Bændablaðið - 22.03.2018, Blaðsíða 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 22. mars 2018
Í þessum 3. hluta greinaflokksins
Ferðalag með Feng er fjallað um
þróun skýrsluhalds í hrossarækt á
fyrstu árum þess hjá Búnaðarfélagi
Íslands og um nýtt forrit, sem kom
til sögunnar árið 1994 og 1995 1. og
2. hluti birtust í Bændablaðinu 14.
desember 2017 og 11. janúar 2018.
Merkt starf Búnaðarfélagsins
Vægi vinnu við skýrsluhald í
hrossarækt hjá Búnaðarfélagi
Íslands fór vaxandi frá og með
árinu 1991, en fyrir þann tíma var
vinna við skýrsluhald í sauðfjár- og
nautgriparækt í algjörum forgangi.
Enda má segja að þær búgreinar hafi
lengi búið við skipulagt skýrsluhalds
sem byggði á sterkum stoðum, öflugu
ræktunarstarfi og almennri þátttöku
bænda um allt land. Búnaðarfélagið
lagði mikla áherslu á að byggja einnig
upp skýrsluhald í hrossarækt með
tilkomu skýrsluhaldskerfisins Fengs,
eins og komið hefur fram í 1. og 2.
hluta þessa greinaflokks. Þannig
fór meiri en fjórðungar vinnutíma
skráningarfólks í tölvudeild félagsins
í vinnu vegna skýrsluhalds í
hrossarækt á árunum 1992-1994,
sem var svipað hlutfall og vinna við
skýrsluhald í sauðfjárrækt. Næstu
tvö árin á eftir fór þetta hlutfall í
um 40%. Greinarhöfundur skrifaði í
starfsskýrslu sína vegna ársins 1994:
,,Skýrsluhaldið í hrossaræktinni
hefur fest sig í sessi. Þó að stærsti
hluti vinnunnar fari nú orðið í hið
árlega skýrsluhald fer mikill tími
ennþá í að yfirfara og skrá eldri
upplýsingar um kynbótadóma og
ætterni hrossa. Það er hins vegar
ljóst að sú endurskipulagning og
það átak sem ráðist var í árið 1991
hefur skilað góðum árangri. Þetta
verða þúsundir hrossaræktenda,
um allt land, varir við í sínum
störfum og lýsti greinarhöfundur
Morgunblaðsins fyrir hrossaræktina
þessari endurskipulagningu sem
„grettistaki“ og Jónas Kristjánsson
ritstjóri DV m.m. lýsti ánægju með
„merkt“ starf Búnaðarfélagsins í
þessum efnum í formála árlegrar
bókar sinnar um hrossarækt.“
(Búnaðarrit 1995, 108. árgangur).
Í upphafi árs 1993 var kynbótamat
eða kynbótaspá hrossa, sem var
reiknað með svokallaðri BLUP-
aðferð með forritum dr. Þorvaldar
Árnasonar, búfjárkynbótafræðings,
orðið hluti af Fengsforritinu.
Í lok árs 1994 höfðu 61.270 hross
verið skráð í gagnagrunn Fengs,
sem var fjölgun um 20.000 hross á
tveimur árum. Unnið var samhliða
að því að skrá inn kynbótadóma
af kynbótasýningum á Íslandi og
höfðu 19.332 dómar verið skráðir í
lok árs 1994. Bæði var um að ræða
dóma þess sýningarárs en ekki síður
eldri kynbótadómar, en áhersla var
lögð á skráningu allra kynbótadóma
til styrkja stoðir kynbótamatsins
(BLUP). Skráning á ætterni
kynbótahrossa þjónaði sama tilgangi.
Stærð gagnasafns Fengs innihélt, 27.
janúar 1998, 99.425 hross, 23.780
kynbótadóma, 66.198 fangfærslur
og upplýsingar um 9.787 eigendur
hrossa.
Í Morgunblaðinu 12. október
1994 er Búnaðarfélag Íslands
hrósað fyrir að hafa lyft grettistaki
í endurskipulagningu skýrsluhalds
hrossaræktarinnar. Þar sagði orðrétt:
„...hverjum þeim sem fylgst
hefur með endurskipulagningu
skýrsluhalds hrossaræktarinnar hjá
B.I. síðustu árin dylst ekki að þar
hefur verið lyft grettistaki.“
Greinarhöfundur var Valdimar
Kristinsson, en hann skrifaði
reglulega um hrossarækt í
Morgunblaðinu.
