Bændablaðið - 02.11.2017, Blaðsíða 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 2. nóvember 2017
Miklar endurbætur fara nú fram á
húsakynnum Hótel Sögu og nú er unnið
að algerri endurnýjun hins sögufræga
Súlnasalar.
Í sumar var ráðist í að hreinsa allt innan úr
salnum ásamt eldhúsi sem þar var á bakvið.
Síðan hafa iðnaðarmenn verið önnum kafnir
við að innrétta að nýju. Búið er að skipta um
alla glugga, skipta um loftræstingar og allar
lagnir. Þá verður byggt upp nýtt og fullkomið
eldhús, enda mun salurinn fá að hluta nýtt
hlutverk sem morgunverðarstaður hótelgesta.
Þrátt fyrir það verður áfram hægt að nýta
salinn undir viðburði af ýmsum toga eins og
jólahlaðborð.
Þótt enn séu mörg handtök eftir er ætlunin
að opna Súlnasalinn að nýju fimmtudaginn 16.
nóvember næstkomandi.
Fyrir utan þetta er hafin vinna við að
breyta inngangi á fyrstu hæð ásamt móttöku
og veitingaaðstöðu fyrir gesti hótelsins þar sem
Mímisbar er nú. Barinn verður þó áfram þótt
umhverfi hans muni breytast verulega. Ráðgert
er að þessum breytingum ljúki á vordögum
næsta árs. /HKr.
Miklar endurbætur fara nú fram á Hótel Sögu:
Súlnasalur í nýjan búning
– Stefnt að opnun á sal, glænýju eldhúsi og veitingaaðstöðu með stórveislu 16. nóvember
MÆLT AF
MUNNI FRAM
Það finnst mér gegn og góður siður að þakka fólki það sem vel er gert og meint. Þannig fórust mér orð í
síðasta vísnaþætti, er ég færði opinberlega
Birni Ingólfssyni á Grenivík mínar bestu
þakkir fyrir Þingvísnabókina er hann
færði mér til gjafar. Til að hnykkja frekar
á þakklæti mínu, þá bætti ég því við, að
mér fyndist Björn ekki bara afbragðs
hagyrðingur, heldur einnig líka „góður
maður“. Ekki óraði mig fyrir því, að þessi
persónulega skoðun mín á Birni yrði til
þess að vekja með honum slíkt oflæti sem
næsta vísa hans ber vitni um:
Ánægju minni ég ekki fæ leynt,
yfir mig sæll og glaður.
Á endanum komið er alveg á hreint
að ég er góður maður.
Petra kona mín leitaði um svipað leyti
til Björns vegna úrlausnar á einhverju
verkefni. Björn leysti vanda hennar
greiðlega, og þakkaði hún honum fyrir
vinsemd hans og visku. Viðbrögð Björns
urðu á sama veg og að ofan greinir:
Það er ekkert árans blaður
að upphefð mín er stór og skjót;
orðinn gegn og góður maður
og gáfaður í þokkabót.
Björn hlýtur að jafna sig með tímanum. Í
nýlegu bréfkorni frá Gunnari Veltan eru
þó nokkrar vísur um ástandið í pólitíkinni
þessi dægrin. Þær vísur fá ekki rúm hér,
en vinsamleg eftirmæli um Höskuld
Einarsson frá Vatnshorni verða aldrei of
oft kveðin:
Djarfur bóndi duglegur,
dvínaði aldrei móður,
í Vatnshorni Höskuldur
hagyrðingur góður.
Fyrst farið er að fjalla um gengi bænda,
þá er vel við hæfi að birta hér nýort ljóð
eftir Davíð Hjálmar Haraldsson. Þar er
fjallað ítarlega um stöðuna á kjötmarkaði
og þann birgðavanda sem afurðastöðvum
hefur ekki tekist að greina til fulls.
Við greiningu vandans leitar Davíð
traustra heimilda vítt og breitt sem gerir
framsetningu hans afar trúverðuga. Ljóðið
nefnir Davíð, Birgðavandi:
Til sveita eru sauðakrof í stöflum
samkvæmt hag- og birgðastöðutöflum
og vinnslustöðvar verð á keti lækka.
Voðinn nálgast; bændunum mun fækka
því nú er haust og veturinn í vændum.
En vandinn hefur ýtt við sumum bændum
sem finna út hvað annað megi gera
en uppgefast á hokrinu- og skera.
Á Baldursheimi buðu þau til veislu
bræðrum sínum, þekktum fyrir neyslu.
Þótt gamlir væru gestirnir og slappir
þeir gátu étið hundrað sviðalappir
og þrettán slög við þetta tækifæri
og þrjátíu og átta grilluð læri
en rifjasteik og hrygg og báða bóga
af Bíldu sem var hölt og varð að lóga
og hrút sem þeir í heilu lagi átu
og hakkað í sig pressuð svið þeir gátu
og heilastöppu, hjörtun öll og þindir
úr hjörð af gemlingum sem urðu blindir.
Þeir virtust hafa góða lyst á lungum
og luku við á sjötta tug af pungum
og tólf kíló af tittlingum af hrútum
í tommu löngum, niðurskornum bútum
og fimmtíu og fjóra bringukolla
sem féllu til við heimaslátrun rolla.
Allan matinn átu þeir með hraði
og efirréttinn; saltketsgúmmilaði.
------
Djarfar fyrir dagsbirtu í sveitum,
í draumi hóa bændurnir í leitum.
Senn mun hverfa sauðaket í stöflum
samkvæmt hag- og birgðastöðutöflum.
Svo hljóðar þessi magnaða skýrsla
Davíðs.
189
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com
Myndir / HKr.
LÍF&STARF