Bændablaðið - 02.08.2018, Blaðsíða 14
Bændablaðið | Fimmtudagur 2. ágúst 201814
VEIÐIFRÉTTIR
Fyrsti fiskurinn
Systurnar Ísold og Æsa voru
öflugar í veiðinni um helgina
og voru ákveðnar í að fara ekki
fisklausar heim úr veiðitúrnum.
Það gekk upp hjá þeim systrum,
þar sem Ísold fékk sinn fyrsta fisk í
ferðinni og var mjög stolt og ánægð
með urriðann sem reyndist vera um
fjögur pund. Æsa fékk sinn fyrsta fisk
á sama aldri og reynsla hennar kom
að góðum notum við að hjálpa litlu
systur við löndunina. Fiskurinn tók
maðk og náðist upp í Hítardal í ágætu
veðri, nánast logn en skýjað.
Ísold Katla sagðist hafa verið
rosalega spennt fyrir að fara að veiða
og næstum því ekki sofnað kvöldið
áður.
,,Ég var að taka saman fullt af
veiðidóti og gera allt tilbúið fyrir
veiðiferðina, daginn áður. Mig
langaði mikið að veiða fisk vegna
þess að ég er yngst af systkinunum
og öll hin eru búin að fá sinn fyrsta
fisk og elstu bræður mínir eru líka
búnir að fá fullt af löxum.
Ég var að veiða helgina áður en
flóðið féll úr fjallinu á móti ánni, sem
betur fer gerðist það ekki þegar ég var
að veiða. Ég er búin að skoða myndir
af fjallinu og flóðinu. Pabbi sagði að
það hefði verið svo mikið vatn ánni,
mesta sem hann hefði séð í 35 ár.
Ég fékk fisk sem mér fannst vera
með mikið af doppum á og ég kallaði
hann bara blettatígursfisk, þangað
til að pabbi sagði mér að hann héti
urriði. Hundarnir mínir, Tumi og
Elvis, urruðu á fiskinn og geltu mikið
en róuðu sig fljótlega.
Ég á eftir að fara í marga veiðitúra
seinna og finnst mjög gaman að
veiða,‘‘ segir Ísold Katla Ýr í
símaviðtali þar sem hún er stödd á
Írlandi í skemmtiferð með fjölskyldu
sinni.
Veiddu 111
grænlenskar bleikjur
Margir fara utan á hverju ári til
veiða. Við heyrðum í veiðimanni
sem var að koma frá Grænlandi,
en þar veiða menn bleikjur. En
mjög lítið er um lax þar, mest
flottar bleikjur og sterkar.
,,Loksins, loksins var komið að
því: Bleikjuveiði á Grænlandi! Þessi
ferð var búin að vera á óskalistanum
hjá mér í fimm ár,“ sagði Hafþór
Óskarsson, sem var að koma úr
veiðiferð til Grænlands en þar er
veitt á stöng og dýr skotin.
,,Við lentum á Narsasuaq og þar
tók á móti okkur Rassmus, sem
sigldi með okkur í Lax-á búðirnar
en siglingin tók rúma þrjá tíma.
Það var skemmtileg upplifun að
sigla á milli ísjakanna og upplifa
þetta stórkostlega landslag. Þegar í
búðirnar kom þá tók staðarhaldarinn
á móti okkur, hann Bóbó, sem sýndi
okkur aðstæður og fór yfir allar
öryggisreglur og veiðiplön næstu
daga.
Við fórum á mismunandi
veiðistaði og siglingin tók frá 5
mínútum og upp 70 í mínútur á
milli veiðistaða. Ég hélt dagbók yfir
veiðina. Þetta voru þrír dagar í veiði
og við veiddum ca 5–7 tíma á dag.
Við Gísli vorum með 111 bleikjur
sem við lönduðum og þær voru á
bilinu 45–63 cm langar bleikjurnar.
Á Grænlandi eru bleikjurnar
vel haldnar og gífurlega sterkar og
skemmtilegar í töku. Helstu flugur
sem voru að gefa voru Nobblerar í
skærum litum en einnig vorum við
að taka þær á Krókinn, blóðorm og
nokkrar á þurrflugu líka. Það var
alltaf leiðsögumaður með okkur og
ef einhver veiðistaður var ekki að
gefa þá var bara farið upp í bát og
siglt á þann næsta. Ég mæli eindregið
með þessum ferðum, þetta var mjög
gaman,“ sagði Hafþór.
Mynd / Hrönn Thorarensen
Miðhraun 2 210 Garðabær Sími 587 1300 kapp@kapp.is www.kapp.is
ALHLIÐA
VÉLAVERKSTÆÐI
Hafðu samband í síma 587 1300
og við sérsníðum lausn sem hentar þér!
Mynd / Gísli
Enginn fiskur
tekið enn þá
,,Það er gaman að veiða en það
hefur enginn fiskur tekið enn þá,
kannski tekur hann bráðum,“
sagði Birkir Gunnarsson er
við hittum hann við Hraunsá.
Hún er í nágrenni Eyrarbakka
og Stokkseyrar og rennur úr
Hafliðakotsvatni til sjávar í
gegnum Skerflóð.
Sagt er að mikið sé af fiski
í Hafliðakotsvatni en vatnið er
einungis fimm metra yfir sjávarmáli
en mest veiðist þar bleikja og líka
sjóbirtingur.
Birkir var þarna með tvo
aðstoðarmenn, eða öllu heldur
aðstoðarkonur, en flestir veiðimenn
eru bara með einn. ,,Kannski fæ ég
fisk á eftir, vona það,“ sagði Birkir
og kastaði fimlega fyrir fiska sem
reyndar sáust illa í litaðri ánni. En
hann var að kippa í og aldrei að vita
hvenær hann tæki agn veiðimannsins
unga.
Mynd / María Gunnarsdóttir
Varaformaður Norges bondelag um þurrkana í Noregi:
Nauðsynlegt að
stjórnvöld stígi inn
Bjørn Gimming, varaformaður
norsku Bændasamtakanna,
býr á sveitabæ við Halden
í Østfold-sveitarfélaginu í
Noregi. Þar rekur fjölskyldan
bú sem framleiðir nautakjöt
og korn. Hann er svo lánsamur
að hafa getað vökvað að vild
að undanförnu og telur því að
hann muni sleppa við að þurfa
að kaupa fóður en að þau muni
gefa gripunum hálm til viðbótar.
Bjørn segir ljóst að tjón bænda í
Noregi verði gríðarlegt þegar upp
er staðið og skilur að vissu leyti
gremju sumra bænda yfir því að
forsætisráðherra landsins, Erna
Solberg, hafi ekki verið sýnileg
eða sýnt bændum stuðning á
erfiðum tímum.
Ástandið erfitt bændum
„Það eru margir bændur í erfiðri
stöðu og það fer á sálina á mörgum.
Þá er auðvitað mjög gott að fá
athygli og hvatningu frá æðstu
ráðamönnum þjóðarinnar. Við hjá
Bændasamtökunum erum í mjög
góðu sambandi við Jon Georg Dale,
matvæla- og landbúnaðarráðherra
Noregs, og hann fær stöðugt fréttir
af þróun mála um allt land. Hann
hefur heimsótt bændur og séð
með eigin augum hvernig staðan
er, sem er mjög gott. Það verður
nauðsynlegt að ríkisstjórnin og
forsætisráðherra stígi inn og
taki meiri þátt fyrir bændur
þegar við fáum betri yfirsýn yfir
afleiðingarnar og þá hugsanlega
þörf á frekari aðstoðarúrræðum,“
útskýrir Bjørn. /ehg