Út-Fengur var nýtt systurforrit
Fengs sem var smíðað í tölvudeild
Búnaðarfélagsins árið 1995 til að
halda utan um útflutning á hrossum og
útgáfu upprunavottorða. Út-Fengur
umbylti vinnufyrirkomulagi við
útgáfu upprunavottorða, og byggði
upp gagnasafn um öll hross sem flutt
voru úr landi.
Fengur heim í hlað
Með upplýsingatækninni
jókst aðgengi almennings að
upplýsingum. Upplýsingatæknin
opnaði marga heima og eins og
greinarhöfundur skrifaði í inngangi
fyrrnefndrar starfsskýrslu þá
færði upplýsingatæknin ,,heiminn
heim í hlað”. Þó að Fengur hafi
upphaflega skrifaður sem miðlægt
gagnavörslukerfi fyrir skýrsluhald
í hrossarækt á landsvísu, kom fljótt
upp áhugi á, að gerð yrði útgáfa
fyrir einmennistölvur, afbrigði af
Feng, sem nýttist hinum almenna
hrossaræktanda. Árið 1994 var
Internetið ennþá handan við
hornið, og því þurfti að smíða
forrit fyrir einmennistölvur, sem
voru að verða almenningseign.
Búnaðarfélag Íslands ákvað að slá
til og fól greinarhöfundi að smíða
forrit með afriti af gagnagrunni
Fengs. Í mars mánuði 1994 kom
út prófunarútgáfa, útgáfa 0,7, en í
desember sama ár kom á markað
útgáfa 1,0 af forriti fyrir einkatölvur
í Dos-stýrikerfinu. Forritið hlaut
nafnið Einka-Fengur og kom forritið
á 16 disklingum, enda gagnamagnið
22 Mb að stærð og gagnagrunnurinn
innihélt upplýsingar um 60
þúsund hross. Forritið var skrifað
í hlutbundna forritunarmálinu
Turbo Pascal og gagnagrunnshluti
forritsins var skrifaður með
Paradox Engine gagnaköllum og
gagnagrunnur var Paradox. 60
eintökum af fyrstu útgáfu Einka-
Fengs var dreift fyrir árslok
1994 til fimm landa auk Íslands.
Áskrifendum fjölgaði á næstu árum
með aukinni tölvueign og fjölgun
áhugafólks um íslenska hestinn.
Útgáfa 1,5 kom út í nóvember
1995 með gagnauppfærslu þar
sem bættust við 15 þúsund hross,
uppfært kynbótamat og kynbótaspá
fyrir ófætt afkvæmi. Útgáfa 1,5A
kom út árið 1996 með vandaðri
notendahandbók en með útgáfu
2,0 árið 1997 var Einka-Fengur
leystur af hólmi með Veraldar- og
Íslandsfeng og voru þá áskrifendur
orðnir um 200 talsins í 12 löndum.
Einka-Fengur kynnti til sögunnar
,,heimaréttina“, sem ennþá gegnir
lykilhlutverki í Feng nútímans,
WorldFeng. EinkaFengur opnaði
hrossaræktendum og áhugafólki
um hrossarækt hér á landi og
erlendis aðgang að yfirgripsmiklum
upplýsingum um íslensk hross, svo
sem um ættir hrossa, eigendur og
kynbótadóma. Jafnframt því að opna
notendum aðgang að gagnasafni
Búnaðarfélags Íslands um
hrossarækt gat hver og einn auðgað
gagnasafn forritsins með því að skrá
upplýsingar um eigin hrossarækt.
Árlega fengu áskrifendur uppfærslu
af gagnasafni Búnaðarfélagsins. Þar
var um að ræða kynbótadómar hvers
árs og viðbætur frá þátttakendum
skýrsluhaldsins á landsvísu,
upplýsingar um frostmerkingar og
nýtt kynbótamat. Alþjóðleg útgáfa
af Einka-Feng var gefin út undir
heitinu PC-Fengur á ensku og þýsku
á árinu 1996.
Í viðtali við dagblaðið
Dag á Akureyri 1. febrúar
1995 sagði Kristinn Hugason,
hrossaræktarráðunautur, reikna með
því að framsæknir og nútímalegir
hrossabændur, sem hefðu tölvuvæðst
á annað borð, mundu fá sér
Einka-Feng. „Sá kunni ræktandi
Sveinn Guðmundsson og fjölskylda
hans á Sauðárkróki voru með þeim
fyrstu til að fá sér forritið en einnig
er forritið sérlega hentugt fyrir
þá sem taka að sér hrossasölu og
útflutning.“
Einka-Fengur var síðan leystur af
hólmi með Veraldarfeng árið 1997
og Íslandsfeng árið 1998, og verður
fjallað um það í 4. hluta Ferðalags
með Feng.
