Bændablaðið - 02.11.2017, Síða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 2. nóvember 2017
Fyrirtækið Heilsuprótein tekið til starfa á Sauðárkróki:
Mysu breytt í próteinduft og etanól
– Tímamót í umhverfismálum og nýsköpun innan mjólkuriðnaðarins hér á landi – eldsneyti og áfengi nú hluti af afurðum bænda
Fyrirtækið Heilsuprótein
ehf. hefur tekið til starfa á
Sauðárkróki, en ný verksmiðja
þess var formlega nýverið
tekin í notkun að viðstöddu
fjölmenni. Eigendur félagsins eru
Mjólkursamsalan og Kaupfélag
Skagfirðinga. Hjá Heilsupróteini
verða framleiddar verðmætar
afurðir úr mysu sem áður var
fargað.
Starfsemi er nú hafin í fyrri
áfanga verksmiðjunnar, þar sem
um er að ræða framleiðslu á
próteindufti úr mysu, en hún fellur
til við ostagerð á Vestur-, Norður- og
Austurlandi. Framleiðslan markar
tímamót í umhverfismálum og
nýsköpun innan mjólkuriðnaðarins
á Íslandi og á sama tíma er verið
að auka verðmætasköpun með
framleiðslu á vörum úr hráefni sem
áður fór til spillis. Mysunni, alls
um 54 þúsund lítrum, hefur fram
til þessa verið hleypt beint í sjóinn.
Alkóhól framleitt í seinni áfanga
Í síðari áfanga verksmiðjunnar,
sem áætlað er að komist í gagnið
innan tveggja ára, eða á árinu
2019, verður framleitt ethanól úr
mjólkursykri ostamysunnar og
einnig úr mysu sem fellur til við
skyrgerð. Áætlanir gera ráð fyrir
að hægt verði að framleiða um
1,5 milljón lítra af etanóli á ári,
en framleiðslan nýtist m.a. sem
eldsneyti og eða vínandi. Eftir
að þeim áfanga verður náð mun
einungis hreint vatn renna til sjávar
úr ostasamlögum á norðan- og
austanverðu landinu.
300 tonn af þurrkuðu próteini
á ári
Gert er ráð fyrir að unnt verði að
framleiða um 300 tonn af þurrkuðu
próteini á ári. Mysupróteinduft
er í ríkum mæli notað í heilsu-
og íþróttavörur og einnig í
matvælaframleiðslu, en markaður
fyrir vörur af því tagi er gríðarstór.
Um 60 milljón lítrar af mjólk eru
árlega nýttir til ostagerðar, 10%
magnsins verður ostur, en 90% er
mysa. Stór hluti af henni var ekki
nýttur, en nú verður breyting þar á,
þegar framleitt verður annars vegar
próteinduft úr afgangsmysunni og
hins vegar og síðar alkóhól.
Hugmynd verður að veruleika
Magnús Jónsson, samlagsstjóri hjá
KS, segir að málið eigi sér langan
aðdraganda, lengi hafi verið leitað
lausna varðandi mysuna og hvernig
mætti nýta hana.
„Við höfum velt vöngum yfir þessu
um árabil, þetta hefur verið langt
ferli, það er því ákaflega gleðilegt
að sjá þegar hugmynd verður loks
að veruleika. Þetta er stór áfangi
fyrir okkur og gleðilegur,“ segir
hann.
Rekstur Heilsupróteins er
í húsnæði undir sama þaki
og mjólkursamlag KS og eru
stöðugildin til að byrja með tvö.
Magnús segir að unnið sé af kappi
að vöruþróun og möguleikarnir séu
margvíslegir.
„Við erum að keyra þetta í gang
og óhætt að segja að starfsemin fari
vel af stað,“ segir hann. Starfsemin
muni aukast þegar framleiðsla fer
á fullt og muni það kalla á fjölgun
starfsmanna.
Magnús segir að mikill
ávinningur sé af starfseminni
þegar horft sé til umhverfisþáttarins
og gleðilegt að nú hafi tekist að
koma á laggirnar verksmiðju sem
sé fjárhagslega hagkvæm, skapi
verðmæti úr vöru sem áður var
fargað.
Nýta hráefni til fulls
Ari Edwald, forstjóri Mjólkur-
samsölunnar og stjórnarformaður
Heilsupróteins, sagði við opnun
verksmiðjunnar að samstarfið við
KS hefði opnað margar dyr, „og við
teljum að hér muni skapast mikil
verðmæti með miklum möguleikum
á ýmiss konar framleiðsluvörum
og útflutningi. Með þessu framtaki
viljum við einnig leggja okkar á
vogarskálarnar í umhverfismálum
í okkar framleiðslu og á sama tíma
að nýta hráefni til fulls.“
Sótt fram með nýsköpun
og þróun
Bjarni Benediktsson, fráfarandi
forsætisráðherra, flutti ávarp við
opnun verksmiðjunnar og sagði
aukin verðmæti afurða lykil að
framtíð landbúnaðarins.
Miklar breytingar hefðu orðið
í íslenskum landbúnaði á stuttum
tíma, gríðarleg framleiðniaukning
orðið og miklar framfarir.
Þannig hefði kúabúskapur tekið
stakkaskiptum, mikið væri um
nýbyggingar fjósa sem væri merki
um þrótt atvinnugreinarinnar.
Framkvæmdir og fjárfesting í
nýjum húsum og búnaði, sem og
fjárfesting í vinnslu Heilsupróteins,
væri sá grunnur sem menn vildu sjá
undir íslenskan landbúnað.
„Að hann sé á hverjum tíma
í fremstu röð. Að hann skipi í
öndvegi velferð dýra og manna. Að
hann geti sótt fram með nýsköpun
og þróun.“ /MÞÞ
TÆKNI&VÍSINDI
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS, Ari Edwald, forstjóri MS og Sigurjón Rúnar Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri
við opnun nýrrar verksmiðju Heilsupróteins, sem er í eigu Mjólkursamsölunnar og KS.
EFLA verkfræðistofa vann að smíði
og uppsetningu nýju verksmiðjunnar
í samstarfi við forsvarsmenn
Heilsupróteins. Framleiðsluferlið
er hefðbundið, en helstu einingar
verksmiðjunnar eru gerilsneyðing, UF
sía, 400 lítra dæla og láréttur þurrkari,
sem knúinn er með heitu vatni, gufu
og rafmagni. Orkugjafinn, heitt
gufu- og vatnslagnir, spennustöð,
móttöku fyrir mysuþykkni auk allrar
mun einnig sjá um CE-merkingu
búnaðarins.
Steinunn Þórhallsdóttir, ritari hjá Mjólkursamsölunni, Erla Traustadóttir á
Berustöðum, Egill Sigurðsson, bóndi á Berustöðum og formaður stjórnar Veglegar veitingar voru í boði fyrir gestina og að sjálfsögðu voru ostar þar
í hávegum hafðir.
Hjónin Sigrún J. Þórisdóttir og
þingmaður Norðvesturkjördæmis
og forseti Alþingis, ásamt Bjarna
Benediktssyni, fráfarandi forsætis-
ráðherra.