Bændablaðið - 02.08.2018, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 02.08.2018, Blaðsíða 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 2. ágúst 20186 Eftir ótrúlega vætusamt sumar sunnan- og vestanlands eru garðyrkjubændur almennt bjartsýnir. Má þó vænta þess að uppskera verði í seinna lagi, sérstaklega í útiræktuðu grænmeti og kartöflum. Ræktun innan dyra hefur verið drifin áfram með lýsingu, með tilheyrandi kostnaði, en eins og landsmenn vita hefur sólar ekki notið mikið í sumar. Allt frá því að fyrsti samstarfssamningur um starfsumhverfi garðyrkjunnar var gerður milli stjórnvalda og garðyrkjubænda, hefur stuðningur stjórnvalda m.a. verið nýttur til að flytja markvisst inn þekkingu, s.s. frá erlendum ráðunautum sem hingað hafa komið reglulega. Sú þekkingaryfirfærsla sem átt hefur sér stað með því hefur leitt til aukinnar hagkvæmni, vöruþróunar og mikilla hagsbóta fyrir neytendur sem nú geta m.a. gengið að fleiri tegundum af innlendri framleiðslu, stærri hluta úr árinu en áður var. Ýmsar fjölbreytilegar vörur úr garðyrkjuafurðum hafa orðið til síðustu ár og þar eru tækifærin nær endalaus. Aukum sjálfbærni í garðyrkjunni Verkefni við endurskoðun búvörusamninga munu miða að því að ná betri árangri í ræktun og lýsingu svo auka megi sjálfbærni í garðyrkjuafurðum. Nauðsynlegt er að horfa til þess að stuðningur til garðyrkju er umtalsverður í Evrópu og víðar, hvort sem um er að ræða útirækt eða ræktun í gróðurhúsum. Við þessar afurðir keppa íslenskir garðyrkjubændur bæði í verði og gæðum. Nauðsynlegt er að eftirlit með merkingu matvæla verði stóraukið svo neytandinn hafi vitneskju um hvað hann er að kaupa og hvaðan maturinn kemur. Brögð eru að því að grænmeti og aðrar landbúnaðarvörur séu merktar með íslensku heiti en þegar betur er að gáð er varan innflutt og textinn ekki mjög áberandi sem upplýsir neytandann um upprunaland. Jafnræði og lækkun orkukostnaðar er forgangsmál Það er sanngirnismál að innlend framleiðsla búi við sambærileg skilyrði og gerist erlendis þar sem útiræktun nýtur stuðnings í formi landgreiðslna. Einnig er nauðsynlegt að nýta og viðhalda virkri tollvernd til stuðnings við innlenda framleiðslu með sambærilegum hætti og gert er í öðrum löndum. Í ylræktinni er hagkvæmari orkunýting og lækkun orkukostnaðar forgangsmál. Það er undarleg staðreynd að flutningur raforku hefur hækkað meira í verði síðustu ár en orkan sjálf og umtalsvert meira í dreifbýli en þéttbýli. Hér þurfa ráðamenn þjóðarinnar að koma að málum. Endurskoða þarf stefnumótun og uppbyggingu á orkumarkaði hérlendis, ekki bara vegna garðyrkjuframleiðslu, heldur þarf þarna að taka tillit til byggðasjónarmiða. Styrkja þarf samkeppnisstöðu landsbyggðanna, m.a. með uppbyggingu innviða, þar sem aðgangur í dreifðum byggðum landsins að sameiginlegum auðlindum, á borð við orku, verði tryggður og jafnræðis gætt í verðlagningu og kostnaði. Horfum til fæðu- og matvælaöryggis Í þeirri vinnu sem fram undan er við endurskoðun búvörusamninga er einnig nauðsynlegt að horfa bæði til fæðu- og matvælaöryggis landsmanna. Þurrkatíð, uppskerubrestur af völdum þurrka og skógareldar sem nýverið hafa geisað í Skandinavíu og víðar minna okkur á að innflutningur og aðgangur að heilnæmum og ferskum vörum er ekki sjálfgefinn. Við garðyrkjuframleiðslu er nauðsynlegt að hafa aðgang að góðu og heilnæmu vatni. Víða erlendis er skortur á því vaxandi vandamál. Þar ættu að liggja tækifæri fyrir innlenda framleiðslu. Nýtum innlenda kolsýru til fulls Samhliða lýsingu í ræktun nýta garðyrkjubændur kolsýru, CO2. Kolsýran fær plönturnar til að nýta ljósið betur og getur aukið uppskeru um allt að 10–20% á hvern fermetra. Hérlendis er staðan sú að einungis eitt fyrirtæki selur kolsýru. Þegar svo er háttað er verðið einnig ákveðið af einum og sama aðila. Kolsýran er unnin úr borholu að Hæðarenda í Grímsnesi og annar sú vinnsla um 60–70% af innanlandsmarkaði. Það sem á vantar er flutt inn frá Evrópu og þá sem brennt gas eða jarðefnaeldsneyti. Í Evrópu er nú skortur á kolsýru til matvæla- framleiðslu og um þessar mundir er kolsýra til garðyrkjuframleiðslu skömmtuð hér á landi. Á Íslandi kemur ómælt magn kolsýru upp með borholuvatni hjá orkufyrirtækjum. Undirritaður skorar hér með á orkufyrirtækin að nýta þessa afurð til fulls svo bjóða megi samkeppni á þessum markaði og gera þá kolsýru sem hleypt er út í andrúmsloftið daglega að þeirri eftirsóttu vöru sem hún er í raun, hvað þá til útflutnings. Stöndum saman og veljum íslenskar vörur Vaxandi áhersla er á að þjóðir heimsins dragi úr kolefnislosun og alþjóðlegir samningar sem Íslendingar eru aðilar að leggja landsmönnum ríkulegar skyldur á herðar í þeim efnum. Kolefnisfótspor innlendra garðyrkjuafurða er mun minna en þeirra innfluttu. Aukin sjálfbærni í framleiðslu garðyrkjuafurða og minni innflutningur eru mikilvægir þættir þegar kemur að því að uppfylla þau markmið sem sett hafa verið í umhverfis- og loftslagsmálum. Hagur allra landsmanna er að standa saman og velja íslenskar vörur. Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.500 með vsk. (innheimt í tvennu lagi). Ársáskrift fyrir eldri borgara kostar 5.250 með vsk. Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279 Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar − SKOÐUN Öndum inn, öndum út Í fréttum er það helst að sauðfjárbændur stíma í samningaviðræður við ríkisvaldið um endurskoðun á sínum búvörusamningi. Mikil umræða hefur verið um starfskjör sauðfjárbænda síðustu ár og staðan virðist síst fara batnandi. Nú er enn eitt haustið að nálgast þegar reiptog bænda og sláturhúsa hefst um skilaverð. Fátt virðist benda til mikils afkomubata hjá þeim fyrrnefndu á næstu mánuðum. Afurðastöðvarnar kveinka sér og ný skýrsla ráðgjafarfyrirtækisins KPMG sýnir að afkoma þeirra er síst vænlegri. Nýlegar fregnir af verðhækkunum á matvörumarkaði koma ekki alveg á óvart. Það er einhver undirliggjandi ólga og þrátt fyrir góðærið virðast blikur á lofti. Hundruð kjarasamninga á vinnumarkaði losna í vetur og margir hópar telja sig hafa borið skarðan hlut frá borði. Risavaxnar launahækkanir sem Kjararáð hefur skammtað „sínu fólki“ síðustu misseri eru ekki gleymdar. Það er eðlilegt að launafólk vísi í þær í þeirri baráttu sem fram undan er. Hugmyndir endurskoðunarnefndar búvörusamninga eru athyglisverðar og verða vonandi ræddar í þaula við samningaborðið. Báðir aðilar bera mikla ábyrgð og það eru sameiginlegir hagsmunir að leita lausna hratt og vel. Það gengur ekki að teygja lopann líkt og gerðist í fyrra þegar bændur voru komnir í göngur, ríkisstjórnin sprakk og allt fór í hnút. En róttækar hugmyndir verður að ræða og það þarf kjark til að breyta hlutunum. En hvað geta neytendur gert til að leggjast á árarnar með bændum? Þeir hafa sýnt að þeim er ekki sama um örlög stéttarinnar. Nýleg umfjöllun og áhugi á fyrirkomulagi viðskipta með bújarðir sýnir að fólk vill áfram reka landbúnað á Íslandi. Kaupum íslenskar búvörur og ýtum þannig undir matvælaframleiðslu í landinu. Hugsum um kolefnisfótsporið, litla lyfjanotkun, dýravelferð og atvinnu fólks þegar við kaupum í matinn. Biðjum kokkana í mötuneytinu að velja íslenskt og spyrjum þjónana á veitingastöðunum hvaðan steikin kemur eða hráefnið í hamborgarann er fengið. Eru stórmarkaðirnir að standa sig í að merkja hvaðan allt grænmetið er ættað og eru íslenskar vörur aðgengilegar í búðunum? Neytendur geta haft mikil áhrif ef þeir vilja. Fram undan er starf samningahópa bænda og ríkisvaldsins við samningaborðið. Leyfum þeim að vinna sína vinnu. Látum ekki hælbíta og aftursætisbílstjóra, sem telja sig allt vita og geta betur, afvegaleiða umræðuna. Það hefur enginn ennþá bent á töfralausnina enda er hún ekki til. Í tímabundnum erfiðleikum er nauðsynlegt að hafa sýn og finna lausnir út úr vandanum. Í sauðfjárræktinni hafa bændur borið gæfu til þess á síðustu árum að móta stefnu og ræða nýjar hugmyndir. Að mörgu leyti hafa erfiðleikarnir þjappað mönnum saman og dæmi eru um nýjar leiðir sem hafa þegar skilað árangri. Þar má nefna aukna vöruþróun, meiri rekjanleika, nýja veitingastaði sem bjóða eingöngu upp á lambakjöt og fleiri veitingamenn sem hafa ákveðið að halda uppi merkjum íslenska lambakjötsins. Sú vinna sem markaðsstofan Icelandic Lamb hefur ráðist í er metnaðarfull og í fyrsta sinn er unnið með eitt vörumerki og mörkuð langtímastefna í markaðsmálum. Nokkur árangur hefur nú þegar náðst í að auka sölu á lambakjöti til ferðamanna, úrval hefur aukist og vöruþróun er á blússandi siglingu. Útflutningur á vissa markaði gengur vel en betur má ef duga skal. Þegar til lengri tíma er litið er útlitið ekki svo dökkt. Í heimi þar sem stöðugt þarf meiri mat og þurrkar og óáran herja á gamalgróin landbúnaðarsvæði verður sífellt verðmætara að eiga heilbrigða búfjárstofna, nægt land og bændur sem kunna til verka. Eins og við eigum hér á Íslandi. /TB Léttum kolefnissporin og veljum íslenskt Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: Rekstur og markaðsmál: tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Bjarni Rúnarsson br@bondi.is – Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – augl@bondi.is Vefur blaðsins: www.bbl.is bbl@bondi.is Prófarkalestur: Guðrún Kristjánsdóttir – ÍSLAND ER LAND ÞITT Gunnar Þorgeirsson formaður Sambands garðyrkjubænda gunnar@artangi.is Mynd / Hörður Kristjánsson

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.