Bændablaðið - 02.08.2018, Blaðsíða 10

Bændablaðið - 02.08.2018, Blaðsíða 10
Bændablaðið | Fimmtudagur 2. ágúst 201810 FRÉTTIR Landbúnaðarháskóli Íslands: Aðeins 25 til 30 búfræðingar útskrifast á ári Á hverju ári berast milli 40 og 60 umsóknir í búfræðinám Landbúnaðarháskóla Íslands en vegna fjárskorts eru einungis teknir inn 25 til 30 nemendur. Fjöldi nemenda í búvísindum á BS-stigi er um 25. Alls bárust LbhÍ 350 umsóknir um nám næsta skólaár, þar af um 160 í starfsmenntanám, búfræði og í garðyrkju. Stjórnarmaður í Bænda sam- tökunum telur útskrifaða nem- endur í búfræði ekki standa undir nauðsynlegri endurnýjun í landbúnaði. Auk þess sem skortur er á nemendum í meistara- og doktorsnám við Land búnaðar- háskóla Íslands. Einar Ófeigur Björnsson, bóndi að Lóni II og stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands, segist hafa áhyggjur af starfi Landbúnaðarháskóla Íslands og segir skólann ekki útskrifa nægilega marga búfræðinga til að standa undir nauðsynlegri endurnýjun í landbúnaði. Hann segir að annað hvert ár þurfi að taka inn fleiri nemendur í búfræðideild skólans eða leita þurfi samstarfs við einhverja framhaldsskóla svo að hægt sé að ljúka búfræðinámi frá þeim. Nauðsynlegt að fjölga útskrifuðum búfræðingum „Mér skilst að það útskrifist tæpir 30 búfræðingar á ári og ef við gefum okkur að bændur í landinu séu um 3.000 þá tekur um hundrað ár að endurnýja bændastéttina, að því gefnu að allir útskrifaðir búfræðingar gerist bændur. Þannig er það þó ekki því að það má gefa sér að sex til tíu af þessum 30 fari í framhaldsnám og ekki allir sem fara í búskap, eins og allir vita, og fara til annarra starfa. Ég held því að gróft áætlað getum við gefið okkur að hámark 15 útskrifaðir búfræðingar á ári fari í almennan búskap sem þýðir að það tekur 200 ár að endurnýja bændastéttina og það er of langur tími. Einar segir að þessi staða sé búin að vera viðvarandi lengi. „Mér skilst að aðsókn í bændadeildina sé næg en að það sé ekki nema hluti umsækjenda tekinn inn. Fljótt á litið sýnist mér að ef við viljum hafa menntaða bændastétt í landinu þá þarf að lágmarki að útskrifa um 45 búfræðinga á ári og hugsanlega 60 ef vel á að vera.“ Að sögn Einars hefur þróun í landbúnaði undanfarin ár verið sú að búum fækkar og þau stækka og bændum hefur verið að fækka en það kemur að endamörkum í því. „Það sem sló mig í ræðum við útskrift á Hvanneyri í vor var að enginn ræðumanna minntist á bændadeildina og öll áherslan var lögð á háskólahluta námsins við skólann og það nefndi enginn að það þyrfti að standa vörð um búfræðinámið. Persónulega er ég á því að það ætti að koma á búfræðibraut í einhverjum framhaldsskólum þar sem hægt er að læra búfræði. Námið á Hvanneyri er mörgum nemendum dýrt, sérstaklega þeim sem koma langt að, og því æskilegt að það sé boðið upp á búfræðinám nærri heimabyggð.“ Tveggja ára nám Búfræðinám við Landbúnaðar- háskóla Íslands er tveggja ára nám á starfsmenntasviði, bæði staðarnám og fjarnám. Markmið búfræðináms er að auka þekkingu og færni einstaklingsins til að takast á við búrekstur og alhliða landbúnaðarstörf, ekki síst á sviði rekstrar, bútækni, jarð- og búfjárræktar. Ólöf Ósk Guðmundsdóttir, landbúnaðarfræðingur og brautarstjóri búfræðideildar Landbúnaðarháskóla Íslands, segir að síðustu ár hafi 25 til 30 nemendur útskrifast sem búfræðingar á ári. Aðspurð hvort það sé nægur fjöldi til að mæta endurnýjun í bændastétt segir Ólöf að skólinn sé ekki með neina stefnu hvað það varðar. „Aðsóknin að skólanum er meiri en hann nær að anna. Umsóknir á ári eru milli 40 og 60 en við getum ekki tekið inn nema 25 til 30 nemendur á ári vegna fjárskorts. Það vantar einnig fleiri kennara og til að ráða fleiri kennara þarf meira fjármagn og það er pólitísk ákvörðun.