Bændablaðið - 21.07.2016, Page 34

Bændablaðið - 21.07.2016, Page 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 21. júlí 2016 Lanz Bulldog – gæða traktor Lanz Bulldog dráttarvélar voru framleiddar af þýska fyrirtækinu Heinrich Lanz AG í Mannheim í Baden- Württemberg Þýskalandi. Framleiðsla Lanz hófst 1921 en var hætt 1960. Kosturinn við Lansinn, eins og vélarnar voru kallaðar hér á landi, var að þær voru einfaldar að gerð og auðvelt var að gera við þær ef eitthvað bil- aði. Fyrstu vélarnar voru 6,3 lítra, eins strokka og tólf hestöfl. Seinna var boðið upp á öflugri 10,3 lítra, og 55 hestafla vélar. Einnig þótt kostur að mótorinn gekk fyrir margs konar olíu og meira að segja notaðri smurolíu. Eftirlíkingar Þrátt fyrir að Lansinn hafi verið líkur öðrum dráttarvélum, SF Vierzon í Frakklandi, Landini á Ítalíu og HSCS í Ungverjalandi, sem framleiddar voru í Evrópu á svipuðum tíma, þótti hann betri. Ekki leið á löngu þar til farið var að framleiða eftirlíkingar af Lansinum undir ýmsum nöfn- um. Í sumum tilfellum voru eft- irlíkingarnar framleiddar með leyfi Heinrich Lanz AG en ekki í öðrum. Frakkar settu á markað drátt- arvél sem kallaðist Le Percheron árið 1939 með leyfi Lanz. Sá traktor var 25 hestöfl og til ársins 1956 voru framleidd 3.700 slík- ir. Á árunum 1948 til 1952 voru framleiddir í Austurríki 860 trakt- orar sem kölluðust KL Bulldog og voru Lanz „look alike“. Ursus verk- smiðjurnar í Póllandi framleiddu 45 eintök af sinni gerð af Lanz árið 1947 sem kallaðist C-45. Tíu árum seinna setti Ursus svo á markað C451 og alls voru 55 þúsund slíkir framleiddir til 1965. Argentínska útgáfan af Lansinum kallaðist El Pampa og voru 3.760 slíkir settir á markað í Suður-Ameríku frá 1951 til 1960. John Deere tekur Lanz yfir Landbúnaðartækjaframleiðandinn John Deere keypti framleiðslu- réttinn af Lanz árið 1956 og hét dótturfyrirtækið þess sem tók við framleiðslu Lanz dráttarvéla John Deere-Lanz. Hluti framleiðslu John Deere- Lanz var á Spáni undir heitinu Lans Iberica og frá 1956 til 1963 runnu 17.100 slíkir af færiböndum þar í landi. Lanz Bulldog er með allra vin- sælustu dráttarvélunum sem hann- aðar og framleiddar hafa verið í Þýskalandi. Alls munu hafa verið framleiddar 220 þúsund dráttarvélar undir heitinu Lanz og í Þýskalandi er heitið Lanz víða notað sem samheiti yfir dráttarvélar. Lanz-ins gang Á heimasíðu Landbúnaðarsafns Íslands segir að upp úr mið- biki síðustu aldar hafi komið til landsins afar merkileg dráttarvél, þýskrar gerðar. Hún hét Lanz Alldog. Vélin var merkileg sakir framúrstefnulegrar hönnunar. Dráttarvélin var byggð á öfluga grind, þar á sat ökumaðurinn, aft- ast, og hafði mótorinn sér á vinstri hönd. Verkfærin voru síðan hengd á grindina sem einnig gat borið mikinn kassa er sturta mátti úr fram fyrir vélina. Talsvert er enn til af þessum vélum hér á landi og margar þeirra gangfærar. Búvélasafnið hýsir eina fyrir Byggðasafnið í Görðum. Sú er úr búi Sveinbjarnar Beinteinssonar allsherjargoða frá Draghálsi. Hún er gangfær en nokkuð lúin. /VH Búverkin á Fossi Flestir sem hafa verið í sveit sem börn eiga minningar um búleiki. Stór bú og lítil bú voru byggð út við hól og fyrirmyndirnar jafnvel sóttar um alla sveit. Börnin léku sér með leggi, kjálka, völur, skeljar, fiskibein og steina ásamt fleiru. Allir áttu sín hlutverk og sinn bústofn þar sem ímyndunaraflið