Bændablaðið - 21.07.2016, Page 36

Bændablaðið - 21.07.2016, Page 36
36 Bændablaðið | Fimmtudagur 21. júlí 2016 Frjáls útivera kúnna í Holtseli – hraustari kýr, hærri nyt auk vinnusparnaðar við þrif og fóðrun, segir bóndinn Á bænum Holtseli í Eyja fjarðar- sveit hefur til langs tíma verið rekið myndarlegt kúabú og hefur löngum þótt glæsilegt heim að líta, enda ábúendur þar engir nýgræðingar í búskap. Búið hefur síðustu áratugi verið eitt af stærri mjólkurframleiðslubúum á Eyjafjarðarsvæðinu og alla tíð þótt afar glæsilegt, byggingum vel við haldið og umhverfið snyrtilegt. Þarna búa hjónin Guðrún Egilsdóttir og maður hennar, Guðmundur Jón Guðmundsson. Þau voru á sínum tíma brautryðjendur í framleiðslu á heimagerðum ís, og reka enn ísgerð og fallegt ísrétta- veitingahús á fjósloftinu. Ísframleiðslan hófst 23. apríl 2006 og eru ábúendur í Holtseli fyrstir íslenskra bænda til að fram- leiða mjólkur- og rjómaís úr eigin mjólk. Í Holtseli er rekin Beint frá býli- verslun sem býður upp á ýmsar vörur „Beint frá býli“-framleiðenda úti um land allt. Mjaltaþjónn bætist í búskapinn Fyrir tæpu ári síðan var breytt um mjaltatækni og keyptur Delaval mjaltaþjónn af Bústólpa ehf. og var kosið að hafa sk. stýrða umferð eins og algengast er með þessa tegund mjaltaþjóna. Kýrnar í Holtseli eru greinilega hrifnar af tækninýjungum því það var eins og þær hefðu verið mjólk- aðar í mjaltaþjóni í tugi ára og voru engin vandamál sem dúkkuðu upp þegar þær fóru að mjólkast með nýrri og annarri tækni. Aðspurður um það hvernig til hefði tekist þegar mjaltaþjónn var tekinn í notkun að leyfa kúnum áfram að ganga við opið, segir Guðmundur að það hefði gengið vel. „Við höfum í nokkur ár leyft kúnum að hafa opinn aðgang að fjósinu allan sólarhringinn þar sem þær hafa bæði haft hey og fóðurbæti og eru þær vanar að nýta sér það. Þær rölta út og inn nokkrar ferðir á dag. Ef veður er ekki gott kjósa þær að liggja inni, einnig á nóttunni. Kýrnar ganga frjálsar út og inn Þegar við tókum í notkun nýjan mjaltaþjón síðastliðið haust höfð- um við dálitlar áhyggjur af því að erfitt yrði að leyfa kúnum að fara út á sömu forsendum og áður, en þær áhyggjur voru með öllu ástæðulaus- ar. Núna lokum við aldrei fjósinu og kýrnar ganga frjálsar út og inn. Fyrstu 1–2 vikurnar sóttum við þær einu sinni til tvisvar á dag og rákum þær inn, en flokkunarhliðið við mjaltaþjóninn hleypti þeim út sem ekki voru komnar með mjalta- heimild. Það að hafa flokkunarhlið gerir þetta allt saman mikið þægi- legra og auðveldara á allan átt. Og forsenda þess að hægt sé að leyfa kúnum að ganga frjálsar,“ segir Guðmundur og bætir við að þau hafi jafnvel séð kýr sem ekki vildu fara út fara inn beint aftur, þær hafi valið. „Nú erum við nánast alveg hætt að þurfa að skipta okkur af kúnum til að reka þær í mjaltir. Þær kjósa að koma inn að kvöldinu og liggja inni yfir nóttina, en byrja að tínast út snemma á morgnana að mjöltun loknum. Það fer svo eftir veðri hvað þær eru fljótar að koma sér á beit. Ef kalt er í veðri eða rigning kjósa þær oft flestar að liggja inni mestan part dagsins, skjótast kannski stutta stund á beitina. Þar sem þær hafa aðgang að grænfóðri skammt frá fjósinu. Þar færum við rafgirðingu tvisvar til þrisvar á dag,“ segir Guðmundur. Hver er helsti ávinningur frjálsrar útiveru? „Við teljum útivist og hreyfingu ekki síður nauðsynlega fyrir kýrnar en mannfólkið og okkar reynsla er sú að mörg vandamál séu úr sögunni þegar kýrnar komast út á vorin. Auðvitað er æskilegt að bithaginn sé ekki langt frá fjósinu svo kýrnar eigi auðvelt með að rölta á milli að vild,“ segir Guðmundur. Hann telur ávinninginn við útiveru kúnna vera hraustari kýr og hærri nyt auk vinnusparnaðar við þrif og fóðrun. „Það er okkar skoðun og byggð á reynslu,“ segir Guðmundur Jón Guðmundsson í Holtseli. /Kristján Gunnarsson ráðgjafi Guðrún Egilsdóttir og Guðmundur Jón Guðmundsson í Holtseli. Mynd / BBL Mynd / GJG Mynd / GJG

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.