“ Ólöf segir í sjálfu sér snúið að reka háskóla með starfsmenntadeild en að metnaður fyrir búfræðideild skólans sé mikill og engu minni en fyrir öðru námi hjá Landbúnaðarháskólanum enda deildin mikilvæg. „Næstkomandi vetur verða teknir inn 25 staðarnemar og 10 nemar í fjarnámi og er það í fyrsta sinn í nokkur ár sem teknir eru inn fjarnemar sem koma til okkar í starfbundnar lotur nokkrum sinnum á ári.“ Skortur á meistara- og doktorsnemum Samkvæmt upplýsingum B i r n u K r i s t í n a r B a l d u r s - d ó t t u r , brautar stjóra búvís inda- deildar LbhÍ, er fjöldi umsækjenda í BS-nám í bú vísindum svip aður og undanfarin ár. „Nemendur í búvísindum sem útskrifast með BS-próf hafa verið 25 á ári og stór hluti þeirra fer í búskap að náminu loknu en minna um að þeir fari í framhaldsnám og í raun skortur á nemendum í meistara- og doktorsnámi.“ Góð aðsókn í garðyrkjunám Í garðyrkjunám að Reykjum bárust 73 umsóknir og eru flestar þeirra í garðyrkjuframleiðslu. Það er sambærilegt og þegar tekið var síðast inn í skólann fyrir tveimur árum. /VH Birkið mikið nagað á Héraði Birki er nú víða brúnleitt að sjá á Héraði vegna fiðrildalirfa sem hafa náð sér vel á strik þar í sumar. Skil sjást í hlíðum og ofan þeirra er skógurinn grænn. Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi, telur að helsti sökudólgurinn sé haustfeti og tígulvefari, fiðrildalirfur sem náð hafa að fjölga sér mikið í sumar, til dæmis í Hallormsstaðaskógi. Ekki sömu skaðvaldar og í þéttbýlinu Enn hefur ekki borið á þeim nýju skaðvöldum eystra sem farnir eru að herja á birkið á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og víðar, svo sem birkikembu og birkþélu. Því eru það fyrst og fremst fiðrildalirfurnar sem gera birkið brúnt eystra. Þetta kemur fram á vef Skógræktarinnar, skogur.is. Vorið var hagstætt gróðri Góður vöxtur er í barrtrjám í skógum eystra líkt og verið hefur undanfarin sumur. Árið í fyrra hafi verið hagstætt öllum trjágróðri austanlands, en mikið ryð hafi þó verið í birkiskóginum það árið. Vorið var hagstætt gróðri þetta árið og án vorfrosta. Maí og júní komu með hlýindum. Vænta má þess að trén grænki nú aftur þegar lirfurnar hverfa úr trjánum en óvíst er hversu mjög ryðsveppurinn nær sér á strik í sumar. Hlýindi og þurrviðri gætu þó orðið til þess að slá á ryðið. /MÞÞ Umferð um innanlandsflugvelli: Færri farþegar á fyrri helmingi ársins en á sama tíma í fyrra Farþegum á innanlandsflugvöllum fækkaði um ríflega 8 þúsund á fyrri helmingi þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Bretlandsflug frá Akureyri vegur upp á móti samdrættinum. 377 þúsund farþegar Rétt rúmlega 377 þúsund farþegar fóru um flugvelli landsins á fyrri helmingi árs ef Keflavíkurflugvöllur er frátalinn. Þetta er rúmlega 8 þúsund færri farþegar en á sama tímabili í fyrra. Ef litið er til fyrstu sex mánaða áranna á undan hefur fjöldinn í ár verið rétt undir meðaltalinu, sem er um 388 þúsund, á þessari öld. Þó ber að hafa í huga að hinn mikli fjöldi sem nýtti sér innanlandsflugið árin 2000, 2007 og 2008 hífir upp meðaltalið. 