Ferðalag með Feng – 3. hluti
HROSS&HESTAMENNSKA
Jón Baldur Lorange
verkefnisstjóri
WorldFengs
jbl@mast.is
Hryssa með folald í Hlíðardal ofan við Flúðir. Mynd / HKr.
100 ára fullveldi Íslands 2018:
Hönnunarsamkeppni á Fullveldispeysu í tengslum
við Prjónagleði 2018 á Blönduósi
Í tilefni 100 ára fullveldis Íslands
efnir Textílsetur Íslands á
Blönduósi til hönnunarsamkeppni
á Fullveldispeysu í tengslum við
Prjónagleði 2018.
Markmiðið með samkeppninni
er að draga fram samlíkingu á milli
fortíðar og nútíðar í sögu lands og
þjóðar með tilvísun til fullveldis
Íslands. Allir geta tekið þátt en
skila verður inn myndum af fullbúnu
verki fyrir 10. maí 2018 á netfangið
samkeppni.textilsetur@simnet.is.
Þriggja manna dómnefnd mun
síðan kalla inn þær peysur sem
þykja sigurstranglegastar. 20
peysur verða valdar úr innsendum
myndum og verða þær sýndar í
Félagsheimilinu á Blönduósi, 8.-10.
júní nk. á Prjónagleðinni. Veitt verða
verðlaun fyrir frumlegustu og bestu
útfærsluna
Prjón er hin hljóða iðja
Jóhanna Pálmadóttir hjá Textílsetri
Íslands á hugmyndina af
Fullveldispeysunni.
„Já, þegar ég sá auglýsinguna um
að landsmönnum væri boðið að taka
þátt í hátíðarhöldum í tengslum við
100 ára fullveldi Íslands fannst mér
einboðið að við værum þátttakendur
í því sem hefur haldið lífi í þjóðinni
í aldir.
Prjón hefur verið vinna kvenna
sem hingað til hefur ekki verið metin
að verðleikum og því viljum við með
Prjónagleðinni og nú með þátttöku
í hátíðarhöldum í tengslum við 100
ára fullveldi Íslands hefja prjónið
upp á æðra plan.
Ástæða þess að peysa var valin
en ekki annað prjónles er hreinlega
vegna þess að fátt er þjóðlegra en
peysa, ekkert prjónlesi hefur fylgt
tísku eins vel og peysuprjón. Peysa
vekur öryggi, hlýju og hún umvefur
mann, sem er augljós tenging við
fullveldi Íslands,“ segir Jóhanna.
Verður að vera úr íslenskri ull
En eru einhver sérstök þátt-
tökuskilyrði í samkeppninni ?
„Við viljum fá alls konar
peysur en skilyrði er að þær séu
úr íslenskri ull. Peysurnar þurfa
að höfða til þema Prjónagleðinnar
„100 ára fullveldi Íslands“ með
einum eða öðrum hætti að öðru
leyti leggjum við þetta í hendur
prjónafólksins. Fólk beðið um
að senda inn myndir sem valið
verður úr u.þ.b. 20 peysur sem
síðan koma til dómnefndar,“
segir Jóhanna og bendir á nánari
upplýsingar á þessari heimasíðu;
http://prjonagledi.is/knitting-
competition/. Skila verður inn
ljósmyndum af fullbúnu verki
fyrir 10.maí 2018 á netfangið
samkeppni.textilsetur@simnet.is
með fullu nafni og símanúmeri.
Samkeppnin er unnin í samvinnu
við nefnd vegna 100 ára fullveldis
Íslands og Ístex. Sá sem sér um
samskiptin við prjónafólki situr
ekki í dómnefnd og heitir fullum
trúnaði. /MHH
Prjónagleði: Allir mega taka þátt í hönnunarsamkeppninni um Fullveldispeysuna 2018 en veitt verða 1. 2. og 3.
verðlaun á hátíðarkvöldverði Prjónagleðinnar og verða útvöldu peysurnar til sýnis á Prjónagleðinni. Óskað er
peysum í framhaldinu. Textílsetrið hvetur alla þá sem hafa áhuga á að vera með til að vinda sér í að hanna og prjóna
Fullveldispeysu enda er unnið hörðum höndum að því að gera prjón sýnilegt og er þetta fullkomið verkefni til þess.