réði gangi leiksins. Þó nú sé tækniöld og flest börn alist upp við óteljandi tölvuleiki og margs konar afþreyingu eiga búleikirnir ennþá upp á pallborðið. Fyrir allnokkru viku þó leggir og skeljar fyrir plastmótuðum skepnum, leikfangabílum og litlum dráttarvélum. Hún Sveindís Helga unir sér í leik við eftirmynd af útihúsunum á Fossi í Staðarsveit sem Binni frændi hennar smíðaði. Á bænum búa afi og amma Sveindísar og þar er líka smalahundurinn Blossi sem rólegur gætir búsins á meðan sú stutta sinnir búverkunum. /TB Mynd / Hlédís Sveinsdóttir Fasteignafélagið Reitir hyggst opna veitinga- og matarmarkað að erlendri fyrirmynd í Vogahverfinu í Reykjavík. „Við erum að auglýsa eftir aðilum sem vilja taka þátt í þessu með okkur og höfum þegar fengið fyrirspurnir frá áhugasöm- um smásölum,“ segir Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita. Áformað er að opna veitinga- og matarmarkaðinn í Holtagörðum undir nafninu Sælkerahöllin. Friðjón segir að fyrstu viðbrögð lofi góðu, en um 1.500 fermetra svæði verði til að byrja með ráð- stafað undir starfsemina. „Við höfum möguleika á að stækka ef áhuginn reynist mikill,“ segir hann. Básafyrirkomulag verður í Sælkerahöllinni þar sem 12 fermetra rými eða stærra er í boði. Sælkerahöllin verður í anda Torvehallerne í Kaupmannahöfn og Borough Market í London þar sem matur, menning og umhverfi tvinnast saman í skemmtilegri upplifun gesta. „Það er vaxandi eftirspurn eftir t.d. lífrænum vörum og matvælum beint frá býli, fólk vill í meira mæli fá að vita eitthvað um þann mat sem það kaupir, ekki bara grípa eitthvað frosið í næsta stórmarkaði,“ segir Friðjón. Stóru verslunarrýmin, sem mjög voru í tísku í eina tíð, eiga undir högg að sækja, annars konar fyrirkomu- lag sé að ryðja sér til rúms, líkt og það sem fyrirhugað er að setja upp í Holtagörðum þar sem margir ein- yrkjar koma saman undir sama þaki og bjóða hollar og góðar vörur, skapa lifandi markaðsstemningu með lífi og fjöri. Áhersla verður á ferskleika, íslenska matargerð og hráefni beint frá framleiðendum og eins er gert ráð fyrir að hægt verði að njóta veitinga á staðnum eða grípa þær með. Mikill fjöldi þegar á ferli á þessum slóðum Friðjón bendir á að Holtagarðar gegna nú stóru hlutverki sem samgöngumiðstöð en um hana fari um 600 þúsund ferðamenn á ári. Í húsinu eru líka verslanir og önnur starfsemi sem heimamenn sækja í miklum mæli. Þá búa um 14 þúsund manns í Laugarnes- og Laugaráshverfi, Heimum og Vogum og veruleg fjölgun íbúða ráðgerð á næstu árum. Á markaðnum gæti því orðið skemmtilegt samspil heima- og ferðamanna. Til að auka enn á upplifun gesta markaðarins er ætl- unin að bjóða upp á afþreyingu, sýn- ingar, tónleika eða aðra listviðburði. „Nú bíðum við viðbragða og munum fara yfir umsóknir í haust og sjá hvert þetta leiðir. Ef allt gengur að óskum stefnum við á að opna í kringum næstu áramót,“ segir Friðjón. /MÞÞ Sælkerahöll í Holtagörðum – fyrirmynda leitað í Danmörku og í Bretlandi Í Sælkerahöllinni verður hægt að kaupa ferskvöru beint af framleiðendum líkt og í Torvehallerne í Kaupmannahöfn. Myndir / TB Verður stemningin svona í Holtagörðum? Til að auka á upplifun gesta markaðarins er ætlunin að bjóða upp á afþreyingu, sýningar, tónleika eða aðra listviðburði. Boðið verður upp á bása til leigu í Sælkerahöllinni.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.