5% fækkun farþega um Reykjavíkurflugvöll Á fyrri helmingi þessa árs fækkaði farþegum á Reykjavíkurflugvelli um nærri 5 af hundraði en samdrátturinn var minni á Egilsstöðum. Um flugstöðina á Akureyri fóru hins vegar fleiri en á sama tíma í fyrra en horfa verður til þess að 3.525 farþegar flugu milli Akureyrar og Bretlands fyrstu þrjá mánuði ársins samkvæmt tölum frá breskum flugmálayfirvöldum. Um var að ræða leiguflug á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break og því ekki farþegar í innanlandsflugi. Þetta var í fyrsta skipti sem þessar ferðir voru í boði og ef ekki hefði komið til þeirra hefði þróunin á flugstöðinni á Akureyri verið neikvæð í ár líkt og í Reykjavík og Egilsstöðum. Flugi hætt á Sauðárkrók Í tölum Isavia er farþegafjöldinn á öðrum flugvöllum ekki sundur- liðaður. Þar sést til að mynda ekki hversu margir nýttu sér ferðir Ernis til Sauðárkróks en tilraun flugfélagsins til að halda úti áætlunarferðum þangað frá Reykjavík var hætt nú í sumarbyrjun. Þegar tölur í innanlandsflugi eru skoðaðar verður líka að hafa í huga að Air Iceland Connect hefur frá því í ársbyrjun í fyrra boðið upp á beinar ferðir frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar. Sú þjónusta er aðeins í boði fyrir þá sem eru að koma úr eða á leið í millilandaflug og þar er því ekki um að ræða hefðbundið innanlandsflug. Flugfélagið hefur gert hlé á þessum áætlunarferðum í sumar en tekur þráðinn upp í haust. Þetta kemur fram á vefnum túristi.is. Samstarfsverkefni um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu: Gæta þarf hagsmuna bænda Hálendið er samstarfsverkefni fjölmargra samtaka sem vilja standa vörð um náttúru miðhálendisins. Stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands segir að gæta þurfi hagsmuna bænda verði þjóðgarðurinn að veruleika. Tuttugu og átta samtök í náttúruvernd og útivist, auk samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Á heimasíðunni halendi.is segir meðal annars að miðhálendi Íslands sé eitt stærsta landsvæði í Evrópu sem aldrei hefur verið numið af mönnum. Sérstaða svæðisins felst í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss, óvið jafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu. Skipulagsvaldið tekið af sveitafélögunum Gunnar Kr. Eiríksson, bóndi Túnsbergi og stjórnarmaður í BÍ, segir að með stofnun h á l e n d i s - þjóðgarðs sé verið að taka skipu lagsvaldið af sveitar félögunum og færa það til ríkisins. „Stærstur hluti svæðisins sem um er að ræða eru þjóðlendur og eitt af því sem þarf að gæta að er hvernig hálendið verður nýtt. Má þar nefna upprekstur og alla almenna umferð um hálendið, hvort heldur er gangandi, ríðandi eða á vélknúnum ökutækjum. Ég sé fyrir mér að það verði settar einhvers konar skorður hvað nýtingu varðar í þjóðgarðinum, en tel að við verðum að gæta hagsmuna bænda hvað það varðar og alls almennings í landinu. Ég vil ekki að þegar upp verður staðið, verði allt bannað, eins og beit, umferð ökutækja og hrossa, nema gegn sérstökum undanþágum. Hugmyndin um hálendisþjóðgarð er á umræðustigi enn sem komið er. Nauðsynlegt væri að koma að málinu strax og ræða um það í sátt og samlyndi allt frá upphafi. Aðkoma bænda að málinu er í gegnum sveitarstjórnir og hags munafélög og tel ég æski- legt að fulltrúar þeirra fundi með umhverfisráðherra sem fyrst um málið,“ segir Gunnar. /VH Einar Ófeigur Björnsson. Ólöf Ósk Guðmundsdóttir. Birna Kristín Baldursdóttir. Gunnar Kr. Eiríksson. Mynd / Pétur Halldórsson

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.