið í MH og áfangakerfi yfir höfuð henti ekki fólki eins og henni. „Ég var alltaf að falla í stökum áföng- um í MH en í bekkjarkerfi eins og var í MS er aðhaldið miklu meira og þannig miklu meira vesen að falla á ári en stökum áfanga. Ég var búin að sætta mig við það að ég myndi ekki ná árangri í lífinu út af því að ég var að falla. Áð- ur en ég fór í greiningu var ég ekkert að velta framtíðinni fyrir mér annað en ég var viss um að ég næði aldrei að ljúka menntaskólanum. Hjá mér snerist þetta um það að þegar ég þurfti að læra eitthvað sem ég kunni ekki og gat ekki notað það sem heilbrigð skynsemi sagði mér, lenti ég í vandræðum enda fór at- hyglin út í veður og vind. Ég varð samt mjög hissa þegar mamma stakk upp á því að ég færi í greiningu og sagði að kennarar mínir hefðu nefnt það við hana að ég væri mögulega með athyglisbrest. Í raun þótti mér mjög vænt um að heyra að þetta fólk hefði velt þessu fyrir sér. Mér fannst það sýna að þeim væri ekki sama um mig,“ segir Sonja. Hún fór fyrst til sálfræðings og síðan lækn- is og í ljós kom að hún var með ADHD. Í kjöl- farið fékk hún lyf sem virkuðu strax vel og í tilviki Sonju er greinilegt að röskunin háði henni. „Breytingin var gríðarleg og á stúd- entsprófinu hækkuðu allar hennar einkunnir mjög mikið og kennararnir hennar voru agn- dofa að sjá breytinguna sem varð á henni. Allt í einu náði hún fókus og fór í framhaldinu í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík og fór þar á forsetalista fyrir framúrskarandi náms- árangur. Ég fæ enn hroll við tilhugsunina um ef ég hefði ekki bókað tíma fyrir hana í grein- ingu. Því það er eitthvað sem þarf að hafa fyr- ir,“ segir Inga Dóra. Að sögn Sonju passar hún vel upp á svefn, næringu og hreyfingu og hún gerir sér fulla grein fyrir því hvað þetta þrennt skiptir miklu máli. „Nú veit ég hvað þetta skiptir miklu máli og ég næ að skipuleggja mig. Þó svo að eitt- hvað komi upp á, ég komist ekki á æfingu eða sofi illa þá fer ekki allt úr skorðum. Ég næ fókus og bregst við aðstæðum hverju sinni sem ég gerði ekki áður. Þá vakti ég á nóttunni og svaf á daginn og borðaði bara ruslfæði. Nú vakna ég snemma og einbeiti mér að náminu og öðru sem skiptir máli,“ segir Sonja en þeg- ar blaðamaður hitti þær mæðgur skömmu fyr- ir jól var Sonja búin að taka síðustu prófin í meistaranámi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Eftir áramót er það MA-ritgerðin og útskrift í vor. Miklu skiptir að börn fái þær greiningar sem þau þurfa á að halda en á sama tíma eru biðlistarnir eftir slíkum greiningum afar lang- ir. Sonja segir að hún hefði örugglega ekki nennt að standa í þessu sjálf og þakkar móður sinni fyrir að hafa gert það fyrir hana. „Ég mætti bara í alla tímana og tók öll prófin en ég var ekkert viss um að ég væri með ADHD og átti því ekki von á neinu. Ég gerði bara eins og mamma sagði,“ segir hún og hlær. „Ég hafði ekki hugmynd um að ég yrði sett á lyf og ég hafði ekki hugmynd um hverju þetta átti eftir að breyta í mínu lífi. Þegar ég hugsa til baka þá man ég voðalega lítið eftir lífinu mínu áður en ég fékk greiningu því það var bara allt á fleygiferð í höfðinu á mér.“ Inga Dóra segir að hún hafi rætt lýsingu Sonju við lækni og hann hafi sagt að þetta væri mjög algengt hjá fólki með ADHD. Eftir að fólk fær greiningu og viðeigandi meðferð verði algjör breyting á lífi viðkomandi. Mynd- in skýrist og þú náir stjórn á þér. „En það má alls ekki ofgreina og ekki flokka fólk því við erum öll með eitthvað. Fólk með ADHD er oft skemmtilegasta og klárasta fólkið og það sem er með mestu sköpunargáfuna. Hugsar út fyr- ir rammann. Ástæðan fyrir því að ég tók kannski svona seint við mér varðandi Sonju er líka sú að við verðum að gæta að því að nútímaumhverfi geti meðhöndlað ungt fólk á réttan hátt. Við verðum að skilja ungt fólk án þess að þurfa alltaf að setja það í einhverja flokka. Heim- urinn í dag er miklu flóknari en hann var en kerfin okkar eru hins vegar óbreytt, skóla- kerfið og fleira. Það er eins og við höfum ekki rými fyrir alla. Við verðum að vera opin fyrir því að greina og tilbúin að styðja þau ung- menni sem þurfa á auknum stuðningi að halda. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra,“ segir Inga Dóra Sigfúsdóttir. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Lyfin breyttu lífi hennar Greining og lyf breyttu lífi Sonju Símonardóttur sem fór úr því að falla í skóla í að komast á forsetalista fyrir námsárangur. Nú veit ég hvað þetta skiptir miklu máli og ég næ að skipuleggja mig. Þó svo að eitthvað komi upp á, ég komist ekki á æf- ingu eða sofi illa þá fer ekki allt úr skorðum. Ég næ fókus og bregst við aðstæðum hverju sinni. ADHD: FLEIRI STRÁKAR FÁ ADHD-GREININGAR OG LYF EN STELPUR ’’ Mæðgurnar Sonja Símonardóttir og Inga Dóra Sigfúsdóttir. Lengri útgáfa af viðtalinu verður birt á mbl.is um helgina. „Hausinn á mér var á fleygiferð“ mbl.is

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.